Legó

Hún leggst á hjartað í manni helvítis sorgin. Bókstaflega. Það er ekki tilviljun að öll menningarsamfélög lýsa sorginni eins og þetta tiltekna líffæri hafi orðið fyrir skaða. Brostið hjarta, kramið hjarta, grátandi hjarta, hjarta sem springur af harmi, hjartasár, blæðandi hjarta. Bjartur í Sumarhúsum var nett pirraður yfir helvítis hjartveikinni í kvenfólkinu.

Mig hefur oft verkjað í hjartað af sorg en það varir aldrei lengi. Þetta er aðeins öðruvísi tilfinning núna og svo er þetta orðinn langur tími. Þetta er ekki beint verkur. Ekki eins og vera með sáran sting í hjartanu eða sviðatifinningu og ekkert svona brostið hjarta eða neitt almennilega dramatískt, Samt er þetta raunveruleg, líkamleg tilfinning, þung og óþægileg eins og inngróinn legókubbur eða eitthvað svoleiðis.

Vinkona mín vill að ég fari til læknis en ég sé ekki tilgang í því. Ég veit nákvæmlega hvað er að mér. Einkennin eru líkamleg en orsökin andleg og ég þarf ekkert hjartalínurit til að staðfesta það. Og hvaða þjónustu á ég svosem að biðja um? Þetta er ekki beinlínis verkur. „Læknir ég með með svona þunga og sára tilfinningu eins og ég sé með legókubb fastan í hjartanu, hvítan legókubb og kámugan, og hann sé alltaf að þrýstast aðeins lengra inn. Get ég fengið eitthvað við því?“

Ég hélt að ég hefði sloppið svo vel í þetta sinn en kannski að fullkomið niðurbrot þjóni tilgangi eftir allt saman.

 

One thought on “Legó

 1. ——————————–

  Ég hugsa fallega til þín.

  Posted by: Kristín | 20.07.2008 | 7:08:55

  ——————————–

  ég líka. farðu vel með þig.

  Posted by: baun | 20.07.2008 | 9:12:21

  ——————————–

  Föstur eru góðar við þessum sjúkdóm. Eftir þrjá daga hugsar maður bara um mat.

  Posted by: G | 21.07.2008 | 16:21:47

Lokað er á athugasemdir.