Blautir draumar

Það er til marks um veruleikafirringu mína að af og til verð ég bálskotin í einhverjum bloggara sem ég hef aldrei séð. Ég hef staðið sjálfa mig að því að „stalka“ vefbækur og sökkva mér í dagdrauma um höfundinn. Tilfinningin er nákvæmlega sú sama og þegar ég verð hrifin af strák sem ég þekki lítið eða ekkert, sama hormónaflæðið, hjartslátturinn og gæsahúðin. Eini munurinn er sá að þegar um skrif er að ræða verð ég skotin í viðhorfum og ritstíl en í hinu tilvikinu er það útlitið sem ég fell fyrir.

Þegar ég hrífst af manni sakir fríðleika síns, ímynda ég mér að hann sé stórkostlegur karakter. Svíf á bleiku skýi þar til ég kynnist viðkomandi nógu vel til að sjá að bak við blikið í augunum býr hinn mesti lúði og get eftir það horft á hann sem ósköp sætan strák án þess að fara á hormónaflipp. Þegar ég verð skotin í bloggara sé ég hann fyrir mér sem mikið kynþokkaknippi. Ef ég svo hitti hann og kemst (alltaf) að raun um að hugmyndir mínar um útlit hans voru algerlega út úr kortinu, held ég áfram að lesa síðuna hans án þess að velta fyrir mér hvar ég eigi að koma dótinu hans fyrir þegar hann flytur inn til mín.

Ég verð oft hrifin af vefbókum kvenna. Lagðist nánast í ástarsorg þegar Hexía hætti að blogga og sé hana fyrir mér sem íðilfagran svartálf með ljón í augunum. Mig langar samt ekkert að sofa hjá henni og það BARA af því að hún er stelpa. Mig dauðlangar hinsvegar að sofa hjá Hnakkusi. Sem ég hef aldrei séð. Hann gæti allt eins verið gamall, feitur svitahlunkur. Sá möguleiki hindrar þó ekki blautlegar draumfarir þar sem Hnakkus kemur við sögu í líkingu Johnny Depp.

Mér er sagt að ég sé galin en ég held að það sé ekkert klikkaðra að verða ástfangin út á pennafærni en sætan kropp. Birtingarform tálsýnanna bara annað en það var fyrir 20 árum.