
Nauð táknar illgirni, áþján, neyð og nauðung. Í galdri er hún notuð til að gera öðrum eitthvað til miska og það ástand getur varað lengi en einnig snúist gegn þeim sem galdrinum beitir. Hægt er að nota Nauð til góðs því hún táknar einnig stafi sem núið er saman til að kynda eld og bönd sem festa eitthvað saman en hún er vandmeðfarin og ekki fyrir byrjendur.
Í rúnalestri táknar Nauð þvingandi aðstæður sem spyrjandinn verður að bregðast við því ástandið mun ekki lagast af sjálfu sér. Hann er fastur í viðjum sem hann verður að brjóta, þótt það kosti að hann þurfi að særa einhvern.
Hagl er rún tímabundinna erfiðleika. Í galdri er hún notuð sem refsirún, til þess að kalla erfiðleikahríð yfir þann sem hefur gert á hlut manns. Þótt markmiðið sé ekki að valda varanlegum skaða er alltaf vafasamt að nota bölrúnir og í versta falli getur það hitt nornina sjálfa eða einhvern annan en hún ætlaði.
Vend er happarúnin, sú sem vendir böli í gæfu og kallar fram gleði, skemmtun og nýjar hugmyndir. Vend er skemmtilegasta rúnin og í galdri er hún notuð til að bæta úr slæmu ástandi og kalla fram heppni sem hvetur mann til dáða. Ekkert illt hlýst af notkun hennar.
Gjöf er mesta gæfurúnin í norræna rúnarófinu. Í galdri er húr notuð til að kalla fram gæfu í hverskyns aðstæðum og sér í lagi í samskiptum. Gjöf er rún ástar, vináttu og þakklætis og alltaf er óhætt að nota hana í galdri því útilokað er að gera neitt illt með því hugarfari sem hún táknar.
Kaun er rún erfiðleika og sársauka. Í galdri er hún notuð til hefndar en eins og títt er um forneskju er hætt við að það bitni verst á norninni sjálfri og því mælt með að leita frekar annarra ráða til að jafna metin, sé þess þörf.
Reið er rún ferðalaga og ævintýra. Í galdri er hún notuð til að finna ný og spennandi tækifæri og efla hugarflug og sköpunargleði. Eins er hún notuð til verndar í óvæntum og ískyggilegum aðstæðum. Reið er engin stöðugleikarún og varfærni er þörf við notkun hennar.
Æsir eru tákn menningar, hernaðar og visku og Ás er viskurúnin. Hún táknar bæði bókvit og þá visku sem menn öðlast af reynslunni. Í galdri er hún notuð til þess að finna rétt og skynsamleg svör við ráðgátum og góð ráð í hverjum vanda.