Pólitískur drullusokkur

Í sjónvarpsfréttum RÚV  í gærkvöldi var talað við einn af ráðherrum landsins.  Þetta var frábært viðtal, sem er allt of sjaldgæft á RÚV, því ráðherrann fékk allar þær augljósu spurningar sem hann átti að fá.  Sýnd var klippa úr Silfri Egils þar sem ráðherrann lýsti vandlega afstöðu sinni til ESB-málsins, sem var sú að þjóðin fengi að segja sinn hug í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræðum skyldi haldið áfram eða ekki.  Framhaldið af því átti, samkvæmt ráðherranum, að vera þetta:

„Og ef það er þannig, að þjóðin segir já við því, þá eru allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu.“
Aðspurður um það af hverju hann hafi breytt afstöðu sinni engist ráðherrann svolítið, og svarar á þá leið að ekki sé hægt að neita því að þessi ummæli séu til (sem honum virðist finnast slæmt).  Og  svo segir ráðherrann  eitthvað um að hann sé að hugsa um hagsmuni íslensku þjóðarinnar, og gefur í skyn að það sé þess vegna sem hann sé orðinn  algerlega afhuga því að þessi sama þjóð fái nokkru að ráða um málið.
Fréttakonan gerir það sem hefur verið allt of sjaldgæft á RÚV (og fleiri miðlum); hún spyr hinnar augljósu spurningar:  Voruð þið ekki að hugsa um hagsmuni íslensku þjóðarinnar þegar þið sögðuð, hvert á fætur öðru, að það yrði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu?
Hér dettur ráðherranum það snjallræði í hug að bera fyrir sig tilvitnun í ónefndan mann (sem áheyrandinn á væntanlega að fá á tilfinninguna að hafi verið djúpvitur, þótt ráðherrann nefni ekki nafn hans). Tilvitnunin er þessi:
„Ef staðreyndirnar breytast, og mat mitt á þeim, þá breyti ég um afstöðu. En þú?“
Fréttakonan lætur ekki slá sig út af laginu, heldur spyr aftur hinnar augljósu spurningar:  „Hvaða staðreyndir hafa breyst?“
Svar ráðherrans er á þá leið að það sem hafi breyst sé það hvernig þingið og  ríkisstjórnin séu saman sett, og að það „lá ekki fyrir fyrir kosningar“.
Fyrir kosningar fannst ráðherranum rétt að þjóðin fengi að taka ákvörðun í þessu máli, og að af þeirri ákvörðun væru „allir menn og allir flokkar bundnir“. Eftir kosningar eru flokkur hans og hinn stjórnarflokkurinn hins vegar alls ekki bundnir af afstöðu þjóðarinnar.  Þeir eru í yfir- og næturvinnu þessa dagana við að reyna að koma í veg fyrir að þjóðin fái nokkurn skapaðan hlut um málið að segja, og það þótt yfirgnæfandi meirihluti kjósenda allra flokka vilji einmitt að þjóðin fái að segja sitt.
Fólk sem tjáir sig opinberlega er oft skammað fyrir að nota of stór og ókurteisleg orð.  Það er rétt að ofnotkun slíkra orða er slæm.  En, mér finnst hitt ekki síður mikilvægt, að segja skýrt og skorinort það sem stundum liggur í augum uppi, í stað þessa að hlífa fólki í valdastöðum við sannleikanum.  Því ætla ég að segja það sem mér finnst vera augljós niðurstaða af framkomu þessa manns:
Hann er pólitískur drullusokkur.