Saksóknari missir tök á veruleikanum

Sé rétt eftir haft í þessari frétt er ekki annað að sjá en að Lára V. Júlíusdóttir lifi í allt öðrum veruleika en þeim sem flestir Íslendingar þekkja, jafnvel þeir sem lítið telja athugavert við að réttað sé yfir Nîmenningunum.

Nánast enginn hefur treyst sér til, eða talið ástæðu til, að verja þá ákvörðun Láru að ákæra Nímenningana á fyrir brot á 100. greinar hegningarlaga, sem fjallar um tilraunir til að svipta Alþingi sjálfræði, þ.e.a.s. um valdaránstilraunir. Ekkert hefur komið fram í réttarhöldunum sem breytir þeirri mynd sem löngu áður var komin fram:

Nímenningarnir reyndu að komast á þingpalla til að flytja stutt ávarp. Tveim þeirra tókst að komast þangað, en gátu ekki sagt nema tíu orð. Staðhæfingar um að einhver Nímenninganann hefði slasað þingvörð reyndust rangar, eins og kom fram í myndupptökum sem sýndar hafa verið í sjónvarpi (og það þótt starfsmenn Alþingis hafi fargað mestöllum upptökunum, nema þeim sem þeir töldu að væru „áhugaverðastar“ fyrir þá sjálfa).

Hafi það verið samantekin ráð (sem ekki hefur verið sýnt fram á í réttarhöldunum) að fara á þingpalla til að lesa upp yfirlýsingu þarf einbeittan sakfellingarvilja (ef ekki vænisýki á háu stigi) til að láta sér detta í hug að slíkt sé ógnun við öryggi Alþingis.

Að líkja aðgerðum Nîmenninganna við skipulagða vopnaða árás, þar sem fólki var misþyrmt hrottalega, er svo yfirgengilegt að fólk spyr sig hvort saksóknari sé með réttu ráði. Það er sorglegt að sjá Láru V. Júlíusdóttur setja upp þetta leikrit sem virðist ætla að verða persónulegur harmleikur fyrir hana sjálfa.

Fáir óska þess líklega, þrátt fyrir allt, að henni verði refsað eins og þó væri eðlilegt, fyrir að bera saklaust fólk svo þungum og röngum sökum, og að líkja því við samviskulausa ofbeldismenn. En félagar Láru í valdakerfinu verða að sjá til þess að þetta verði hennar síðasta verk í íslenska réttarkerfinu, og þeir þurfa að hreinsa eigin heiður með því að lýsa skorinort yfir að hér hafi verið farið langt yfir strikið, og að slíkt verði ekki liðið aftur.

Það er ekki nóg að lýsa yfir depurð, eins og forsætisráðherra gerði í fyrradag, það er tími til kominn að þeir sem völdin hafa taki ábyrgð á gerðum ríkisvaldsins.