Geirfinnsmálið, Brynjar og réttarríkið

Í Silfri Egils í gær, og í blaðagreinum, hefur Brynjar Níelsson kynnt þá skoðun um Geirfinns- og Guðmundarmálið að afturköllun játninga sé merkingarlaus, og að ekki sé hægt að endurupptaka mál nema til komi ný sönnunargögn.  Burtséð frá því að réttarkerfið mætti e.t.v. stundum taka breytingum, þótt mikilvægt sé að slíkt sé gert varlega, þá velur Brynjar að horfa fram hjá kjarna málsins, og hengja sig í staðinn í formsatriði, og það þótt um sé að ræða eitthvert mikilvægasta óréttlætismál síðari tíma í íslenska réttarkerfinu.

Málið snýst ekki um afturköllun játninga, heldur að játningarnar í málinu virðast hafa verið samdar af rannsóknaraðilum, og togaðar út úr sakborningum með pyntingum.  Rannsakendurnir sýndu nefnilega fram á með óyggjandi hætti að þeir gátu fengið sakborninga til að játa hvaða þvælu sem var, með því að fá þá alla, í einangrun, til að játa útgáfuna sem varð til að fjórir saklausir menn voru hnepptir í gæsluvarðhald mánuðum saman.

Það er líka fáránlegt, eins og bent hefur verið á, að hamra á því að það þurfi ný sönnunargögn til að málið verði tekið upp aftur, því það voru einmitt aldrei nein sönnunargögn í málinu.  Að krefjast nýrra sönnunargagna er að snúa sönnunarbyrðinni við, og ætlast til að sakborningar finni gögn sem sanni sakleysi þeirra.  Það er afstaða sem Brynjari finnst örugglega óverjandi, þótt hann virðist ekki gera sér grein fyrir afleiðingum orða sinna hér.

Það er auðvitað ekkert athugavert við að Brynjar haldi þessum skoðunum á lofti, enda eru þær við venjulegar kringumstæður eðlilegar, og mikilvægar í ljósi þess að réttarkerfið þarf að vera fyrirsegjanlegt.  En þegar kerfið bregst gersamlega, eins og gerst hefur hér, þá þurfa önnur yfirvöld að taka á málinu, ef réttarkerfið getur það ekki.  Það er ekki víst að endurupptaka sé nauðsynleg, þótt ekki ætti að útiloka hana.  Það er hins vegar bráðnauðsynlegt að fá svör við þeim áleitnu spurningum sem eru á lofti, ef tiltrú almennings á réttarríkinu á ekki að biða verulegan hnekki.

Það er svo annað mál, en skylt, að þótt rödd Brynjars sé mikilvæg í umræðunni, ekki síst vegna þess að hann þorir að viðra óvinsælar skoðanir sem nauðsynlegt er að komi fram, þá er til vansa að hann tali um þetta mál kynntur sem formaður Lögmannafélagsins.  Þetta er algengur ósiður á Íslandi, þar sem forystufólk ýmissa félaga getur ekki haldið aftur af eigin skoðunum þegar ljóst er að litið er á það sem talsmenn samtakanna sem það er í forsvari fyrir.  Það hefur e.t.v. ekki farið hátt, en til er fjöldi lögmanna sem er algerlega ósammála málflutningi Brynjars, svo hann talar ekki fyrir munn meðlima Lögmannafélagsins, þótt halda mætti það af því hvernig hann er kynntur.

Deildu færslunni