Samtök Arðræningja rífa kjaft

Það er að bera í bakkafullan læk að gagnrýna forystu Samtaka Atvinnulifsins.  En vegna þess hvers konar forarvilpu forysta þeirra samtaka reynir að búa til með áróðri sínum veitir ekki af að viðhalda sírennsli af fersku vatni yfir hana, og þá er betra að ferska vatnið flói út fyrir en eiga á hættu að forin kaffæri okkur. Halda áfram að lesa

Ömurlegur „fréttaflutningur“ RÚV

Fyrsta fréttin í útvarpi RÚV í kvöld (og hluti af fyrstu frétt sjónvarps RÚV) fjallaði um hvernig bregðast bæri við úrskurði Hæstaréttar sem ógilti kosninguna til Stjórnlagaþings.  Nánar tiltekið fjallaði þessi langa aðalfrétt um skoðun eins manns úti í bæ á þessu efni.

Þessi maður sem fenginn var til að kynna skoðanir sínar svona rækilega í útvarpi landsmanna var kynntur sem prófessor í stjórnmálafræði og heitir Gunnar Helgi Kristinsson.  Það er útbreiddur (og aðallega íslenskur) misskilningur að stjórnmálafræðingar viti eitthvað meira um stjórnmál líðandi stundar en hver sem er (nema þá helst þegar upp koma aðstæður sem endurspegla svipaða atburði í sögunni, en það er mjög sjaldan raunin þegar stjórnmálafræðingar þessa lands eru fengnir til að tjá sig um stjórnmál í fjölmiðlum).  Í kvöld tók þó steininn úr, því augljóslega vita stjórnmálafræðingar landsins ekki nokkurn skapaðan hlut um stöðuna í Stjórnlagaþingsmálinu umfram hvern sem er, enda hefur aldrei áður verið haldið Stjórnlagaþing, hvað þá kosið til slíks þings eða kosningar dæmdar ógildar.

Það bætti ekki úr skák að Gunnar tók fræðimannsheiður sinn ekki hátíðlegar en svo að hann leyfði sér meira að segja að leggja til hvernig málið skyldi „leyst“, það er að segja með því að Alþingi skipaði stjórnlaganefnd, samsetta úr því fólki sem kosningu hlaut, og gæfi þar með Hæstarétti langt nef.  Auk þess gat Gunnar sér þess til að þátttaka gæti orðið mun minni ef kosið yrði að nýju, án þess að færa nokkur rök fyrir þeirri skoðun sinni, enda vandséð hvernig hann getur vitað nokkurn skapaðan hlut um það.

Ekki batnaði umfjöllun RÚV þegar talað var í Kastljósi við kollega Gunnars, Ólaf Þ. Harðarson, sem einnig er stjórnmálafræðiprófessor.  Hann talaði lengi um að fara þyrfti vandlega yfir og melta dóm Hæstaréttar, og einnig að ef til vill þyrfti að endurskoða lögin um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþingsins.  Hvort tveggja er furðulegt, því dómur Hæstaréttar var mjög skýr:  Það sem var að voru allt hlutir sem brutu gegn þeim reglum sem gilda um Alþingiskosningar, enda hafði framkvæmdinni verið breytt þótt lög kvæðu á um að standa skyldi að þessum kosningum eins og kosningum til þings. (Þær breytingar eru óskiljanlegar í ljósi þess að landskjörstjórn, eða a.m.k. formaður hennar, er sú sama og í síðustu Alþingiskosningum).

Ólafur talaði reyndar líka um að hann hefði rætt  við lögfræðinga um málið, að því er virðist af því að honum fannst þetta svo flókið, sem undirstrikar að hann var ekki maðurinn sem átti að tala við um þetta í sjónvarpi, enda virtust lögfræðingarnir  einmitt hafa sagt honum ofangreint, sem þó þurfti ekki lögfræðimenntun til að skilja.  Tal Ólafs  um að ef til vill þyrfti að hafa önnur lög um kosningar af þessu tagi en til Alþingis er líka sérkennilegt, því ekkert af því sem Hæstiréttur fann að hefði verið minnsti vandi að hafa í lagi.

Gunnar og Ólafur bitu svo hvor sitt hálft höfuð af skömminni þegar þeir lögðu áherslu á að Stjórnlagaþingið væri jú bara ráðgefandi, sem Gunnar notaði sem rök fyrir leiðinni sem honum persónulega hugnast best, að Alþingi kjósi í stjórnlaganefnd þá sem kosningu hlutu til Stjórnlagaþingsins.  Skiljanlegt væri ef lögfræðingur legði áherslu á formlegt hlutverk þingsins.  En að prófessorar í stjórnmálafræði geri það bendir til að þeir séu alls óvitandi um hvað hrærist í þjóðarsálinni þessa dagana, því um þetta eru pólitísk átök, óháð því hvað var ákveðið formlega.

