Lágkolvetnaveganhráfæðis lífsstíllinn

Eins og allir vita nú orðið eru kolvetni frá Kölska. Einnig ætti flestum að vera orðið ljóst að dýraafurðir eru frá djöflinum. Þeir eru kannski færri sem vita að eldaður matur er frá andskotanum sjálfum.  En látið ekki hugfallast. Það er vel hægt að lifa heilbrigðu og gífurlega hamingjusömu lífi með lágkolvetnaveganhráfæðinu.

Sennilega heldur þú lesandi góður að slíkt fæði sé nánast orkulaust og sérð fyrir þér að þú þurfir að lifa á selleríi og spínati eingöngu. En það er af og frá. Að vísu skal forðast kolvetni eins og heitan eldinn en fita er í góðu lagi og það eru til ótrúlega fituríkar jurtir. T.d. lárperur, ólívur, fræ og hnetur.  Þó skal borða þessar fæðutegundir í hófi því í þeim eru einnig hryllileg og heilsuspillandi kolvetni.

 

Dæmigerður matseðill LKVHL fólks er þannig:

Morgunmatur: Sellerí með 2 msk af ósöltuðu og sykurlausu hnetusmjöri.
Hádegismatur: Klettasalat með lauk og basilku ásamt einni tsk af kaldpressaðri ólívuolíu.
Kvöldmatur:  Lárpera með ólívuolíu og 1 msk af óristuðum sólblómafræjum.

Þetta eru aðeins um 25 gr af kolvetnum.

Einu sinni í viku má svo gera sér glaðan dag og borða einn tómat til viðbótar.