Eru Píratar kerfisflokkur?

Borgarfulltrúi Sósíalistflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, lýsti því yfir í gær að hún hygðist ekki taka þátt í myndun meirihluta í borgarstjórn. Viðbrögð margra, þar á meðal margra Pírata, voru að þetta væri slæmt, meðal annars af því að þannig væri hún að styrkja stöðu Viðreisnar varðandi meirihlutamyndun.

Fáum virðist detta í hug, jafnvel meðal Pírata, að velta fyrir sér hvort ástæða er til að mynda fastan meirihluta í borginni, sem semji fyrirfram um samstöðu allt kjörtímabilið. Samt er nákvæmlega ekkert sem krefst þess; þetta hefur bara verið venjan meðal þeirra valdaflokka sem líta á völd yfir almannahagsmunum sem herfang sitt, alveg eins og gerist við ríkisstjórnarmyndun.

Það er þó rétt að geta þess að Helgi Hrafn Gunnarsson hefur oftar en einu sinni bent á að minnihlutaríkisstjórnir gætu verið betri fyrir lýðræðið en hinar klassísku meirihlutastjórnir, og sumir Píratar hafa tekið undir þær pælingar, þótt aldrei hafi verið mótuð stefna af hálfu hreyfingarinnar hvað það varðar. Kosturinn við minnihlutastjórnir eins og þær sem hafa tíðkast mjög í Danmörku er að þær þurfa að semja sitt á hvað við aðra flokka um mál sem þarf að koma gegnum þingið. Þannig verða meiri líkur á að raunverulegur meirihluti sé á bak við slíkar ákvarðanir, sem oft er ekki tilfellið með meirihlutastjórnir á Íslandi, þar sem þingmenn „kyngja ælunni“ til að bregða ekki fæti fyrir mál sem samstarfsflokkar vilja fá í gegn, og sem samið hefur verið um í hrossakaupum stjórnarflokka.

Í borgarstjórn er ennþá minni ástæða til að mynda fastan meirihluta, því þar er ekki mynduð nein „ríkisstjórn“ sem þurfi að njóta stuðnings slíks meirihluta. (Auk þess tel ég að leggja ætti borgarstjóraembættið niður, í nafni valddrefingar og til að koma í veg fyrir að það sé áfram misnotað af þeim sem í því situr til að auglýsa sjálfan sig persónulega. Það ætti að vera nóg að hafa, eins og nú er, sviðsstjóra yfir ólíkum sviðum borgarinnar, sem eigi að starfa í samræmi við þær línur sem borgarstjórn leggur í hverju máli.)

Píratar hófu göngu sína sem hreyfing með það markmið að bæta stjórnkerfið, til að það þjónaði betur hagsmunum borgaranna. Auðvitað getur verið skynsamlegt að taka þátt í meirihlutasamstarfi, hvort sem er í ríkisstjórn eða sveitarstjórnum, til að koma slíku til leiðar. En það getur varla verið skynsamlegt að ganga inn í slíkt samstarf án þess að velta vandlega fyrir sér hvort hægt sé að laga kerfið án þess að binda sig heilt kjörtímabil eins og gömlu flokkarnir vilja að gert sé. Það tel ég að fari í bága við fyrstu tvær greinarnar í grunnstefnu Pírata:

1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.

1.2 Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru.

Ekki svo að skilja að með því að taka þátt í föstum meirihluta sé verið að afsala sér óafturkræft allt kjörtímabilið möguleikanum á að fara gegn öðrum flokkum í sama meirihluta í tilteknum málum. En það er hins vegar ljóst, vegna þess að við erum öll manneskjur, að með því að mynda í upphafi „lið“ sem ætli að standa saman allt kjörtímabilið, er hætt við að „liðshugsunin“ liti starf þeirra sem tilheyra því.

Ég tel að Píratar ættu að byrja á því að setja spurningarmerki við afstöðu „kerfisflokkanna“ í þessum málum. Og ég tel að það væri frekar í anda grunnstefnu Pírata að beita sér fyrir því að ekki verði myndaður fastur meirihluti í borginni, heldur verði samið um mikilvæg mál hvert fyrir sig, án þess að skipta í fastan meirihluta og minnihluta.

Mynd héðan: https://www.smashingmagazine.com/2010/09/fight-the-system-battling-bureaucracy/

Hættum að misbeita Dyflinnarreglugerðinni og tökum hælisumsóknir til efnismeðferðar

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er að við hættum að misbeita Dyflinnarreglugerðinni og tökum hælisumsóknir til efnismeðferðar. Halda áfram að lesa