Hvernig fáum við nýjan Hæstarétt?

Mikið hefur verið deilt um úrskurði Hæstaréttar síðustu árin, og sem betur fer er það að færast í aukana að lögfræðingar viðri gagnrýni á störf réttarins. Það er gott, því Hæstiréttur þarf eiginlega frekar en flestar aðrar stofnanir á gagnrýni að halda, þar sem enginn er yfir hann settur, og nánast ómögulegt að hrófla við því sem hann ákveður, jafnvel þegar það er tóm þvæla. Reyndar hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) margsinnis slegið á puttana á dómurum Hæstaréttar, en hann er eini aðilinn sem það getur, og aðeins á mjög takmörkuðu sviði, auk þess sem það er afar erfitt að fá MDE til að taka mál til meðferðar. Halda áfram að lesa

Til varnar Vítisengli

Fyrir tæpum 40 árum voru nokkur ungmenni hneppt í gæsluvarðhald, og beitt harðræði sem nánast allir eru í dag sammála um að hafi verið viðurstyggilegt.   Þetta fólk sat í gæsluvarðhaldi árum saman, sumt í algerri einangrun, og var bókstaflega pyntað, bæði andlega og líkamlega.  Þetta gerðist á Íslandi og þótt nú séu langflestir sammála um að þetta hafi verið svívirðileg meðferð gilti allt öðru máli þá.

Halda áfram að lesa

Geirfinnsmálið, Brynjar og réttarríkið

Í Silfri Egils í gær, og í blaðagreinum, hefur Brynjar Níelsson kynnt þá skoðun um Geirfinns- og Guðmundarmálið að afturköllun játninga sé merkingarlaus, og að ekki sé hægt að endurupptaka mál nema til komi ný sönnunargögn.  Burtséð frá því að réttarkerfið mætti e.t.v. stundum taka breytingum, þótt mikilvægt sé að slíkt sé gert varlega, þá velur Brynjar að horfa fram hjá kjarna málsins, og hengja sig í staðinn í formsatriði, og það þótt um sé að ræða eitthvert mikilvægasta óréttlætismál síðari tíma í íslenska réttarkerfinu. Halda áfram að lesa

Rannsóknarnefnd, ekki starfshóp! Ögmundur!

Ögmundur innanríkisráðherra hefur lýst yfir að hann ætli að skipa starfshóp til að fara yfir Geirfinns- og Guðmundarmálið.  Það gætu verið slæmar fréttir.  Skipan „starfshópa“ er því miður velþekkt aðferð til að þagga niður gagnrýni, án þess að nokkuð bitastætt sé gert.  Það ætti að vera ljóst að til að komast til botns í þessu máli þarf rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til gagnaöflunar og vitnaleiðslu.  Slíkar heimildir hefur starfshópur skipaður af ráðherra ekki.  Halda áfram að lesa

Lögfræði, réttlæti og réttarríki

Hér að neðan er texti greinar eftir mig sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Það er sjálfsagt að fara varlega í að hrófla við réttarkerfinu; það er mikilvægt að leikreglur þess séu skýrar, og að öllu jöfnu eiga niðurstöður Hæstaréttar að vera endanlegar.  Á þessu eru þó undantekningar, því allir geta gert mistök.  Í Geirfinns- og Guðmundarmálinu ætti öllum að vera ljóst að gerð voru hryllileg mistök, að sakborningar sættu hræðilegri meðferð, og að yfirvöld komu fram með glæpsamlegum hætti.

Út af fyrir sig er þessi meðferð á sakborningum næg ástæða til að rannsaka málið niður í kjölinn.  En það er auk þess orðið slík mara á þjóðarsálinni að nauðsynlegt er að fá allt upp á yfirborðið, á svo hlutlægan og vandaðan hátt að ekki þurfi að efast um niðurstöðurnar.

Þess vegna er dapurlegt að sjá  formann Lögmannafélagsins tala um málið eins og lítið hafi út af borið, og forseta Lagadeildar HÍ eins og hér séu formsatriðin mikilvægari en réttlætið.

