Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er skikkanlegur leigumarkaður.
Það hefur aldrei verið til skikkanlegur leigumarkaður á Íslandi; hann hefur lengst af byggst á húsnæði sem einstaklingar hafa átt en ekki verið að nota í augnablikinu, og þess vegna verið afar ótryggur fyrir leigjandann, sem fyrirvaralítið missir heimili sitt af því að dóttir eigandans kemur allt í einu heim úr námi. Síðustu árin hafa vissulega orðið til félög sem eiga fjölda leiguíbúða, en það kemur ekki til af góðu, heldur því að þessi félög sjá sér leik á borði að raka saman gróða af því að leiguverð er orðið svo himinhátt að lítil íbúð kostar lungann úr tekjum þeirra sem minnst hafa.
Með þá háu raunvexti (og þar með ávöxtunarkröfu) sem verið hafa á Íslandi áratugum saman er útilokað að einkaaðilar geti boðið upp á leiguhúsnæði á viðunandi verði í stórum stíl. Þess vegna þarf hið opinbera að gera það mögulegt, af því að öruggt húsnæði, á viðráðanlegu verði, er grunnþörf sem við sem samfélag eigum að tryggja öllum.
Það þarf ekkert kraftaverk til að leysa þetta; hið opinbera getur einfaldlega látið byggja leiguhúsnæði og leigt út miðað við að raunvextir séu 1% en ekki þau 4% sem algeng hafa verið á Íslandi síðustu árin, enda getur ríkið tekið langtímalán erlendis á slíkum kjörum ef með þarf. Einnig gæti ríkið veitt lán á slíkum kjörum bæði leigu- og búseturéttarfélögum sem ekki væru hagnaðardrifin. Þessi 3% vaxtamunur myndi þýða 75 þúsund krónum lægri leigu á mánuði fyrir íbúð sem kostar 30 milljónir.
[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]