Það er til vansa fyrir „fræðimannsheiður“ þessara manna að þeir skuli láta kynna sig sem prófessora í stjórnmálafræði þegar þeir úttala sig um mál af þessu tagi.  Það er ekki síður til vansa fyrir skólann sem þeir starfa við.  Það er nefnilega ekki svona sem háskólafólk leggur af mörkum til umræðunnar í þjóðfélaginu.  Fræðimenn á hvaða sviði sem er ættu ekki að koma fram kynntir sem slíkir nema þeir séu að miðla af sérstakri þekkingu sem þeir hafa í krafti rannsóknastarfs síns.  Það gerðu þessir menn ekki í kvöld, og það gera þeir, og aðrir stjórnmálafræðingar landsins, nánast aldrei þegar þeir koma fram í fjölmiðlum.  Það er enn ein hliðin á fúskinu á Íslandi, sama fúski og því sem gerði Stjórnlagaþingskosninguna ógilda. Mál er að linni.

Einkarekstur, orkuauðlindir og Samfylkingin

Magnús Orri Schram skrifar grein í Fréttablaðið í dag um einkarekstur og orkuauðlindir.  Ekki er ljóst hvort hann lýsir hér stefnu Samfylkingarinnar, en gott væri að fá það á hreint.

Rétt er að taka fram í upphafi að undirritaður er fylgjandi einkarekstri í atvinnulífinu hvar sem hann virkar vel, en alls ekki þar sem hagsmunum almennings er betur borgið með opinberum rekstri.  Það er hins vegar ýmislegt athugavert við þá afstöðu sem birtist í grein Magnúsar. Þar á meðal er „röksemdafærslan“ sem hann beitir þegar hann segir eftirfarandi:

Það væri óskynsamlegt að stofna Útgerðarfélag Ríkisins sem sæi um þorskveiðar í Faxaflóa, og því er það ekki sjálfgefið að best væri að opinberir aðilar sjái um að bora eftir jarðgufu við Svartsengi.

Miklu betri leið til að tryggja almannahagmuni er að stytta lengd nýtingarsamninga við einkaaðila niður í 35 ár í stað 65 ára, og að tryggja að þjóðin fái góðan arð af nýtingu auðlindanna.

Þetta „því“ sem stendur í fyrri málsgreininni bendir til að Magnús telji að staðhæfingin um óskynsemi þess að ríkið stundi fiskveiðar leiði af sér að ekki sé sjálfsagt að ríkið bori eftir gufu.  Þarna á milli er ekki röklegt samband og leiðinlegt að sjá slíkan blekkingaleik.
Þótt við tækjum undir að óskynsamlegt væri að láta ríkið sjá um þorskveiðar í Faxaflóa, og jafnvel þótt við föllumst á að ekki sé sjálfgefið að opinberir aðilar nýti gufuna í Svartsengi, þá leiðir heldur engan veginn af því að leiðin sem Magnús leggur til sé „miklu betri“ til að tryggja almannahagsmuni. Það er nákvæmlega ekkert sem segir að það gerist með því að stytta nýtingarsamninga niður í 35 ár, og það er nákvæmlega ekkert sem segir að „þjóðin fái góðan arð af nýtingu auðlindanna“ með því að leigja nýtingarréttinn til einkaaðila, hvort sem það er til langs eða skamms tíma.  Alveg sérstaklega virðist ólíklegt að verð á orku í heiminum muni lækka næstu áratugina (vegna síaukinnar eftirspurnar og sífellt dýrari olíu), og í því ljósi er ekkert sérlega trúlegt að það sé skynsamlegt að selja orku til margra áratuga í senn, eins og gert hefur verið til stóriðju hér, og eins með sölunni á HS Orku.
Auk þessa er þetta afar óheppileg ábending um þorskveiðarnar, því þótt til séu vel rekin útgerðarfyrirtæki á Íslandi keyrði greinin í heild sinni sjálfa sig nánast í gjaldþrot á síðustu árum fyrir hrun og stendur nú uppi með gríðarlegar skuldir.

Magnús segir líka

Þá er líka ósvarað hvort æskilegt sé að skattgreiðendur skuli bera áhættu af fjárfestingu í orkuvinnslu fyrir stöku stóriðjuverkefni.

Þessu er auðvelt að svara:  Sú áhætta sem felst í fjárfestingu í orkuvinnslu er ekki sérlega mikil, og alveg sérstaklega er hún hlutfallslega mjög lítil fyrir ríki sem rekur alla orkuvinnslu landsins sjálft.  Þetta er því engin röksemd gegn opinberum rekstri í orkugeiranum.

Magnús klykkir svo út með þessu:

Þannig eigi að gilda sömu reglur um orkuauðlindir og auðlindir sjávar.

