Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur

Eftirfarandi póst sendi ég Katrínu Jakobsdóttur, ráðherra og formanni VG, fyrr í dag.
_______________________________________________
Sæl Katrín

Formaður Samfylkingarinnar leggur fram á Alþingi í dag ásamt Katrínu Jakobsdóttur formanni VG og Guðmundi Steingrímssyni formanni Bjartrar framtíðar frumvarp til breytingar á stjórnarskrá sem heimilar stjórnarskrárbreytingar á næsta kjörtímabili og tillögu til þingsályktunar um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins árið 2014.

Þú veist, eins og aðrir á þingi, að núverandi þingmenn geta með engum hætti bundið næsta þing til að gera nokkurn skapaðan hlut.  Auk þess vitið þið vel að það eru talsverðar líkur á að Sjálfstæðisflokki og Framsókn verði í lófa lagið að koma í veg fyrir allar  breytingar á stjórnarskrá á næsta þingi.  Með þessari tillögu eruð þið því bara að senda bænaskjal til afturhaldsaflanna um að vera nú svo hugguleg að gefa okkur nýja og fallega stjórnarskrá, í lítilmannlegri tilraun til að breiða yfir eigin svik.
Þetta eru ekki bara svik við vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda, og þá sérstaklega þeirra sem hafa sett traust sitt á ykkur í stjórnarflokkunum.  Þetta er líka einhver versta þjónkun sem lengi hefur sést við þær valdaklíkur sem ráða lögum og lofum í landinu, því allir vita að það eru þær sem berjast með kjafti og klóm gegn því að ný stjórnarskrá verði samþykkt, og af skiljanlegum ástæðum.
Margir hafa bundið vonir við þig sem stjórnmálaleiðtoga, af því að þeir héldu að þú værir hreinskiptin og heiðarleg og settir almannahag ofar hagsmunum auðs og valds.  Vonbrigði þeirra eru væntanlega mikil þegar þú lætur það verða eitt þitt fyrsta verk sem formanns VG að taka þátt í að murka lífið úr þeirri stjórnarskrá sem almenningur hefur sýnt svo ótvírætt að hann vill að verði samþykkt.  Ekki bætir úr skák að þið ætlið svo að skila hræinu til afturhaldsaflanna til dysjunar og reyna þannig að þvo hendur ykkar af ódæðinu.
Ég vona að þú sjáir að þér, og beitir þér einarðlega fyrir því að stjórnarskrárfrumvarpið verði samþykkt í heild sinni.
Kveðjur,
Einar Steingrímsson

Deildu færslunni