Ögmundur ver meint lögbrot lögreglustjóra

Í nýlegri yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar segir um kaup embættis Ríkislögreglustjóra á ýmsum búnaði:

Að mati Ríkisendurskoðunar fór hluti þessara viðskipta í bága við lög um opinber innkaup.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra getur verið ósammála þessu, en það er vægast sagt sérkennilegt að þetta er haft eftir ráðherra á síðu ráðuneytisins:

Ég hef sannfærst um að embætti ríkislögreglustjóra hafi farið að lögum í innkaupum sínum.  Sú mynd sem dregin hefur verið upp í fjölmiðlum af embættinu er ómakleg og röng.

Hvað hefur verið sagt í fjölmiðlum annað en að embættið hafi að mati Ríkisendurskoðunar brotið lög, og um hvað þau mál snúast?

Hafi ráðherra einhver  rök fyrir staðhæfingum sínum ætti hann að skýra frá þeim.  Það hefði hann átt að gera strax, því það er alvarlegt mál að ráðherra dylgi um rangfærslur fjölmiðla.

Það er líka grafalvarlegt mál ef ríkislögreglustjóri fer ekki að lögum, og það er ekki nóg að ráðuneytið haldi fram á heimasíðu sinni að þetta sé rangt hjá Ríkisendurskoðun án þess að rökstyðja það með skýrum hætti.  Það er ljóst um hvaða ákvæði laga þetta snýst, en ráðherra hefur með engum hætti útskýrt af hverju hann telur að Ríkisendurskoðun hafi rangt fyrir sér.

Þetta er vond stjórnsýsla, sem eflir þann grun að Ögmundur og félagar hans í ríkisstjórn hafi engan áhuga á að taka til í því spillta valdakerfi sem hér ríkir.

Deildu færslunni