Prrhmprr

Gjörsamlega snarklikkaðir dagar framundan. Ég VERÐ að fá meira pláss.

Ég er ekki vön því að jóla neitt að ráði fyrr en upp úr 18. desember en mér skilst að það sé siðferðileg skylda búðarkvendis að vera í jólaskapi frá 1. nóvember hið síðasta. Ég er hrædd um að Nornabúðin verði fremur athvarf hinna jólafælnu þetta árið a.m.k. því Alexander gefur sig ekki út fyrir að vera sérstakt jólabarn fremur en ég sjálf. Hugmyndaflug okkar hefur satt að segja beinst að flestu öðru en skreytingum sem örva jólaeyðlubrjálsemi landans.

Hexía sagði einhverntíma á vefbókinni sinni sálugu og syrgðu að hún hefði jólað hjá sér með því að strá glimmeri á leðurblökurnar. Ég á reyndar engar leðurblökur en hinsvegar mætti kannski jóla búðina upp með því að setja glimmer á krákuvængina eða hengja rauðar kúlur neðan í hrafnsklærnar. Eða músastiga á milli þeirra.

Sætt.

Blautir draumar

Það er til marks um veruleikafirringu mína að af og til verð ég bálskotin í einhverjum bloggara sem ég hef aldrei séð. Ég hef staðið sjálfa mig að því að „stalka“ vefbækur og sökkva mér í dagdrauma um höfundinn. Tilfinningin er nákvæmlega sú sama og þegar ég verð hrifin af strák sem ég þekki lítið eða ekkert, sama hormónaflæðið, hjartslátturinn og gæsahúðin. Eini munurinn er sá að þegar um skrif er að ræða verð ég skotin í viðhorfum og ritstíl en í hinu tilvikinu er það útlitið sem ég fell fyrir. Halda áfram að lesa

Ekki dæmigerður

-Auðvitað eru þetta bara leifar af úreltu fyrirkomulagi en ég held að körlum finnist oft óþægilegt, jafnvel niðurlægjandi ef konan splæsir, sagði ég.
Lærisveinninn strauk sítt hárið frá snyrtilega skyggðum augunum og renndi lökkuðum nöglum vinstri handar niður eftir uppáhalds pilsinu sínu.
-Ég segi nú sem karlmaður, að mér þætti það bara fínt ef kona byði mér grand út og borgaði dæmið,sagði hann.

Nennussikki

Mig langar í karlmann. Til eignar, eins og fastagestum ætti að vera orðið ljóst, en þar sem fátt fagurra eiginmannskandidata hefur rekið á fjörur mínar (þrátt fyrir tilboð um hundrað þúsundkalla í fundarlaun) virðist rökrétt að finna drykkfelldan saurlífissegg til bráðabirgða.

Það er sosum enginn skortur á hórlífum alkóhólistum á höfuðborgarsvæðinu, það er ekki málið. Mér hrís bara hugur við því að þurfa að fara í gegnum allt kennsluefnið; allt frá „það er ekki hægt að hækka í mér með því að snúa upp á geirvörturnar“ og að „þú kemur mér ekkert frekar í gang með því að þjösnast á play-takkanum“. Flókin tæki konur.

Kannski spurning um að taka bólfimi inn í aflúðunarnámskeiðið? Veit einhver um félag eða fyrirtæki sem væri til í að styrkja verkefið t.d. með því að lána æfingabrúður? Ég er nebbla ekki viss um að það myndi mælast vel fyrir ef við létum þátttakendur para sig saman til að æfa strok- og kossatækni. Anna heldur reyndar að það væri hægt að fá þó nokkuð marga til þess með sýnikennslu því þorri karla ku víst gera hvað sem er í skiptum fyrir „lessusjóv“.

Þetta er náttúrulega fötlun.

Rökvilla dagsins

Kosturinn við að treysta engum er sá að maður leggst ekki í rúst þótt einhver bregðist manni. Ókosturinn er sá að ef maður er ekki með mikilmennskubrjálæði á lokastigi, er manni lífsins ómögulegt að trúa því að maður sé eina manneskjan í veröldinni sem treystandi er á. Og þá annaðhvort hættir maður að treysta sjálfum sér, eða maður setur traust sitt á einhvern sem fyrr eða síðar gæti brugðist.

Ég held að Skoðunarmaðurinn hafi rifið tunguhaftið. Eins gott að það var ekki meyjarhaft. Ég er samt ekkert að pæla í að skrifa honum eða neitt. Undarleg bréfaskrif eru víst skírasta birtingarmynd geðveilu minnar, skilst mér.

Mér finnst ég frekar geðveik þessa dagana en það hefur mér aldrei fundist þegar ég hef lagst í bréfaskrif. Samkvæmt því hlýt ég að vera í aldeilis fínu formi.

Skrattinn í leggnum

Hann brölti um í sauðarleggnum í nótt og tókst að hagga beininu, m.a.s. velta því nokkrum sinnum þannig að glumdi í gólfinu undir rúminu mínu. Þegar ég vaknaði í þriðja sinn, hótaði ég að sækja róðukross og fimmarmastjörnu og Ægishjálm ef hann hefði sig ekki hægan.
-Einhversstaðar verða vondir að vera, sagði hann.
-Gakktu þá í Sjálfstæðisflokkinn gerpið þitt, svaraði ég.
-Mig langar í karlmann! gargaði Birta. Kastaðu þessum skrattakolli fram af svölunum og sæktu strák í staðinn.
-Ef þú fengir að ráða myndirðu láta okkur éta allar kökurnar í bakaríinu,
sagði ég.
-Já en bara sætu kökurnarm ekki súrdeigsbrauðin og við færum EKKI í ruslagáminn til að sækja uppþornaðar kúmenkringlur.
-Þær eru nú samt hollari og það vill svo til að það er ég sem ræð þessu
sagði ég.
Þá hló Skrattinn í sauðarleggnum svo hátt að ég hélt að tappinn hrykki úr holunni.

Felagidaudur

Felagidaudur ku vera að rísa til lífsins. Anna stóð fyrir valdaráni þar í kvöld og ég fékk að leika Frumkvöðul. Það var gaman.

Langt síðan ég hef leikið við stelpur.