Eilífðarmálin

Við Hugz erum eiginlega komin út fyrir efni þessarar færslu svo ég ákvað að svara með nýrri.

Ef þig vantar ekki þjónustu (reyndar er flest fólk tilbúið til að nýta sér þjónustu þegar hún er í boði)en hefur samt þörf fyrir návist kvensniptar gæti skýringin verið:
a)þér finnst skemmtilegt að hafa félagsskap í rúminu
b) þig langar að eiga sálufélaga.

Það er yfirleitt af þessum ástæðum sem flest fólk vill eiga maka. Munurinn á körlum og konum er sá að meirihluti karla vill helst eiga marga maka í einu og finnst ekkert mál að skipta um bæði bólfélaga og sálufélaga eins og nærbuxur. Konur eru oft voða mikið fyrir að tengja þetta tvennt einhvernveginn saman og búa til bigg-díl úr því enda er það eðli þeirra að flækja alla hluti ef þess er nokkur kostur.

Venjuleg, ringlhugsandi kona hefur þessa leiðindatilhneigingu til að trúa því að bara vegna þess að karlmaður hefur sofið hjá henni, trúað henni fyrir sínum innstu hjartans leyndarmálum, þegið þjónustu hennar, borðað frítt heima hjá henni vikum saman, myndað tengsl við börnin hennar og hundinn og sagt henni að hann elski hana, þá eigi hún þar með rétt á því að hann haldi sambandi við hana og sinni þörfum hennar þegar HÚN þarf á félagsskap að halda en ekki bara hann. Það er þessi eignarhaldstilhneiging kvenna sem gerir út af við flest sambönd.

Það sem mér finnst athyglisverðast við hinn dæmigerða karl er að honum finnst yfirleitt (þrátt fyrir frjálslyndi sitt gagnvart sjálfum sér) að konurnar sem sinna sálgæslu hans og kynþörf ættu ekki að mynda náin tengsl við aðra karlmenn. Þeim finnst líka gjarnan að þótt þeir sjálfir hafi þörf fyrir öryggi, blíðu, athygli, samúð, hvatningu, viðurkenningu og hughreystingu þá komi þeim lítið við þótt konurnar sem þeir skvetta í hafi þessar sömu þarfir.

Karlmenn líta nefnilega oftast á konur sem mjög fjölhæfar verur en sjálfa sig sem sérhæfða.

 

One thought on “Eilífðarmálin

  1. ——————————————————-

    Alhæfingar, just love ’em:)

    Sem sagt ef maður :
    1. Þiggur „þjónustu“ þína
    2. Borðar frítt hjá þér
    3. Myndar tengsl við hundinn þinn

    Þá áttu rétt á ævarandi sambandi og trúnaði ?

    Posted by: handsomedevil46 | 26.01.2007 | 14:33:46

    —————————————————–

    Veistu það handsomedevil, ég held bara að þú ráðir ekki alveg við svona djúpar og flóknar bókmenntir. Kannski ættirðu að æfa þig á einhverju sem gerir minni kröfu um ályktunarhæfni. Þú gætir t.d. prófað litlu, gulu hænuna.

    Posted by: Eva | 26.01.2007 | 15:38:41

    —————————————————–

    Þar sem ég er hvort sem er „raptus regalis“ ,ein spurning. Eru allir karlmenn fávitar að þínu áliti, eða bara ég ? 🙂
    Á maður að tileinka sér þá hæfni að mæla það eitt sem vit er fyrir ? 🙂

    Posted by: handsomedevil46 | 26.01.2007 | 16:02:39

    —————————————————–

    Að þessu sinni líkar mér ágætlega bæði við a) og b). Sumar konur virðast hafa sterkari hreiðurgerðareðli en aðrar. Þær vilja hefja hreiðurgerð um leið og þær hitta vænlegan maka. Eða bara um leið og þær sjá vænlegan maka. Þetta getur vissulega valdið misskilningi á tíðum, sérstaklega ef makinn er ekki jafn hreiðurhneigður. Sumir eru svo líka hreinlega hreiðurfælnir og þora varla að sitja lengi á sömu greininni. Nú á tímum er svo komið upp fyrirbrigðið „raðmökun“ (stundun nefnt raðkvæni) sem lýsir sér í því að fólk verður að eiga sem flesta maka á sem stystum tíma. Þetta getur líka valdið ákveðnum misskilningi. Konur eru hins vegar alveg jafn virkir þátttakendur og karlar í þessari íþrótt.
    Karlmenn líta á konur sem mjög flóknar verur, ekki endilega fjölhæfar, enda eru þær mjög flóknar í meðhöndlun. Karlar eru hins vegar einfaldari að allri gerð (að eigin mati alla vegana).

