Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er að við hættum að misbeita Dyflinnarreglugerðinni og tökum hælisumsóknir til efnismeðferðar.
Í nýju útlendingalögunum, sem haldið var fram að bættu stöðu hælisleitenda, er ákvæði um að yfirvöld skuli ekki taka til efnismeðferðar umsóknir um hæli ef heimilt er að krefja annað ríki um að gera það. Hér er átt við Dyflinnarreglugerðina, sem veitir heimild fyrir slíkri kröfu, en leggur engar skyldur á herðar Íslandi. Auk þess hafa íslensk yfirvöld horft fram hjá íslensku barnalögunum, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og viðbótarákvæðum við Dyflinnarreglugerðina sjálfa, sem skylda Ísland til að láta það ráð ákvörðunum í slíkum málum, þegar barn eru annars vegar, sem barninu er fyrir bestu (sjá umfjöllun hér).
Íslensk yfirvöld hafa skákað í því skjóli að verið sé að senda flóttafólk tilbaka til „öruggra landa“, en það er blekking, eins og lesa má um t.d. hér.
Með þessu er Ísland að misnota Dyflinnarreglugerðina, sem var ekki samþykkt til að Ísland kæmist hjá því að axla örlítinn hluta þess flóttamannavanda sem nú er í Evrópu. Þetta er svo lítilmannlegt að maður myndi skammast sín fyrir að vera Íslendingur teldi maður sig bera einhverja ábyrgð á þessari mannvonsku.
Íslensk yfirvöld ættu auðvitað að hætta að brjóta íslenku barnalögin. En við ættum líka að banna það algerlega að flóttafólk sé endursent á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar; Ísland ætti að skammast til að bera örlítinn hluta af þeim byrðum sem flóttamannavandinn er. Þeim sem halda fram að það yrði efnahagsleg byrði á Íslandi að taka á móti miklu fleira flóttafólki má benda á að ekki bara er verið að flytja inn vinnuafl í stórum stíl til Íslands: Svíþjóð tók á móti hundraðfalt fleira flóttafólki miðað við höfðatölu en Ísland þegar hæst stóð síðustu árin. Þar var í fyrra gríðarlegur hagvöxtur.
En þótt það séu góð efnahagsleg rök fyrir því að taka á móti miklu fleira flóttafólki, og þótt það sé frábært að gera íslenskt samfélag fjölbreyttara með því, þá eru það ekki sterkustu rökin. Heldur hitt, sem við eigum öll sameiginlegt, nefnilega mannúð, hjálpsemi og góðvild.
[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]