Myndin er á bls. 73 í Könnun á starfsumhverfi starfsmanna Landspítala 2010
Síðustu vikur hafa opnast flóðgáttir þar sem út hafa streymt frásagnir kvenna, í þúsunda tali, um ýmiss konar áreitni af hálfu karla, frá tiltölulega saklausri en durtslegri framkomu yfir í nauðganir, og allt þar á milli. Svo virðist af þessu, og því er gjarnan haldið fram í þessu átaki, að alvarleg kynferðisleg áreitni af hálfu karla sé gríðarlega algengt og útbreitt vandamál í flestum starfsgreinum. En hversu algengt er það?
Nú má auðvitað vera að stórkostleg aukning hafi orðið til hins verra frá árinu 2011, þótt það virðist frekar ósennilegt, og það er ekki útilokað að vinnustaðir Reykjavíkurborgar séu einhvern veginn miklu betri en almennt gerist, sem sýnist þó einnig ósennilegt, í ljósi þess hve þeir eru margir og fjölbreyttir.
Í viðhorfskönnun sem borgin gerði árið 2015 voru borgarstarfsmenn spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir áreitni af hálfu samstarfsfólks undangengna 12 mánuði. Könnunin náði til 7.252 starfsmanna borgarinnar og af þeim svöruðu 4.805, eða 66%. Af þeim sögðust um 0,2% hafa orðið fyrir líkamlegri kynferðislegri áreitni, og um 0,4% fyrir kynferðislegri áreitni í orðum (sjá bls. 58). Í sams konar könnunum árin 2011 og 2013 var útkoman svipuð (0,3% og 0,4% kynferðisleg áreitni í orðum, 0,2% og 0,1% líkamleg kynferðisleg áreitni).
Sama var uppi á teningnum í könnunum Landspítalans 2010 og 2012, þar sem 1% starfsmanna (hlutföll eru gefin í heilum prósentum) sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu yfir- eða samstarfsmanna. Ég finn ekki tölur um þátttöku fyrir 2012, en 2010 voru það 2446 af 4134, eða um 59%, sem svöruðu. Í nýlegustu könnuninni frá Landspítalanum sem ég finn upplýsingar um er hlutfallið 2%.
Auðvitað getum við ekki verið viss um að þessar kannanir gefi fullkomna mynd af stöðunni, en á hinn bóginn hef ég ekki séð neinar kannanir af þessu tagi sem sýna allt aðra mynd.
Það er gott að talað sé opinskátt um kynferðislega áreitni, sem og aðra ósæmilega framkomu sem getur eitrað vinnuumhverfi fólks. Það er vonandi fyrsta skrefið í þá átt að tekið verði á slíkri framkomu, og að þeir sem gera sig seka um hana verði ekki lengur öruggir um að komast upp með slíkt, enda hefur það vonandi fælandi áhrif á flesta þeirra og leiðir til almennt betra vinnuumhverfis.
En það er slæmt að láta eins og þetta vandamál sé margfalt stærra í sniðum en raunin virðist vera; fjöldi frásagna af þessu tagi myndar ekki gögn sem segja til um hversu algengt þetta er, hvað þá hversu margir karlmenn stundi slíka hegðun. Og það er sérlega vont að krefjast þess að allir karlmenn taki ábyrgð á hegðun þeirra karla sem koma illa fram. Það er ekkert jákvætt við það að reyna að koma inn sektarkennd hjá þeim fjölmörgu, líklega langflestum, sem eru saklausir af alvarlegri hegðun af þessu tagi. Það er alveg jafn neikvætt og að krefjast þess að allar konur taki ábyrgð á þeim konum sem bera karla röngum sökum eða stunda umgengnistálmanir.