Ekki vera döpur, Jóhanna

Sæl Jóhanna.

Sá að þér finnst dapurlegt að verið sé að rétta yfir fólki sem hefur víst lítið til saka unnið annað en að taka þátt í tiltölulega friðsömum mótmælum í kjölfar hrunsins. Það er leiðinlegt að þú skulir vera svona döpur, en það er kannski huggun harmi gegn að það ættu að vera hæg heimatökin fyrir þig.

Ásta R. Jóhannesdóttir er nefnilega forseti Alþingis, hún sem hefur borið þá ákærðu röngum sökum, og neitað að leiðrétta rangfærslurnar af því að hún og Alþingi megi ekki tjá sig um málið meðan það er fyrir dómstólum (þótt hún hafi sem sagt þegar gert það). Ásta hefur heldur ekki viljað gera athugasemdir við þær kærur sem skrifstofustjóri Alþingis, undirmaður hennar, lagði fram, þar sem hann nefndi sérstaklega 100. grein hegningarlaga, sem fjallar um valdarán. Hvað þá að hún vilji fetta fingur út í að vinkona ykkar saksóknarinn pantaði kæru fyrir „húsbrot“ frá skrifstofustjóranum, sem segir sjálfur að slíkar pantanir séu með öllu ólöglegar.

Ef til vill er þér ekki kunnugt um að Ásta situr í sæti þingforseta í krafti þingflokks Samfylkingarinnar. Það mun vera sami flokkur og þú tilheyrir, og ég er svona að vona að þú hafir eitthvað að segja um hver skipar það sæti.

Saksóknarinn, Lára V. Júlíusdóttir, sem ákvað að ákæra fyrir valdaránstilraun, í trássi við niðurstöðu lögreglurannsóknar á málinu, ætti ekki að vera þér með öllu ókunnug heldur. Hún var aðstoðarmaður þinn 1987-88 þegar þú varst félagsmálaráðherra. Þú lést líka gera hana að formanni bankaráðs Seðlabankans í fyrra, manstu? Reyndar var það Alþingi sem kjöri hana til þess. Kannski fannst henni að hún launaði því greiðann með því að nota valdaránsákæruna gegn þessu liði sem var eitthvað að abbast upp á þingið.

Kannski manstu líka að Lára var í Stúdentaráði fyrir rúmum 30 árum þegar vinur þinn hann Össur fór á þingpalla og var með einhvern kjaft yfir þingmönnum, og tókst miklu betur upp en þessi liði sem nú er verið að rétta yfir, það náði bara að segja tíu orð, en Össur hélt langa ræðu. Enda var hann varinn af vöskum hópi samherja. Einhver fréttamaður spurði Láru í fyrra hvort hún hefði verið á pöllunum með Össuri. Hún kvaðst ekki muna það. Svona valkvætt minni er víst í tísku þessa dagana þarna niðri í Alþingi, því sumir af starfsmönnum þingsins mundu bara sumt og ekki annað þegar verið var að yfirheyra þá í réttarhöldunum í gær. Meira að segja myndavélarnar í þinghúsinu eru með svona slitrótt minni. Ku bara hafa geymt bestu bitana frá átökunum. Sumir starfsmenn þingsins sem yfirheyrðir voru í gær mundu líka eitthvað allt annað en það sem myndavélarnar þó mundu.

Langaði bara að benda á að þetta eru nánir vinir þínir, konurnar sem bera ábyrgð á þessum ofsóknum sem gerðu þig víst svo dapra í gær. Þær væru líklega ekki þar sem þær eru í dag nema af því þær eiga þig að.

Skil að þú sért döpur, En það er ráð, þegar maður hefur sjálfur kallað sorgina yfir sig, að drífa sig í tiltekt í eigin lífi. Þú gætir byrjað á að láta reka Ástu, svo hún geri ekki viðlíka skandala aftur. Og látið þau boð út ganga að það sé ekki svona, með þessum heiftúðugu ofsóknum Láru, sem maður þóknist þér.

Bara datt svona í hug að þetta gæti huggað þig svolítið í depurðinni.