Að finna karlrembu sinni farveg í feminisma

knus

Ég hef oft fundið fyrir því viðhorfi að konur séu í eðli sínu ósjálfstæðar og vanhæfar. Ég finn t.d. fyrir því þegar fólk telur víst að ég hafi áhuga á því að láta karlmann ritstýra mér.

Oftast hefur þetta gerst með þeim hætti að karlar hafa óbeðnir gefið mér „góð ráð“ varðandi ritstíl og það hvernig ég kynni sjálfa mig.  Ég hef fengið slík hollráð frá kærustum mínum og bólfélögum, en þó – merkilegt nokk, eingöngu þeim sem sjálfir ráða tæpast við að skrifa stöðulínu á fb án þess að verða sér til skammar. Ég hef líka fengið „góð ráð“ frá bláókunnugum mönnum sem hvorki eru þekktir fyrir áhugaverð skrif né markaðssetningu. Ég er ekki að tala um þá sem benda mér á áhugavert lesefni, koma með uppástungur um umfjöllunarefni eða benda mér á óvirkan tengil eða villur í textanum mínum. Slíkar ábendingar eru vel þegnar. Ég á við þá sem segja mér að ég þurfi að vera fyndnari, skrifa styttri pistla eða gefa dúllulegri mynd af sjálfri mér.

Ég fékk óumbeðna ráðgjafarþjónustu af þessu tagi reglulega á meðan ég var einhleyp en nú hefur þetta ekki gerst meira en ár. Hinsvegar hefur komið fyrir að fólk hefur látið að því liggja eða jafnvel fullyrt að maðurinn minn ritstýri mér. Einn kommentarinn hélt því m.a.s. fram að Einar hugsaði fyrir mig. Um miðjan janúar varð ég síðast fyrir aðdróttunum um að maðurinn minn skrifi í gegnum mig en í þetta sinn af hálfu konu, yfirlýsts feminista og kynjafræðings.

Það var á hinu indæla tjásukerfi knuz.is sem téður feministi hélt  því fram að við Einar hefðum farið saman í gegnum dóma héraðsdóms, sem ég skrifaði um hér. Hún sagði einnig að Einar hefði farið með mér í heimsókn til Kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.  Hún spurði að vísu hvort sig misminnti og ég leiðrétti þetta að sjálfsögðu en líklega hefur mér mistekist að pósta því þau ummæli sjást ekki á Knúzinu. Ummælin sem ég á við eru eftirfarandi:

Það er kannski ekki skrítið að ég spyrði ykkur sambúðaraðilum saman í ljósi þess að Einar er alltaf mættur við hlið þér í “rökræður” í hvert skipti sem einhver gagnrýnir tittrædda heimildarvinnu þína. Að auki fór Einar með þér í “rannsóknarvinnu” eða úttekt ykkar á lögreglustöðina, Eða misminnir mig?

og

Ég held ég verði að´ústkýra þetta aðeins betur. Einar og Eva fóru saman í úttekt á kynferðisbrotadeild lögreglunnar til að kanna verklag hennar. Út frá því skrifaði Eva grein þar sem þetta kemur fram og Einar var mættur við hlið hennar í hverri umræður um málið.

Einar og Eva fóru saman í gegnum dóma héraðsdóm í kynferðibrotamálum og Eva skrifaði um það nokkrar greinar þar sem hún deildi þeirri sýn sinni að ekkert væri að réttarkerfinu. Einar var mættur við hlið hennar í hverri umræður um málið.

 

Þessi kona hefur enga ástæðu til að halda að Einar hafi farið með mér í þessa vettvangsferð eða legið yfir dómum með mér en heimsókn mín til Kynferðisbrotadeildar hefur farið óskaplega fyrir brjóstið á ákveðnum dólgafeministum. Þeir kvenhyggjusinnar sem hafa tjáð sig um viðtalið halda því fram að ekki sé hægt að taka neitt mark á upplýsingum sem lögreglan gefur um verklagsreglur sínar. Ekki fékk ég þó nein svör við þeim spurningunum sem ég beindi til gagnrýnenda minna í þessum örstutta pistli.

Þessi tilefnislausa ágiskun, um að Einar taki beinan þátt í heimildaöflun minni, afhjúpar þá hugmynd að ef kona noti almennilegar heimildir hljóti skýringin að vera sú að karl standi á bak við hana. Heitir þetta viðhorf ekki karlremba?

Og ekki nóg með það að Einar hljóti að eiga hlut í skrifum mínum, heldur hefur hann líka gerst svo mikill fantur að taka undir með mér í umræðum á netinu. Ég bý í fyrsta sinn á ævinni við þann lúxus að eiga maka sem bæði er oft sammála mér og tekur þess vegna þátt í sömu umræðum og ég og hefur einnig varið mig þegar ráðist er á mig. Þótt ég sé einfær um að svara fyrir mig kann ég vel að meta það að fleiri bendi á rökvillur í málflutningi þeirra sem sjá heiminn með svokölluðum „kynjagleraugum“. Mér þykir líka notalegt að finna að maki minn standi með mér. Það er auðvitað um að gera að reyna að nota það til að gera lítið úr mér og ef það dugar ekki til þá má alltaf skálda upp sögur um það að Einar hafi verið með mér í verkefnum sem hann kom hvergi nálægt. Hér er hugmyndin um karlinn sem hið ráðandi afl notuð til þess að reyna að þagga niður í konu fyrir þá andfeminísku stórsök að skoða gögn í stað þess að gleypa bara fullyrðingar feminista um karllægt réttarkerfi hráar.

Þetta er aðeins eitt dæmi um það hvernig karlremban finnur sér farveg í feminisma. Kvenhyggjusinnar beita óhikað þeim karlrembuhugmyndum sem þeir gagnrýna aðra fyrir þegar það hentar þeim sjálfum. Ef maðurinn minn tekur undir það sem ég segi, sér karlrembufeminstinn það sem tækifæri til að reyna að þagga niður í öðru hvoru okkar eða báðum. Á sama tíma er riddararegla feministahreyfingarinnar sjaldan langt undan þegar kvenhyggjukona málar sig inn í horn með rökvillum, útúrsnúningum og vísunum í rannsóknir sem sýna eitthvað allt annað en hún segir.

Það er annars athyglisvert hvað samband okkar Einars virðist fara í taugarnar á feministum. Hér er krúttlegt dæmi frá riddarareglunni:

 

riddarar1

 

Eins og sjá má er það sem fer fyrir brjóstið á öðlingunum þessi frekjulega krafa „skoska rannsóknarréttarins“ um gögn og vísindalegar aðferðir. Nú hef ég verið að gagnrýna gervirannsóknir feminista og órökstuddar fullyrðingar þeirra í mörg ár en sú gagnrýni var að mestu leyti hundsuð þar til við Einar fórum að draga okkur saman. Einar hefur hinsvegar lítið tjáð sig um þessi mál fyrr en síðasta árið. Það skyldi þó ekki vera að krafan um að fólk styðji fullyrðingar sínar með gögnum sé óþægilegri þegar karlmaður setur hana fram? Hvað segja lesendur um þá tilgátu?