Við þurfum erlenda fjárfestingu. Not.

Hann er orðinn síbylja, kórinn um að Ísland þurfi mikla erlenda fjárfestingu.  En það gildir sama um hann og ýmsar aðrar staðhæfingar í pólitísku „umræðunni“ á Íslandi:  Það eru aldrei færð fram nein rök, og allt of fáu fjölmiðlafólki dettur í hug að spyrja þá út úr sem slíku halda fram.

Þangað til einhver rök koma fram er skynsamlegast að leiða hjá sér þessa staðhæfingu, svona almennt séð.  En, ein nýleg sérútgáfa af henni er svo frumleg að sjálfsagt er að benda á það, jafnvel þótt kórinn sem kyrjar hana hafi ekki heldur í því tilviki fært fram nein rök.  Nefnilega að sjálfsagt sé að veita í hvelli undanþágu frá lögum til að auðjöfurinn Huang Nubo fái að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, af því að það vanti svo sárlega útlenskt fé til Íslands.  Eða, eins og haft er eftir Hjörleifi Sveinbjörnssyni, aldavini Huangs, í China Daily í gær:  „Iceland has gone through a deep economic crisis since the banking problems in 2008. We need foreign investment to get things going“.

Hjörleifur þessi er mágur utanríkisráðherra, og eiginmaður fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar, auk þess sem sendiherrann í Kína, Kristín Árnadóttir, sem er yfir sig hrifin af áformum Huangs, er fyrrum náin samstarfskona Ingibjargar til margra ára (Ingibjörg gerði hana svo að sendiherra) og reyndar systir ráðuneytisstjórans í Fjármálaráðuneytinu.  Þetta skýrir ef til vill af hverju Huang virðist svona viss um jákvæð viðbrögð úr íslensku stjórnsýslunni; maðurinn er í talsambandi við gott fólk.

Þetta var nú útúrdúr, um hið klassíska íslenska talsamband og mægðir valdafólks.  Hitt er athyglisverðara að svo illa sé komið fyrir Íslandi að nauðsynlegt sé að flytja hingað fé í stórum stíl frá Kína.  Síðast þegar ég vissi voru nefnilega milljónir manna þar eystra við hungurmörk, og mér datt svona í hug að skárra væri að Huang notaði auðæfi sín til að gera eitthvað í þeim málum, frekar en að láta okkur Íslendinga njóta rausnar sinnar.  En, hvað veit ég; vel má vera að fólk svelti tugþúsundum saman á sléttunum fyrir norðan, þarna á þessu landflæmi sem er jörðin Grímsstaðir á Fjöllum.