Drög

Birta: Ég held að þú sért að leggja drög að vandræðum.
Eva: Æ, góða láttu mig í friði. Það er ekki eins og ég hafi verið að máta brúðarkjóla.
Birta: Nei, ætli þú mátir ekki bara dindilinn á honum. Og verðir svo steinhissa þegar þú kemst að því að ekkert annað í fari hans passar við þig. Ég sé alveg í gegnum hann get ég sagt þér, og þetta byrjar EKKI gæfulega.
Eva: Þú ert aldeilis athugul, ég tók ekki eftir neinu ógæfulegu.
Birta: Og þú ætlar bara að hundsa innsæi mitt? Dettur þér ekkert í hug að þetta bendi til þess að hann hafi eitthvað að fela?
Eva: Fjárans tortryggnin í þér alltaf hreint, hvað heldurðu að þetta eina smáatriði, EF það er þá rétt hjá þér, segi okkur um hann.
Birta: Ekki þetta atriði í sjálfu sér, heldur það að hann skuli ekki bara hafa sagt það hreint út. Af hverju er það feimnismál ef ekkert meira hangir á spýtunni?
Eva: Af því að fólk gengur út frá því sem vísu að ef þessi tiltekni kubbur er ekki í kassanum, hljóti pakkinn að vera gallaður. Sjáðu okkur, við spurðum ekki einu sinni, við reiknuðum bara með kubbnum.
Birta: Hann hlýtur þá að líta svo á sjálfur að hann vanti þennan kubb. Sárlega. Annars hefði hann leiðrétt okkur.
Eva: Jæja, segjum við kannski Pétri og Páli allt sem við skömmumst okkar ekki fyrir?
Birta: Nei en það er bara af því að fólk er fífl.
Eva: Flest fólk dæmir mann út frá yfirborðinu. Hann hefur enga ástæðu til að ætla að ég sé eitthvað öðruvísi og ég skil bara vel að hann nenni ekki að útskýra fyrir ókunnugri manneskju hluti sem þarfnast ekki réttlætingar. Auk þess getur vel verið að þér skjátlist. Ég var lengi að leita að bílastæði og túlkunargleði þín er ekki beinlínis í lágmarki þegar karlmenn eru annars vegar.

Birta: Kannski er hann líka áhættufíkill, þú sérð nú áhugamálin hans.
Eva: Jájá, það getur verið stórkostlega varasamt að reyna á skrokkinn á sér. Eða gæludýrahaldið, það er auðvitað mjög grunsamlegt að eiga kött.
Birta: Hann á nú ekkert bara kött.
Eva: Ég held ekki að hann sofi með hitt dýrið uppi í rúmi hjá sér.
Birta: Kannski er hann gjaldþrota laumureykingamaður og alveg á kafi í djamminu. Kannski hefur hann misst bílprófið vegna ölvunaraksturs.
Eva: Já, kannski. Kannski er hann líka keðjusagarmorðingi, hver veit?

Eva: Birta. Ertu búin að hleypa skrattanum úr sauðarleggnum?
Birta: You and me and the devil makes three.
Eva: Drottinn minn djöfull er ég orðin þreytt á að dragast með ykkur hvert sem ég fer.

Þá lagðist skrattinn í gólfið og tók traustataki í pilsfaldinn minn.

 

Klukk

Það er alveg sama hvað leiksýningin er góð og maturinn frábær. Eini nothæfi mælikvarðinn á gæði stefnumóts er löngun manns til að láta það endast lengur.

Gaman að leika við einhvern sem áttar sig á því hvort okkar „erann“ hverju sinni. Það er sjaldgæfur hæfileiki.

 

Ef gult væri blátt væri rautt

-Ef mín nýtur allt í einu ekki lengur við. Ef ég flyt t.d. til útlanda, muntu þá fá þér nýja hjákonu?
-Vinkonu. Það heitir ekki hjákona nema maður sofi hjá henni.
-Það heitir hjákona ef konan þín má ekki vita um sambandið.
-Hún veit ekkert um alla sem ég hitti.
-Jæja. Segðu henni frá sambandi okkar og spurðu hana hvað hún viji kalla það.
-Ókei, köllum það það sem þú vilt.
-Og muntu finna þér aðra ef ég verð ekki til staðar?
-Ég skal reyna svara því ef þú svarar mér líka. Ef ég væri einn, en allt væri að öðru leyti eins, myndir þú vilja búa með mér? Ég veit að þú vilt alveg svara mér heiðarlega en geturðu það?
-Málið er bara að það væri aldrei allt eins að öðru leyti. Það yrðir þú sem gæfist upp. Þér finnst gott að láta kúga þig en hjá mér yrðir þú að taka ábyrgð á þér sjálfur og höndla frelsið sem fylgir því. Þú réttlætir samband okkar með því að þú getir ekki verið einn en með mér þyrftirðu aldrei að vera einn og hefðir þar með enga afsökun fyrir að hitta einhverja aðra. Ég yrði ekki afbrýðisöm út í neinn nema tíkina þína og hún tæki þér ekki aftur ef þú færir frá henni svo þú þyrftir ekki að fela neitt og þar með yrði þetta ekki nógu spennandi fyrir þig.
-Þú svaraðir ekki spurningunni.

Nei, líklega svaraði ég henni ekki en það er ekki vegna þess að ég hafi ekki svar. Ég gæti búið með þér hjartað mitt, það gæti ég vel. En ég veit ekki hvort ég myndi afbera það að missa þig.