Í Háskóla Íslands er talsvert af góðu vísindafólki, og dálítið af fólki sem stendur framarlega á sínu sviði í því alþjóðasamfélagi sem vísindin eru. Hinir eru miklu fleiri, sem ekki standast þær kröfur sem gerðar eru í alþjóðasamfélaginu. Það sem verra er, dragbítar hafa töglin og hagldirnar í valdakerfi skólans, og vinna leynt og ljóst gegn þeim yfirlýstu markmiðum skólans að verða gjaldgengur á alþjóðavettvangi. Það gildir, þótt ótrúlegt megi virðast, líka um rektor skólans. Það er margt, fólkið í HÍ sem veit þetta, en það veit líka að í þessu „litla og heilbrigða samfélagi“ eins og Guðbergur Bergsson kallaði Ísland einhvern tíma, er fólki að öllu jöfnu útskúfað kirfilega ef það dirfist að benda á klæðleysi keisaranna.
HÍ hreykir sér þessa dagana af að vera kominn í hóp 300 bestu háskóla í heimi. Það er að vísu hættulegt að fagna því að HÍ hafi náð þessum „árangri“, eins og rektor skólans hefur gert, því hér er um að ræða einn matsaðila, sem nýlega hefur þar að auki breytt matsaðferðum sínum, og varasamt að treysta á að þessi niðurstaða haldi til lengdar, og að aðrir komist að sömu niðurstöðu.
Hitt er miklu verra, að hér er um lánsfjaðrir að ræða. Stökkið sem skólinn hefur tekið er ekki síst að þakka því að fjöldi tilvitnana í greinar eftir vísindamenn hjá Íslenskri Erfðagreiningu og Hjartavernd hefur aukist verulega síðustu árin. Flestar eða allar greinar sem fjalla um rannsóknir þessara stofnana eru með meðhöfunda í HÍ, auk þess sem forstöðumenn beggja stofnananna hafa nýlega fengið stöðu prófessora við skólann, þótt það breyti litlu eða engu um hvar vísindastarf þeirra fer fram. Lunginn úr því starfi sem liggur að baki þessum greinum fer fram á umræddum stofnunum, og HÍ hefur nánast engin áhrif haft á uppbyggingu þeirra.
Um þetta eru líklega til beinharðar tölur (sem HÍ býr væntanlega yfir þótt forysta skólans sé ekki að flagga þeim), en það er nokkuð ljóst að Háskóla Íslands hefur lítið eða ekki farið fram á þessu sviði undanfarin ár, a.m.k. ekki umfram það að halda í við þá stöðugu þróun sem er í vísindaheiminum.
Síðustu árin hefur farið fram barátta innan HÍ þar sem reynt hefur verið að þoka matskerfi skólans, sem ákvarðar framgang starfsmanna og laun (að hluta), í þá átt sem skólinn segist stefna. Það er að segja, að umbuna frekar fyrir það framlag vísindafólks skólans sem nær máli á alþjóðavettvangi en fyrir það sem aðeins er gjaldgengt í þeim örlitla andapolli þar sem eru íslensk „vísindatímarit“.
Eins og nefnt var í þessum pistli fær vísindamaður sem er fyrsti höfundur (og því leiðtoginn í starfinu sem að baki liggur) á dæmigerðri grein í Nature, einu virtasta vísindatímariti heims, að öllu jöfnu miklu færri stig í matskerfi HÍ en annar sem birtir, t.d. í félagi við einn annan mann, grein í íslenska Læknablaðinu, af því að greinar í Nature eru undantekningalítið með mikinn fjölda höfunda, sem dregur úr stigagjöfinni í HÍ. Reyndar fær aðalhöfundur á grein í Nature með meðaltalsfjölda höfunda u.þ.b. helmingi færri stig en gildir um greinar í Læknablaðinu, eða í Tímariti Sálfræðinga eða Tímariti um Menntamál. Þó liggur í augum uppi að með því að birta á íslensku eru akademískir starfsmenn að bregðast þeirri skyldu sinni að kynna niðurstöður sínar fyrir fræðasamfélaginu sem þeir eiga að tilheyra, því það er alþjóðlegt.
Skemmst er frá því að segja að í þessari baráttu, um að laga matskerfi HÍ að yfirlýstum markmiðum um að verða öflugur rannsóknaháskóli, hafa þeir sigrað sem vilja hygla heimalningum og fólki sem ekki er gjaldgengt á alþjóðavettvangi, en halda niðri, eða í burtu, þeim sem þola alþjóðlegan samanburð.
