Greinasafn fyrir merki: Magnús Orri Schram
Þingmaður lýgur
Hvað veit Magnús Orri um áform Huangs Nubo?
Magnús Orri Schram skrifaði bloggpistil í dag um kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum, sem Magnús virðist áfram um, af því að „Ísland þurfi á erlendri fjárfestingu að halda til hagvaxtar“. Þessi gatslitna klisja um að „Ísland þurfi á erlendri fjárfestingu að halda“ er að vísu aldrei rökstudd (sem er sérkennilegt, og þar að auki þversagnakennt í ljósi þess að Landsbankastjórinn hefur nýlega kvartað yfir því að geta ekki sett í umferð alla tugmilljarðana sem bankinn hefur grætt), en látum það liggja á milli hluta í bili, enda myndi það æra óstöðugan að ætla að greina á einu bretti alla þvæluna í þeim yfirlýsingum sem íslenskir stjórmálamenn láta dynja á landsmönnum um „hagfræði“. Halda áfram að lesa
Einkarekstur, orkuauðlindir og Samfylkingin
Magnús Orri Schram skrifar grein í Fréttablaðið í dag um einkarekstur og orkuauðlindir. Ekki er ljóst hvort hann lýsir hér stefnu Samfylkingarinnar, en gott væri að fá það á hreint.
Rétt er að taka fram í upphafi að undirritaður er fylgjandi einkarekstri í atvinnulífinu hvar sem hann virkar vel, en alls ekki þar sem hagsmunum almennings er betur borgið með opinberum rekstri. Það er hins vegar ýmislegt athugavert við þá afstöðu sem birtist í grein Magnúsar. Þar á meðal er „röksemdafærslan“ sem hann beitir þegar hann segir eftirfarandi:
Það væri óskynsamlegt að stofna Útgerðarfélag Ríkisins sem sæi um þorskveiðar í Faxaflóa, og því er það ekki sjálfgefið að best væri að opinberir aðilar sjái um að bora eftir jarðgufu við Svartsengi.
Miklu betri leið til að tryggja almannahagmuni er að stytta lengd nýtingarsamninga við einkaaðila niður í 35 ár í stað 65 ára, og að tryggja að þjóðin fái góðan arð af nýtingu auðlindanna.
Magnús segir líka
Þá er líka ósvarað hvort æskilegt sé að skattgreiðendur skuli bera áhættu af fjárfestingu í orkuvinnslu fyrir stöku stóriðjuverkefni.
Þessu er auðvelt að svara: Sú áhætta sem felst í fjárfestingu í orkuvinnslu er ekki sérlega mikil, og alveg sérstaklega er hún hlutfallslega mjög lítil fyrir ríki sem rekur alla orkuvinnslu landsins sjálft. Þetta er því engin röksemd gegn opinberum rekstri í orkugeiranum.
Magnús klykkir svo út með þessu:
Þannig eigi að gilda sömu reglur um orkuauðlindir og auðlindir sjávar.
Fyrir þessu eru alls engar röksemdir færðar, þótt ljóst megi vera að hér sé að mörgu leyti um gerólíka hluti að ræða.
Þar sem Magnús færir engin rök fyrir máli sínu læðist að manni sá grunur að hér sé ekki um að ræða afstöðu sem byggð er á þekkingu og ígrundun, heldur trúarsetningar. Þessar trúarsetningar um ágæti einkarekstrar á öllum sviðum höfum við séð í ríkum mæli í marga áratugi, ekki síst síðustu tíu árin eða svo, og þær ganga gjarnan undir nafninu „frjálshyggja“ (sem er allt of fallegt nafn á þá ljótu útfærslu sem leitt hefur til ofsagróða ýmissa pilsfaldakapítalista).
Reynslan af einkarekstri á Íslandi síðustu fimmtíu árin að minnsta kosti er að hann hafi í mjög mörgum tilfellum (t.d. í bankarekstri og olíusölu) verið einokun eða fákeppni útvaldra valdablokka, í skjóli ríkisins. Reynslan síðustu tíu árin er hins vegar að einkarekstur margra stórfyrirtækja rústaði efnahagskerfi þjóðarinnar, og kom þúsundum saklauss fólks á vonarvöl.
Það er rétt að endurtaka að undirritaður er fylgjandi einkarekstri, og sem minnstum afskiptum ríksins, alls staðar þar sem það á við, og ég tel að með góðu umhverfi og leikreglum geti það átt við stóran hluta atvinnulífsins (en þó varla orkuvinnslu og veiturekstur).
En ef Samfylkingin ætlar að boða fagnaðarerindi einkarekstrar sem trúarsetningu á rústum íslensks efnahagslífs, áður en hún hefur sýnt nokkra tilburði til að taka til í rústunum, og meðan ekkert bendir til annars en að sömu valdablokkirnar muni í aðalatriðum halda áfram að maka krókinn hér, þá er það ágeng spurning hvert við eigum að snúa okkur sem teljum okkur vera frjálslynt og (hóflega) markaðssinnað félagshyggjufólk.