————————————

[Fréttablaðið, 26. júlí 2011]

Lögfræði, réttlæti og réttarríki

Nýlega hafa tveir framámenn í lögfræðingastétt tjáð sig um kröfuna um rannsóknarnefnd sem geri úttekt á Geirfinns- og Guðmundarmálunum svonefndu. Þetta eru þeir Róbert Spanó, sem ritaði grein í Fréttablaðið 22. júlí, og Brynjar Níelsson sem skrifaði um það pistil á pressan.is 20. júlí.

Róbert segir: „En það er einmitt í réttarríki eins og okkar, byggðu á þrígreiningu ríkisvalds, sem opinberar ákvarðanir um að skipa sérstakar rannsóknarnefndir verða að taka mið af því kerfi til úrlausnar mála sem fyrir hendi er lögum samkvæmt.“ Síðar segir hann: „Löggjafinn á ekki að setja á laggirnar rannsóknarnefndir til að yfirfara endanlega úrlausn Hæstaréttar, æðsta handhafa hins sjálfstæða dómsvalds.“

Sjálfstæði dómstóla er vissulega afar mikilvægt í réttarríki. Hér gleymist hins vegar önnur hliðin á þeim hugmyndum sem alla jafna liggja til grundvallar þrígreiningu ríkisvaldsins. Nefnilega að greinarnar þrjár veiti hver annarri aðhald, sem sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir valdníðslu innan einnar þeirra.

Brynjar segir í sinni grein: „Ég get þó sagt að í mörgum öðrum sakamálum hafa sakborningar verið sakfelldir á veikari sönnunargögnum.“ Líti Brynjar svo á að sérhver sakfelling sé fordæmisgefandi varðandi kröfurnar um sönnunarfærslu er það sannarlega nýstárleg sýn á réttarfar. Ef þetta á hins vegar að afsaka þá hryllilegu valdníðslu sem átti sér stað í umræddum málum er ekki annað að segja en að slík afstaða sé ekki sæmandi lögmanni, hvað þá að formaður Lögmannafélagsins haldi henni á lofti.

Í Geirfinns- og Guðmundarmálinu var sakfellt fyrir morð, þótt engar vísbendingar séu um að fórnarlömbin hafi látist, nema játningar sakborninga. Slíkar játningar væru auðvitað mikilvægar ef þær væru trúverðugar. Það eru þær ekki, því nákvæmlega ekkert annað bendir til að glæpur hafi verið framinn, auk þess sem ósannar játningar eru talsvert algengari en ætla mætti, hvað þá þegar beitt er jafn svívirðilegum pyntingum og hér var raunin.

Ekki síður alvarlegt er að rannsóknarlögreglan sýndi með óyggjandi hætti að hún gat fengið fram þær játningar sem henni sýndist, hversu fjarstæðukenndar sem þær voru. Á meðan sakborningar voru einangraðir hver frá öðrum í gæsluvarðhaldi fékk lögreglan þá alla til að staðfesta tiltekna flókna atburðarás, sem leiddi til langvarandi gæsluvarðhalds yfir fjórum öðrum mönnum. Síðar kom í ljós að um algeran uppspuna var að ræða. Með því að fá fram játningar á slíkum uppspuna sýndu rannsakendur málsins í eitt skipti fyrir öll að niðurstöður þeirra voru einskis virði.

Ljóst er því að lögreglan og dómsvaldið brugðust ekki bara illilega, heldur frömdu hræðileg illvirki á fólki sem átti að njóta verndar réttarríkisins, burtséð frá því hvort það átti nokkra sök í umræddum málum. Af því hversu alvarlegt þetta mál er verður ekki hjá því komist að rannsaka það niður í kjölinn. Til þess ætti að skipa rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til vitnaleiðslu.

Við þessar aðstæður ættu lögfræðingar fremur að velta fyrir sér (í heyranda hljóði) hvernig hægt sé að leiðrétta svona alvarleg brot á grundvallarreglum réttarríkisins, og koma í veg fyrir að þau verði endurtekin. Að minnsta kosti þeir lögfræðingar sem vilja láta líta á sig sem hugsuði á þessu sviði en ekki viljalausa þjóna kerfis sem hefur svívirt þær grundvallarreglur sem það segist byggja á.

Það er líka hollt að hafa í huga að þótt lögfræðingar geti verið sérfræðingar í því hvernig réttarkerfið virkar þá þrýtur sérfræðikunnáttu þeirra þegar kerfið hættir að virka, eins og það gerði hér.