Fyrir tæpum 40 árum voru nokkur ungmenni hneppt í gæsluvarðhald, og beitt harðræði sem nánast allir eru í dag sammála um að hafi verið viðurstyggilegt. Þetta fólk sat í gæsluvarðhaldi árum saman, sumt í algerri einangrun, og var bókstaflega pyntað, bæði andlega og líkamlega. Þetta gerðist á Íslandi og þótt nú séu langflestir sammála um að þetta hafi verið svívirðileg meðferð gilti allt öðru máli þá.
Þegar málaferlin stóðu yfir voru fjölmiðlar landsins nokkuð samtaka í að fordæma sakborninga (sem voru ákærðir fyrir morð sem fátt bendir til að hafi verið framin, hvað þá af þessu fólki). Þótt ég hafi sjálfur þegar þetta var haft tiltölulega lítinn áhuga á þessum málum, og engar sérstakar efasemdir um sekt sakborninga, er mér þó minnisstætt að mér blöskraði gersamlega þegar Þjóðviljinn (sem átti að vera málsvari þeirra sem áttu undir högg að sækja í samfélaginu) birti sem fyrirsögn, án athugasemda, staðhæfingu ríkissaksóknara um að þjóðfélagið ætti „rétt á vernd gegn þessum mönnum“.
Það er heldur ekkert sérlega langt síðan sérstakur saksóknari, settur vegna beiðni um endurupptöku málsins, sagði að þetta væru nú engir „kórdrengir sem hefðu verið sóttir í fermingarveislu“, en á Íslandi ríður subbuskapurinn sjaldan við einteyming í stjórnsýslunni; hann hefur jafnan marga til reiðar.
Á þeim tíma sem þetta mál var í „rannsókn“ og svo fyrir dómstólum voru fáir sem efuðust um sekt þeirra sem ákærðir voru. Núna, 40 árum síðar, eftir ötula baráttu ýmiss fólks sem aldrei gafst upp á að benda á þá hatursfullu geðveiki ákæruvalds og dómsvalds sem kom svo glöggt fram í þessu máli, hefur almenningsálitið snúist. Það er vel, en það er auðvelt að vera vitur eftirá, og sorglega erfitt að vera vitur fyrirfram, eða að minnsta kosti að vera vitur á réttum tíma …
Fyrir rúmu ári var kveðinn upp dómur í Hæstarétti, sem staðfesti sýknudóm héraðsdóms frá árinu áður, yfir manni sem í dómi Hæstaréttar er nefndur „X“. Lesi maður dóm Hæstaréttar (sem inniheldur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur) er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að lögreglan sem hélt X í gæsluvarðhaldi hafi aldrei haft nokkra minnstu ástæðu, aðra en eigin fordóma eða eitthvað þaðan af verra, til að gruna X um aðild að því broti sem nokkrir kunningjar hans voru sakfelldir fyrir. Samt sat X í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði, þar af í fjórar vikur í einangrun þar sem hann fékk ekki einu sinni að hafa sambandi við nánustu ættingja.
Af hverju þurfti þá þessi maður, sem ómögulegt var að tengja við umrædd brot, að sæta þessu harðræði, sem flest fólk gerir sér sennilega grein fyrir að er líklegt til að valda meiriháttar sálarkvölum, auk þess tjóns sem fjölskylda viðkomandi varð fyrir? Svarið er einfalt. Hann er ekki neinn „kórdrengur sóttur í fermingarveislu“. Maðurinn heitir Einar Ingi Marteinsson, hefur viðurnefnið „Boom“, og tilheyrði á tímabili samtökum Vítisengla. Það er erfitt að sjá annað en að það sé eina ástæðan fyrir þessari svívirðilegu framkomu lögreglu gagnvart honum, sem dómstólar samþykktu, þótt þeir sýknuðu hann síðar algerlega, af því að ekkert benti nokkurn tíma til aðildar hans.
Ég efast ekki um að meðlimir Vítisengla séu (sumir) ofbeldismenn (þótt staðhæfingar lögreglu og sumra lýðskrumandi ráðherra um hættuna af þeim, samanborið við „venjulega“ glæpastarfsemi, séu augljóslega lygar, miðað við hversu auðvelt lögregla hefur átt með að loka stóran hluta þeirra inni langtímum saman). En, mannréttindi eru ekki bara fyrir okkur góða fólkið. Þau eru ekki bara fyrir kórdrengi sótta í fermingarveislur. Mannréttindi heita mannréttindi af því að þau eru réttindi alls fólks. Þeir einir eru í raun hlynntir mannréttindum sem finnst sjálfsagt að „vonda“ fólkið njóti þeirra líka til hins ítrasta. Hinir, sem telja að „vonda“ fólkið eigi ekki skilið að njóta mannréttinda eru ekki mannréttindasinnar heldur óvitar eða hræsnarar.
Að halda manni í gæsluvarðhaldi mánuðum saman, og í algerri einangrun frá ástvinum sínum vikum saman, þegar ekkert bendir til að hann sé sekur um alvarlegt afbrot, er augljóst brot á mannréttindum. Þar er greinilega um að ræða kúgunar- eða hefndaraðgerðir af hálfu fólks sem misnotar það vald sem því hefur verið falið, fólks sem ætti sjálft að sæta refsingu fyrir svívirðuna. En á Íslandi eru yfirvöld aldrei ábyrg fyrir neinu. Þau geta þess vegna pyntað fólk, jafnvel fólk sem réttarkerfið hlýtur að líta á sem saklaust, án þess að nokkrum vörnum verði komið við, og án þess að fólkið sem pyntar þurfi nokkurn tíma að svara til saka, eða þeir sem bera ábyrgð á böðlunum.
Það er, sem betur fer, auðvelt að finna til með sakborningum í Geirfinnsmálinu. Núna. Flestum veitist okkur hins vegar erfiðara að finna til með þeim sem verið er að pynta þá og þá stundina, hvað þá að gera eitthvað í málinu.