Vitrun

Þegar ég lauk MA náminu fór ég að kenna. Tengdapabbi fór á límingunum yfir því að ég væri að ‘droppa út úr skóla’ og taldi víst að þar með væri lífi mínu sem vitsmunaveru lokið. Reyndar naut ég hvers einasta dags í Háskólanum. Mér leið vel í Árnagarði, fannst óskaplega gaman að sækja fyrirlestra, var í essinu mínu í umræðutímum og skilaði ritgerðum yfirleitt löngu fyrir eindaga. Ég hefði verið alveg til í að vera þar áfram sem BA eða MA nemi en mér fannst það hljóma bæði einmanalega og einhæft að sitja yfir sömu ritgerðinni í mörg ár.

En í morgun semsagt fékk ég vitrun. Ég hef að því leyti breyst á þessum árum að ég hef mun minni þörf fyrir félagsskap og síðustu 5 árin hef ég að mestu leyti unnið ein. Auk þess gæti ég þá haldið búðinni opinni eftir hádegi 3 daga í viku og haldið áfram að taka á móti hópum. Ég ætlaði hvort sem er að verða manneskja sem gerir það sem henni bara sýnist þegar ég yrði stór, svo því skyldi ég ekki bara hafa opið eftir hentugleikum?

Ég hringdi í nemendaskrá og jújú, þeir taka ennþá inn doktorsnema allt árið. Þá er það er semsagt ákveðið að svo fremi sem annaðhvort Bergljót eða Ásdís Egils vilja leiðbeina mér, þá er ég að fara í skóla um áramótin. Mér finnst dálítið skrýtið að hugsa til þess að vera í sama skóla og barnið mitt en hann er víst orðin stór. 22ja ára í dag. Ég held að Darri sé líka búinn að komast að niðurstöðu um það hvað hann ætlar að læra en voga mér ekki að uppljóstra því.

Ég er að fara til Palestínu í september. Vííí!

 

Mylla

Ilmur af jörð.
Ligg í grasinu hjá Gullinmuru og Gleymmérei og hlusta á Urriðafoss.
Handan Þjórsár eru nokkrir ísbirnir á beit.

Ég er ekki einu sinni neitt sérstakt náttúrubarn. Trúi bara á ákveðið réttlæti. Rétt fólks til að ákveða hvort það ætlar að selja jarðirnar sínar án þess að hafa áróðursmeistara inni á gafli hjá sér nánast vikulega (svo er fólk að hneykslast á ágengni votta Jehóva). Rétt almennings til að fá réttar upplýsingar. Rétt náttúrunnar sjálfrar.

Fullkomið veður til gönguferðar. Mömmurnar mættar líka. 10 félagar úr Sól á Suðurlandi komu og þeir sem ég talaði við taka bara mjög vel í að vinna með okkur.

Hvernig étur maður fíl? Einn bita í einu segja þeir. Við eigum mikinn fíl óétinn.
Við gætum kannski kryddað hann með blóðbergi

Aðstaðan er ekki ironisk. Hún er aluminumísk.

Legó

Hún leggst á hjartað í manni helvítis sorgin. Bókstaflega. Það er ekki tilviljun að öll menningarsamfélög lýsa sorginni eins og þetta tiltekna líffæri hafi orðið fyrir skaða. Brostið hjarta, kramið hjarta, grátandi hjarta, hjarta sem springur af harmi, hjartasár, blæðandi hjarta. Bjartur í Sumarhúsum var nett pirraður yfir helvítis hjartveikinni í kvenfólkinu.

Mig hefur oft verkjað í hjartað af sorg en það varir aldrei lengi. Þetta er aðeins öðruvísi tilfinning núna og svo er þetta orðinn langur tími. Þetta er ekki beint verkur. Ekki eins og vera með sáran sting í hjartanu eða sviðatifinningu og ekkert svona brostið hjarta eða neitt almennilega dramatískt, Samt er þetta raunveruleg, líkamleg tilfinning, þung og óþægileg eins og inngróinn legókubbur eða eitthvað svoleiðis.

Vinkona mín vill að ég fari til læknis en ég sé ekki tilgang í því. Ég veit nákvæmlega hvað er að mér. Einkennin eru líkamleg en orsökin andleg og ég þarf ekkert hjartalínurit til að staðfesta það. Og hvaða þjónustu á ég svosem að biðja um? Þetta er ekki beinlínis verkur. „Læknir ég með með svona þunga og sára tilfinningu eins og ég sé með legókubb fastan í hjartanu, hvítan legókubb og kámugan, og hann sé alltaf að þrýstast aðeins lengra inn. Get ég fengið eitthvað við því?“

Ég hélt að ég hefði sloppið svo vel í þetta sinn en kannski að fullkomið niðurbrot þjóni tilgangi eftir allt saman.

 

Eiga allar tilfinningar rétt á sér?

Mér ætti ekki að líða svona. Það er ekki einu sinni rökrétt, sagði ég. Vinkona mín horfði á mig þolinmóð og sagði mér svo í hundraðasta skipti að vera ekki svona vond við sjálfa mig. Það væri ekki hægt að afgreiða allar tilfinningar með rökum. Allar tilfinningar ættu rétt á sér… athyglisspan mitt náði ekki lengra. Ég dreg það satt að segja stórlega í efa að allar tilfinningar eigi rétt á sér. Þetta er svona álíka vitlaus klisja og að maður eigi að virða allar skoðanir. Halda áfram að lesa

Að elska land

Skrýtið að geta þótt svona vænt um skika af jörðinni. Ég er ekki einu sinni neitt sérstakt náttúrubarn og ég efast ekki um að mér gæti liðið vel nánast hvar sem er í heiminum en tilhugsunin um að fá ekki að vera hér, snertir mig furðulega illa.

Ég væri alveg til í að verða rík án fyrirhafnar en þetta ágæta tilboð stæði samt í mér.

Ást mín á landinu er ein af ástæðunum fyrir því að ég gæti ekki hugsað mér að giftast útlendingi. Ég á bara svo erfitt með að trúa því að nokkur vilji rjúfa tengslin við föðurland sitt. Mér finnst sú hugmynd að tengjast landi tilfinningaböndum fáránleg en mér líður svona samt.

 

Vesenið á þessum Gvuði

Fokk í helvíti. Þegar Gvuð birtist mér upp úr hádegi í dag og heimtaði að fá að opinbera mér sannleik sinn, benti ég honum á að blogga. Ætlaði sko ekki að fara að vera einhver senditík fyrir hann. Sagðist tilbúin til að veita honum aðgang að tölvu og geta hans á mínu bloggi, but that’s it.

Nú er hann búinn að hanga í tölvunni minni meira og minna í allan dag. Ef þetta verður svona áfram þá nenni ég ekki að hafa hann inni á gafli mikið lengur.

 

Blogg Gvuðs

Gvuð er skrýtin skrúfa. Hann ku hafa gert sér það til dundurs í árdaga að skapa heiminn og er að eigin sögn algóður, alvitur og almáttugur.

Gvuð hefur skoðanir á öllu. Kjarnorkuáætlun Bandaríkjamanna, kynhegðun minni og öllu þar á milli. Af og til hefur hann miðlað visku sinni og vilja til mannkynsins í gegnum sendiboða en þrátt fyrir meinta visku hans hefur aldrei tekist betur til en svo að menn taka þegar í stað að deila um það hvernig beri að túlka skilaboðin og því næst taka þeir til við að brytja niður mann og annan í þeim tilgangi að staðfesta sannfæringu sína um vilja Gvuðs. Halda áfram að lesa