Lágkolvetnaveganhráfæðis lífsstíllinn

Eins og allir vita nú orðið eru kolvetni frá Kölska. Einnig ætti flestum að vera orðið ljóst að dýraafurðir eru frá djöflinum. Þeir eru kannski færri sem vita að eldaður matur er frá andskotanum sjálfum.  En látið ekki hugfallast. Það er vel hægt að lifa heilbrigðu og gífurlega hamingjusömu lífi með lágkolvetnaveganhráfæðinu. Halda áfram að lesa

Jarðarför á facebook

Í nótt dreymdi mig að íslenskur tónlistarmaður sem leit út eins og Mugison en var samt einhver annar, hefði látist af slysförum í útlöndum.

Þar sem reglugerð Landbúnaðarráðuneytisins heimilaði ekki innflutning á hráu kjöti var ekki hægt að flytja líkið heim og facebook logaði af skítkasti út í Jón Bjarnason.

Ættingjarnir neyddust til að grafa tónlistarmanninn, sem reyndist vera bróðir Bjarkar Guðmundsdóttur, í útlöndum. Ekki þótti raunhæft að reikna með að allir sem vildu kveðja hann færu utan til þess að vera við jarðarför svo þessvegna var ákveðið að útförin færi fram á facebook.

Þetta gekk ágætlega fyrir sig í megindráttum en mér fannst samt ægilega kjánalegt að sjá gula grátkalla og endalausar raðir af bleikum hjörtum á veggnum.

Þegar ég vaknaði dæsti ég yfir ruglinu sem fer fram í hausnum á mér í svefni. Ég er samt ekkert viss um að jarðarfarir á facebook séu langt undan.

Konan á heilsugæslugæslustöðinni

Ég átti erindi á heilsugæslustöðina í gær. Mér var sagt að það yrði dálítil bið þar til ég kæmist að, svo ég fann mér tímarit til að skoða. Ég var ekki fyrr sest en eldri kona sem sat þar bryddaði upp á samræðum. Hún sagði mér alla sína sjúkdómasögu, söguna af því þegar gleraugunum hennar var stolið og ýmislegt af  fjölskyldu sinni og vinum. Ég brosti kurteislega og í hvert sinn sem hún þagnaði opnaði ég blaðið og vonaði að hún áttaði sig á að ég vildi frekar lesa. Hún hélt bara áfram að tala og ég kunni ekki við annað en að sýna því áhuga.

Loks kom læknirinn fram og kallaði á mig. Konan var þannig staðsett að hún sást ekki frá dyrunum. Þegar ég stóð upp bað hún mig að nefna það ekki við lækninn að hún væri þarna því þá yrði henni hent út. „Ég kem hingað til að spjalla við fólk þegar mér leiðist en þau segja að ég megi ekki koma hingað nema panta tíma fyrst,“ sagði hún.

Söngur sauðkindarinnar

Í gulum skátagöllum
í gegnum snjóél hörð
í október við brutumst
til að bjarga týndri hjörð.
Þá undan fótum okkar
svo ámátlegt barst jarm
sem nísti gegnum nef og hjarta
og nið’rí endaþarm.

#Ég kvalin er kind
ég kvalin er kind
mig gangnamenn eltu
um grundir og tind.
ég stakk af en stormur
og stórhríðin blind
í staðinn mig hremmdu
Ég kvalin er kind.#

Fast á fimmtu viku
í fönninni ég lá
ósjálfbjarga, innilokuð
ekkert hey að fá.
Ég heyrði lömb mín hljóða
af hungri dag sem kvöld
og harmi slegin hef ég nagað
hræin þeirra köld.

Við hjuggum gat í harðskafann
því heyrt hef ég það sé
ólöglegt með öllu
að eta sjálfdautt fé.
Á skátabílnum brunuðum við
beint í sláturhús
og ég mun éta hangikjöt
um jólin, ásamt mús.