    Posted by: Hugz | 26.01.2007 | 16:25:36

    —————————————————–

    Ég hef orðið þess vör í gegnum tíðina að vinir og kunningjar virðast oft halda að þegar ég tala um fávita þá eigi ég við ákveðna manngerð, suma menn, fáa menn eða marga menn. Enginn hefur áður ályktað svo skarplega að með orðinu „fáviti“ eigi ég annað hvort við alla karlmenn eða bara handsomedevil.

    Nei handsomedevil, það eru ekki allir karlmenn fávitar. Bara þú.

    Posted by: Eva | 26.01.2007 | 16:29:33

    —————————————————–

    Hugz. Þetta með hreiðurgerðarfælnina; hún er oftar en ekki uppgerð. Flestir karlar kunna því ágætlega að vera í langtímasambandi en þegar þeir eru ekki nógu ástfangnir til að vilja alvöru samband þá eiga sumir þeirra það til að láta konuna samt halda að þeim sé alvara (af því að hún vill ekki samband nema sjá framtíð í því)og svo þegar þeir sjá fram á að þurfa að fara að leggja vinnu í sambandið, kemur þessi gullvæga afsökun. Sömu karlar eiga ekki í neinum vandræðum með að skuldbindast konum sem þeir verða ástfangnir af.

    Posted by: Eva | 26.01.2007 | 16:37:28

    —————————————————–

    ég held að síðasta svar evu sé kjarninn.

    Posted by: inga hanna | 26.01.2007 | 20:33:46

    —————————————————–

    Það má vel vera að hreiðurgerðarfælni sé misnotuð.
    Hreiðurgerðarsyndrómið er samt staðreynd og að upplifa það jafnvel þunnur-daginn-eftir er bara scary. Mjög truflandi að vera skyndilega lentur inn í miðri hreiðurgerðarfantasíu hjá einhverri sem er greinilega búin að plana næstu 10 árin og þú ert allt í einu orðinn pabbi með 3 börn, hús, bíl og hund. Slær aðeins á spenninginn.

    Posted by: Hugz | 26.01.2007 | 21:19:44

    —————————————————–

    Ég get vel trúað að þessar aðstæður séu fælandi. Einu sinni kom til mín karl á aldur við pabba minn og tjáði mér ást sína. Ég hafði einu sinni áður hitt manninn og enda þótt ég hefði ekki gefið honum neina ástæðu til að ætla að ég hefði áhuga á honum, sagði hann mér að það eina sem hann sæi fyrir sér að gæti skyggt á hamingju okkar, væri það að hann gæti ekki hugsað sér að búa í þéttbýli. Ég hugsa að jafnvel þótt þetta hefði verið Johnny Depp hefði ég tekið til fótanna.

    Ég þekki reyndar enga konu sem er nógu vitlaus til að ákveða á fyrsta deiti hvort hún vill gera kónann að framtíðarmaka en ég hef heyrt karlkynsvini mína lýsa nokkrum svona tilvikum.

    Posted by: Eva | 27.01.2007 | 0:25:13

    —————————————————–

    Afsakaðu Eva, þetta mjög heimskulega sagt af mér og ónærgætilega orðað.

    Posted by: handsomedevil46 | 27.01.2007 | 21:14:43

    —————————————————–

    Það væri reyndar kómískt ef Jack Sparrow mætti til þín : „Lesssss go live somewhere rural with me“. Þú myndir sem sagt ekki stökkva á það ?

    Posted by: Hugz | 29.01.2007 | 10:20:57

    —————————————————–

    Trauðla. Johnny Deep er náttúrulega sjarmur en ég hef samt alltaf á tilfinningunni að Jack Sparrow sé ekkert sérstaklega vel lyktandi.

    Posted by: Eva | 29.01.2007 | 13:30:01

    —————————————————–

    Hehe .. var einmitt að horfa á sjóræningjamynd nr.2 og þar er á einum stað kvartað yfir „personal hygiene“ hjá Mr. Depp

    Posted by: Hugz | 30.01.2007 | 10:06:12

Lokað er á athugasemdir.