Ögmundur innanríkisráðherra hefur lýst yfir að hann ætli að skipa starfshóp til að fara yfir Geirfinns- og Guðmundarmálið. Það gætu verið slæmar fréttir. Skipan „starfshópa“ er því miður velþekkt aðferð til að þagga niður gagnrýni, án þess að nokkuð bitastætt sé gert. Það ætti að vera ljóst að til að komast til botns í þessu máli þarf rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til gagnaöflunar og vitnaleiðslu. Slíkar heimildir hefur starfshópur skipaður af ráðherra ekki.
Í lögum nr. 142/2008 um Rannsóknarnefnd Alþingis stendur meðal annars þetta:
Sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fer fram á. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar.
Nefndinni er heimilt að kalla einstaklinga til fundar við sig til að afla munnlegra upplýsinga í þágu rannsóknarinnar og er viðkomandi þá skylt að mæta. Heimilt er að taka það sem fer fram á slíkum fundum upp á hljóð- eða myndband.
Skylt er að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherrafunda og fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.
Engum dettur í hug að nefndinni hefði tekist að vinna það stórkostlega verk sem hún vann ef hún hefði ekki haft þessar heimildir. Ef Ögmundur beitir sér ekki fyrir skipan rannsóknarnefndar með svipaðar heimildir til að rannsaka Geirfinns- og Guðmundarmálið læðist að manni sá grunur að hann hafi engan áhuga á að sannleikurinn verði grafinn upp, heldur sé hann bara að kaupa sér frið fyrir gagnrýninni á það viðbjóðslega réttarhneyksli sem málið var.