Magnús Orri Schram skrifaði bloggpistil í dag um kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum, sem Magnús virðist áfram um, af því að „Ísland þurfi á erlendri fjárfestingu að halda til hagvaxtar“. Þessi gatslitna klisja um að „Ísland þurfi á erlendri fjárfestingu að halda“ er að vísu aldrei rökstudd (sem er sérkennilegt, og þar að auki þversagnakennt í ljósi þess að Landsbankastjórinn hefur nýlega kvartað yfir því að geta ekki sett í umferð alla tugmilljarðana sem bankinn hefur grætt), en látum það liggja á milli hluta í bili, enda myndi það æra óstöðugan að ætla að greina á einu bretti alla þvæluna í þeim yfirlýsingum sem íslenskir stjórmálamenn láta dynja á landsmönnum um „hagfræði“.
Maður spyr sig, eðlilega, á hverju Magnús byggi þessar vonir sínar um að hratt verði gengið í að veita Huang leyfi til að kaupa Grímsstaði; hvað hann viti um áform þessa manns sem geri að verkum að hann sé svona áhugasamur um að Huang séu opnaðar allar dyr.
Svarið er að Magnús Orri veit ekki neitt. Ekkert umfram það sem fjölmiðlar segja að Huang hafi sagt, og það sem þeir hafa sagt að vinir mannsins hafi sagt að hann hafi sagt.
Magnús veit því það sama og við hin: Huang Nubo varð á tíu árum, eftir að hann hætti að vinna hjá Áróðursráðuneyti kínversku ógnarstjórnarinnar, einn ríkasti maður í heimi (meðal annars með starfsemi í Tíbet, þar sem fyrrum húsbændur hans stjórna með pyntingum og morðum). Erfitt er að henda reiður á hvernig maðurinn efnaðist svona ógurlega. Hann hefur lýst yfir miklum áformum um uppbyggingu í ferðamannabransa í USA, en minna orðið úr framkvæmdum. Huang hefur líka lýst yfir að það sé góður tími til að kaupa land á Íslandi, því verðið sé lágt, og Íslendingar þurfi að selja.
Af þessum takmörkuðu upplýsingum finnst mér eðlilegra að giska á allt annað en það sem Magnús Orri virðist gera: Nefnilega að Huang Nubo sé trúlega braskari, sem ætli að kaupa ódýrt til að selja öðrum bröskurum síðar dýrt. Góðviljaðar „yfirlýsingar“ hans um að hann hafi lítinn áhuga á auðlindum (sem þar að auki áttu bara við Jökulsá á Fjöllum) eru lítils virði, og einskis virði þegar hann er búinn að selja landið öðrum.
Það er eins og Magnús Orri, Árni Páll efnahags- og viðskiptaráðherra, og margir aðrir ráðamenn, hafi verið á fjöllum síðustu tíu árin, og hafi aldrei heyrt um auðjöfra sem lofa gulli og grænum skógum, en sem reynast síðan aðeins hafa áhuga á því sem þeir sannanlega hafa haft mestan áhuga á, nefnilega að græða sem mesta peninga, sama hvernig að því er farið. Ekki vill maður frýja þessum stjórnmálamönnum vits. Hvað er það sem drífur þá áfram í þessu máli?