Fyrir þessu eru alls engar röksemdir færðar, þótt ljóst megi vera að hér sé að mörgu leyti um gerólíka hluti að ræða.

Þar sem Magnús færir engin rök fyrir máli sínu læðist að manni sá grunur að hér sé ekki um að ræða afstöðu sem byggð er á þekkingu og ígrundun, heldur trúarsetningar.  Þessar trúarsetningar um ágæti einkarekstrar á öllum sviðum höfum við séð í ríkum mæli í marga áratugi, ekki síst síðustu tíu árin eða svo, og þær ganga gjarnan undir nafninu „frjálshyggja“ (sem er allt of fallegt nafn á þá ljótu útfærslu sem  leitt hefur til ofsagróða ýmissa pilsfaldakapítalista).

Reynslan af einkarekstri á Íslandi síðustu fimmtíu árin að minnsta kosti er að hann hafi í mjög mörgum tilfellum (t.d. í bankarekstri og olíusölu) verið einokun eða fákeppni útvaldra valdablokka, í skjóli ríkisins.  Reynslan síðustu tíu árin er hins vegar að einkarekstur margra stórfyrirtækja rústaði efnahagskerfi þjóðarinnar, og kom þúsundum saklauss fólks á vonarvöl.

Það er rétt að endurtaka að undirritaður er fylgjandi einkarekstri, og sem minnstum afskiptum ríksins, alls staðar þar sem það á við, og ég tel að með góðu umhverfi og leikreglum geti það átt við stóran hluta atvinnulífsins (en þó varla orkuvinnslu og veiturekstur).

En ef Samfylkingin ætlar að boða fagnaðarerindi einkarekstrar sem trúarsetningu á rústum íslensks efnahagslífs, áður en hún hefur sýnt nokkra tilburði til að taka til í rústunum, og meðan ekkert bendir til annars en að sömu valdablokkirnar muni í aðalatriðum halda áfram að maka krókinn hér, þá er það ágeng spurning hvert við eigum að snúa okkur sem teljum okkur vera frjálslynt og (hóflega) markaðssinnað félagshyggjufólk.

Saksóknari missir tök á veruleikanum

Sé rétt eftir haft í þessari frétt er ekki annað að sjá en að Lára V. Júlíusdóttir lifi í allt öðrum veruleika en þeim sem flestir Íslendingar þekkja, jafnvel þeir sem lítið telja athugavert við að réttað sé yfir Nîmenningunum.

Nánast enginn hefur treyst sér til, eða talið ástæðu til, að verja þá ákvörðun Láru að ákæra Nímenningana á fyrir brot á 100. greinar hegningarlaga, sem fjallar um tilraunir til að svipta Alþingi sjálfræði, þ.e.a.s. um valdaránstilraunir. Ekkert hefur komið fram í réttarhöldunum sem breytir þeirri mynd sem löngu áður var komin fram:

Nímenningarnir reyndu að komast á þingpalla til að flytja stutt ávarp. Tveim þeirra tókst að komast þangað, en gátu ekki sagt nema tíu orð. Staðhæfingar um að einhver Nímenninganann hefði slasað þingvörð reyndust rangar, eins og kom fram í myndupptökum sem sýndar hafa verið í sjónvarpi (og það þótt starfsmenn Alþingis hafi fargað mestöllum upptökunum, nema þeim sem þeir töldu að væru „áhugaverðastar“ fyrir þá sjálfa).

Hafi það verið samantekin ráð (sem ekki hefur verið sýnt fram á í réttarhöldunum) að fara á þingpalla til að lesa upp yfirlýsingu þarf einbeittan sakfellingarvilja (ef ekki vænisýki á háu stigi) til að láta sér detta í hug að slíkt sé ógnun við öryggi Alþingis.

Að líkja aðgerðum Nîmenninganna við skipulagða vopnaða árás, þar sem fólki var misþyrmt hrottalega, er svo yfirgengilegt að fólk spyr sig hvort saksóknari sé með réttu ráði. Það er sorglegt að sjá Láru V. Júlíusdóttur setja upp þetta leikrit sem virðist ætla að verða persónulegur harmleikur fyrir hana sjálfa.

Fáir óska þess líklega, þrátt fyrir allt, að henni verði refsað eins og þó væri eðlilegt, fyrir að bera saklaust fólk svo þungum og röngum sökum, og að líkja því við samviskulausa ofbeldismenn. En félagar Láru í valdakerfinu verða að sjá til þess að þetta verði hennar síðasta verk í íslenska réttarkerfinu, og þeir þurfa að hreinsa eigin heiður með því að lýsa skorinort yfir að hér hafi verið farið langt yfir strikið, og að slíkt verði ekki liðið aftur.

Það er ekki nóg að lýsa yfir depurð, eins og forsætisráðherra gerði í fyrradag, það er tími til kominn að þeir sem völdin hafa taki ábyrgð á gerðum ríkisvaldsins.