Össur, varðhundur Gamla Íslands

Össur Skarphéðinsson hefur nú bætt rödd sinni í kór þeirra sem ekki mega til þess hugsa að hróflað verði við klíkuveldinu sem ræður lögum og lofum í íslenska valda- og fjármálakerfinu.  Því vanheilaga bandalagi sem mótmælaaldan rís nú gegn víða um heim.

Össur afhjúpar hér ógeðfelldan hugsunarhátt, sem seint ætlar að deyja: Páll Magnússon var í miðju þeirrar atburðarásar sem leiddi til þess að Búnaðarbankinn var gefinn flokksbræðrum hans og yfirmanns hans.  Það, með öðru, leiddi svo til hrunsins sem lagði efnahag fjölda saklauss fólks í rúst, og eyðilagði trúna á að við værum samhent samfélag.  Að tala um réttindi Páls í þessu samhengi er blaut tuska í andlit þess almennings sem ofbýður subbuskapur Gamla Íslands.  Málið snýst ekki um hvort Páll sé góður gæi, heldur hvort halda eigi áfram eins og ekkert hafi í skorist eftir þær hamfarir sem valdaklíkurnar hafa leitt yfir íslenskan almenning.

Auk þess er það óvenju heimskulegt af Össuri að tala eins og stjórn ríkisstofnunar geti ekki gert mistök. Þar er enn á kreiki hugmyndin um hið algera ábyrgðarleysi íslensks valdafólks.  Það er að vísu rétt að þetta mál á ekki að leysa með baktjaldamakki stjórnmálamanna.  Hins vegar er ljóst að Bankasýslan hefur farið gegn eigandastefnu ríkisins, sem hún á að vinna eftir, en þar segir m.a.:

Ríkið þarf að vera trúverðugur eigandi fjármálafyrirtækja og hlutverk þess hafið yfir vafa um pólitísk afskipti af daglegum ákvörðunum fyrirtækjanna.

Augljós afleiðing af því er að sá sem ber ábyrgð á stjórninni, fjármálaráðherra, á að reka hana, og skipa nýja sem einver von er til að geti notið trausts almennings.

Þessi viðbrögð Össurar eru hins vegar skiljanleg.  Hann hefur alið allan sinn aldur innan þess gerspillta valdakerfis sem almenningur er farinn að sjá í gegnum, og án þess að hafa nokkurn tíma reynt að hrófla við sjálfu kerfinu.  Skemmst er líka að minnast þess þegar Össur skrifaði meðmælabréf handa Árna Mathiesen, til að Árni gæti fengið feita stöðu hjá Sameinuðu Þjóðunum, sem verðlaun fyrir frammistöðu sína í þeim hildarleik sem leiddi hrunið yfir landsmenn.

Össur er, eins og nánast allt íslenskt valdafólk, algerlega samdauna klíkuveldi Gamla Íslands, og hann getur ekki ímyndað sér tilveruna án þess, ekki frekar en fiskur hefur hugmynd um hvernig líf hans væri án vatns.  Það er þess vegna sem þarf að rífa Gamla Ísland upp með rótum, og senda fólk á borð við Össur í ævilangt frí frá valdastöðum.