Sá þingmaður sem mest fékk greitt fyrir aksturskostnað í fyrra fékk 4.621.144 krónur, fyrir að aka 47.644 km. Á bíl sem eyðir tíu lítrum á hundraðið að meðaltali er eldsneytiskostnaðurinn við slíka keyrslu um ein milljón. Eftir standa þá um 3,6 milljónir, sem væntanlega eiga að dekka annan kostnað við að reka bíl, þ.e.a.s. viðhald og verðlækkun vegna slits sem notkunin veldur.
Þannig fær þessi mesti ökuþór þingsins andvirði ágætis bíls á hverju ári, umfram eldsneytiskostnaðinn, og varla þarf að gera ráð fyrir viðhaldskostnaði fyrsta árið. Hann getur því keypt nýjan bíl á hverju ári, selt þann ársgamla og stungið söluverði hans, sem ætti að vera vel yfir 2,5 milljónir, í vasann, takk skattgreiðendur!
Á einu kjörtímabili fær þingmaðurinn þannig tíu milljónir í vasann, umfram vel útilátið þingfararkaupið, sem er með því hæsta í heimi.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og þjóðþekktur baráttumaður gegn spillingu þau þrjátíu og fimm ár sem hann hefur setið á þingi, taldi ástæðu til að útskýra með eftirfarandi hætti af hverju ekki má segja frá því hvaða þingmenn það eru sem fá með þessum hætti bíl að gjöf á hverju ári á kostnað almennings:
„Litið er svo á að aksturinn tengist starfi alþingismanna fyrir umbjóðendur, varði samband þeirra við kjósendur og sé því þeirra mál eins og ýmislegur annar kostnaður við starf þingmanna. Þess vegna hafa almennt ekki verið veittar persónugreinanlegar upplýsingar um þessar endurgreiðslur“
„Þær eru ekki greindar á kjördæmi enda þykir þá farið nærri persónugreinanlegum upplýsingum.“
Auðvitað sér hvert tíu ára barn, og ekki síður Steingrímur, sem enginn frýr vits, að talið um kjósendur og persónugreinanlegar upplýsingar í sömu andrá er blekking; enginn fengi neitt að vita um hagi kjósenda sem tiltekinn þingmaður heimsækti í bíl sínum þótt þingforsetinn segði frá því hvað þingmaðurinn sjálfur fékk mikið greitt í allt vegna bíltúra sinna í fyrra.
En víst er það drengilega gert hjá Steingrími að veita nafnleynd þeim þingmönnum sem fá þrjá nýja bíla gefins á kostnað almennings á hverju kjörtímabili …