Fyrsta fréttin í útvarpi RÚV í kvöld (og hluti af fyrstu frétt sjónvarps RÚV) fjallaði um hvernig bregðast bæri við úrskurði Hæstaréttar sem ógilti kosninguna til Stjórnlagaþings. Nánar tiltekið fjallaði þessi langa aðalfrétt um skoðun eins manns úti í bæ á þessu efni.
Þessi maður sem fenginn var til að kynna skoðanir sínar svona rækilega í útvarpi landsmanna var kynntur sem prófessor í stjórnmálafræði og heitir Gunnar Helgi Kristinsson. Það er útbreiddur (og aðallega íslenskur) misskilningur að stjórnmálafræðingar viti eitthvað meira um stjórnmál líðandi stundar en hver sem er (nema þá helst þegar upp koma aðstæður sem endurspegla svipaða atburði í sögunni, en það er mjög sjaldan raunin þegar stjórnmálafræðingar þessa lands eru fengnir til að tjá sig um stjórnmál í fjölmiðlum). Í kvöld tók þó steininn úr, því augljóslega vita stjórnmálafræðingar landsins ekki nokkurn skapaðan hlut um stöðuna í Stjórnlagaþingsmálinu umfram hvern sem er, enda hefur aldrei áður verið haldið Stjórnlagaþing, hvað þá kosið til slíks þings eða kosningar dæmdar ógildar.
Það bætti ekki úr skák að Gunnar tók fræðimannsheiður sinn ekki hátíðlegar en svo að hann leyfði sér meira að segja að leggja til hvernig málið skyldi „leyst“, það er að segja með því að Alþingi skipaði stjórnlaganefnd, samsetta úr því fólki sem kosningu hlaut, og gæfi þar með Hæstarétti langt nef. Auk þess gat Gunnar sér þess til að þátttaka gæti orðið mun minni ef kosið yrði að nýju, án þess að færa nokkur rök fyrir þeirri skoðun sinni, enda vandséð hvernig hann getur vitað nokkurn skapaðan hlut um það.
Ekki batnaði umfjöllun RÚV þegar talað var í Kastljósi við kollega Gunnars, Ólaf Þ. Harðarson, sem einnig er stjórnmálafræðiprófessor. Hann talaði lengi um að fara þyrfti vandlega yfir og melta dóm Hæstaréttar, og einnig að ef til vill þyrfti að endurskoða lögin um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþingsins. Hvort tveggja er furðulegt, því dómur Hæstaréttar var mjög skýr: Það sem var að voru allt hlutir sem brutu gegn þeim reglum sem gilda um Alþingiskosningar, enda hafði framkvæmdinni verið breytt þótt lög kvæðu á um að standa skyldi að þessum kosningum eins og kosningum til þings. (Þær breytingar eru óskiljanlegar í ljósi þess að landskjörstjórn, eða a.m.k. formaður hennar, er sú sama og í síðustu Alþingiskosningum).
Ólafur talaði reyndar líka um að hann hefði rætt við lögfræðinga um málið, að því er virðist af því að honum fannst þetta svo flókið, sem undirstrikar að hann var ekki maðurinn sem átti að tala við um þetta í sjónvarpi, enda virtust lögfræðingarnir einmitt hafa sagt honum ofangreint, sem þó þurfti ekki lögfræðimenntun til að skilja. Tal Ólafs um að ef til vill þyrfti að hafa önnur lög um kosningar af þessu tagi en til Alþingis er líka sérkennilegt, því ekkert af því sem Hæstiréttur fann að hefði verið minnsti vandi að hafa í lagi.
Gunnar og Ólafur bitu svo hvor sitt hálft höfuð af skömminni þegar þeir lögðu áherslu á að Stjórnlagaþingið væri jú bara ráðgefandi, sem Gunnar notaði sem rök fyrir leiðinni sem honum persónulega hugnast best, að Alþingi kjósi í stjórnlaganefnd þá sem kosningu hlutu til Stjórnlagaþingsins. Skiljanlegt væri ef lögfræðingur legði áherslu á formlegt hlutverk þingsins. En að prófessorar í stjórnmálafræði geri það bendir til að þeir séu alls óvitandi um hvað hrærist í þjóðarsálinni þessa dagana, því um þetta eru pólitísk átök, óháð því hvað var ákveðið formlega.
Það er til vansa fyrir „fræðimannsheiður“ þessara manna að þeir skuli láta kynna sig sem prófessora í stjórnmálafræði þegar þeir úttala sig um mál af þessu tagi. Það er ekki síður til vansa fyrir skólann sem þeir starfa við. Það er nefnilega ekki svona sem háskólafólk leggur af mörkum til umræðunnar í þjóðfélaginu. Fræðimenn á hvaða sviði sem er ættu ekki að koma fram kynntir sem slíkir nema þeir séu að miðla af sérstakri þekkingu sem þeir hafa í krafti rannsóknastarfs síns. Það gerðu þessir menn ekki í kvöld, og það gera þeir, og aðrir stjórnmálafræðingar landsins, nánast aldrei þegar þeir koma fram í fjölmiðlum. Það er enn ein hliðin á fúskinu á Íslandi, sama fúski og því sem gerði Stjórnlagaþingskosninguna ógilda. Mál er að linni.