Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta en það er eitt mikilvægasta velferðarmálið.

Góð heilbrigðisþjónusta er grunnþörf sem við ættum að tryggja öllum borgurum, og það mega ekki vera hvatar í því kerfi sem letja fólk til að sækja sér nauðsynlega þjónustu og lyf.  Þess vegna er einfaldast að notendur greiði ekkert fyrir þjónustuna.  Auk þess að koma í veg fyrir að fólk neiti sér um slíka þjónustu myndi þetta spara umtalsverðar fjárhæðir í þeirri umsýslu sem núverandi kerfi hefur í för með sér, og þann tíma sem sjúklingar þurfa að eyða í að finna út hvað þeir eiga að borga í því flókna kerfi sem nú er í gildi.

Þetta mun auðvitað kosta aukin útgjöld úr ríkissjóði. En hér er um að ræða kostnað sem verður að borga með einhverjum hætti, til að tryggja heilsu borgaranna eins og best verður á kosið. Það er betra að greiða þann kostnað úr sameiginlegum sjóðum en að láta hvern og einn standa straum af hluta kostnaðarins fyrir sig, og viðhalda þannig því ástandi að þeir sem minnst hafa milli handanna hafi bókstaflega ekki efni á að nota heilbrigðisþjónustu.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]