Sumt af því sem er að í HÍ er kunnugt almenningi, eins og klíkuráðningar þar sem undirmálsfólk sem hefur sölsað undir sig deildir ræður heimalninga og aðra sem ekki er hætta á að verði óþægilegur samanburður við getuleysi „heimamanna“. Eitt hrikalegasta nýlega dæmið um þetta (en alls ekki einsdæmi) er Tölvunarfræðiskor HÍ, sem á stuttum tíma fyrir nokkrum árum hrakti frá sér fjóra af bestu vísindamönnum landsins, þau Önnu Ingólfsdóttur, Bjarna Halldórsson, Úlfar Erlingsson og Magnús Má Halldórsson. Hvert og eitt þeirra er með öflugri birtinga- og tilvitnanalista en samanlögð Tölvunarfræðiskorin (sem nú er hluti af annarri deild).
Í grein í Fréttablaðinu 29. september gefur Birgir Guðjónsson ágætt yfirlit yfir hvað er að í HÍ. Þótt tilvitnanir í fræðigreinar séu ekki einhlítur mælikvarði á gæði vísindastarfs gefa þær þó góða vísbendingu, og sérstaklega ef skoðaðir eru hópar fólks, eins og t.d. heilar háskóladeildir. Það er líka nokkuð óyggjandi að vísindamaður sem nánast ekkert er vitnað í leikur ekkert hlutverk í því alþjóðasamfélagi sem vísindin eru á nánast öllum sviðum. Flestir mikilvægir gagnagrunnar um slíkar tilvitnanir eru öllum opnir á netinu (eins og t.d. Google Scholar).
Hitt vita færri, þótt það sé opinbert leyndarmál í íslenska vísindasamfélaginu, að sumt af æðsta forystufólki HÍ nær alls ekki máli sem fræðimenn, og ætti í vandræðum með að fá ráðningu í sæmilegum háskóla, hvað þá að það yrði sett í akademískar forystustöður.
Í opnum gagnagrunnum getur hver sem er t.d. flett upp forsetum Menntavísindasviðs og Félagsvísindasviðs HÍ, þeim Jóni Torfa Jónassyni og Ólafi Þ. Harðarsyni. Þá kemur fljótt í ljós að framlag þeirra á fræðasviðum sínum er nánast ekkert. Hér er um sams konar andverðleikasamfélag að ræða og svo víða annars staðar á Íslandi; þeir sem klifra upp metorðastigann og komast til æðstu valda eru oftar en ekki fólk sem fullnægir ekki einu sinni þeim lágmarksskilyrðum sem undirmenn þess ættu að þurfa að uppfylla, hvað þá þeir sem eru í akademískum forystuhlutverkum. Afleiðingin er líka að öllum viðmiðum um gæði er snúið á hvolf, smákóngar fara að drottna yfir sviðum sem þeir hafa enga burði á, og móta þau í sinni mynd.
Þetta hefur sem sé lengi verið opinbert leyndarmál, þótt hver sem er geti flett því upp, og margir virðast líta á það sem feimnismál. Það er sérkennilegt, því alla jafnan þykir sjálfsagt að gera athugasemdir við ráðningar fólks sem skortir lágmarkshæfni í opinberar stöður. Og þetta er ekki síður mikilvægt í háskólaumhverfi, þótt margir leikmenn virðist halda að það þurfi ekki endilega góða vísindamenn í „stjórnunarstöður“ í háskólum. Það er þveröfugt, því þótt fæstir vísindamenn séu efni í góða stjórnendur þá er nauðsynlegt fyrir þá sem eiga að vera í forystu fyrir uppbyggingu vísindastarfs að hafa umfangsmikla og sannfærandi reynslu úr því langhlaupi sem slík uppbygging er. Enda er það ekki að ástæðulausu að engum af þeim háskólum sem HÍ vill bera sig saman við dettur í hug að setja annað en þrautreynda og öfluga vísindamenn í akademísk forystustörf.
Í stuttu máli hefur forysta HÍ ekkert gert svo teljandi sé til að efla vísindastarf við skólann. Þvert á móti bitnar niðurskurður síðustu ára ekki síst á þeim sem skólinn þyrfti að hlúa að, vilji hann viðhalda sínum litla styrk, hvað þá ef hann ætlar sér lengra. Því miður er ekki við því að búast að þetta lagist þótt skólinn fái meira fé frá ríkinu. Þeir sem greinilega hafa undirtökin innan skólans, og einnig innan Menntamálaráðuneytisins, hafa nefnilega aðra skoðun á því hvernig eigi helst að nota fjármagn til rannsókna. Til dæmis hefur ofannefndur Jón Torfi oft tjáð þá skoðun sína að leiðin til að efla rannsóknir sé að ausa meira fé í þau svið sem lökust eru. Þar á meðal er Menntavísindasviðið, sem hann er forseti yfir.
Forysta HÍ mun auðvitað ekki leiða sams konar hamfarir yfir íslensku þjóðina og bankarnir gerðu. En hugsunarhátturinn er sá sami: Uppblásnar hugmyndir um eigið ágæti, bókhaldsfiff til að fegra útlitið og þöggun allra gagnrýnisradda.