Við Hugz erum eiginlega komin út fyrir efni þessarar færslu svo ég ákvað að svara með nýrri.
Ef þig vantar ekki þjónustu (reyndar er flest fólk tilbúið til að nýta sér þjónustu þegar hún er í boði)en hefur samt þörf fyrir návist kvensniptar gæti skýringin verið:
a)þér finnst skemmtilegt að hafa félagsskap í rúminu
b) þig langar að eiga sálufélaga.
Það er yfirleitt af þessum ástæðum sem flest fólk vill eiga maka. Munurinn á körlum og konum er sá að meirihluti karla vill helst eiga marga maka í einu og finnst ekkert mál að skipta um bæði bólfélaga og sálufélaga eins og nærbuxur. Konur eru oft voða mikið fyrir að tengja þetta tvennt einhvernveginn saman og búa til bigg-díl úr því enda er það eðli þeirra að flækja alla hluti ef þess er nokkur kostur.
Venjuleg, ringlhugsandi kona hefur þessa leiðindatilhneigingu til að trúa því að bara vegna þess að karlmaður hefur sofið hjá henni, trúað henni fyrir sínum innstu hjartans leyndarmálum, þegið þjónustu hennar, borðað frítt heima hjá henni vikum saman, myndað tengsl við börnin hennar og hundinn og sagt henni að hann elski hana, þá eigi hún þar með rétt á því að hann haldi sambandi við hana og sinni þörfum hennar þegar HÚN þarf á félagsskap að halda en ekki bara hann. Það er þessi eignarhaldstilhneiging kvenna sem gerir út af við flest sambönd.
Það sem mér finnst athyglisverðast við hinn dæmigerða karl er að honum finnst yfirleitt (þrátt fyrir frjálslyndi sitt gagnvart sjálfum sér) að konurnar sem sinna sálgæslu hans og kynþörf ættu ekki að mynda náin tengsl við aðra karlmenn. Þeim finnst líka gjarnan að þótt þeir sjálfir hafi þörf fyrir öryggi, blíðu, athygli, samúð, hvatningu, viðurkenningu og hughreystingu þá komi þeim lítið við þótt konurnar sem þeir skvetta í hafi þessar sömu þarfir.
Karlmenn líta nefnilega oftast á konur sem mjög fjölhæfar verur en sjálfa sig sem sérhæfða.