Þingmaður lýgur

Allir þingmenn vita að hendur næsta Alþingis verða ekki bundnar á nokkurn hátt (umfram það sem gildandi stjórnarskrá gerir hverju sinni).  Þess vegna er varla hægt að líta á það sem annað en einskæra lygi þegar Magnús Orri Schram heldur fram að hægt sé að „kveða á um“ annað eins og hann gerir hér:

Málamiðlun formanns Samfylkingar byggir á raunsæju mati á stöðu stjórnarskrárinnar. Með henni verður kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, aukið vægi beins lýðræðis í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur,  og að verkefninu um endurskoðun stjórnarskrár verði tryggt framhaldslíf á næsta kjörtímabili.
Auk þess að ekki er hægt að binda hendur Alþingis á næsta kjörtímabili er auðvitað ekki heldur á hreinu hvaða fólk mun sitja á því þingi, og tómt mál að tala um að núverandi þingmenn geti bundið hendur þeirra sem á eftir koma.
Magnús er ekki einn um þetta; fleiri stjórnarliðar, með formann Samfylkingar í fararbroddi, hafa talað um „málamiðlun“ sem gangi út á þetta.
Það er lágt lagst þegar þingmenn eru beinlínis farnir að ljúga til að reyna að lægja þá réttmætu reiði sem blossað hefur upp vegna yfirlýsinga margra stjórnarliða sem benda til að þeir ætli að svíkja almenning um þær stjórnarskrárbreytingar sem gífurleg vinna hefur verið lögð í síðustu árin.
Stjórnarliðar á þingi þurfa nú að velja á milli ótvíræðra óska yfirgnæfandi meirihluta kjósenda um nýja stjórnarskrá og þeirrar kröfu afturhaldssamra en voldugra sérhagsmuna, sem Sjálfstæðisflokkurinn er helsti málsvari fyrir, að barðar verði niður tilraunir almennings til að setja leikreglur þeim stjórnvöldum sem ættu með réttu að þjóna almannahagsmunum og engu öðru.
Þetta virðist því miður vera erfitt val, jafnvel fyrir fólk í flokkum sem kenna sig við vinstristefnu.  Svo erfitt að sumir þingmenn þeirra  skirrast ekki við að ljúga blákalt.  Ætla allir stjórnarliðar á þingi að  sitja undir þessu?

Deildu færslunni