Gvuð er skrýtin skrúfa. Hann ku hafa gert sér það til dundurs í árdaga að skapa heiminn og er að eigin sögn algóður, alvitur og almáttugur.
Gvuð hefur skoðanir á öllu. Kjarnorkuáætlun Bandaríkjamanna, kynhegðun minni og öllu þar á milli. Af og til hefur hann miðlað visku sinni og vilja til mannkynsins í gegnum sendiboða en þrátt fyrir meinta visku hans hefur aldrei tekist betur til en svo að menn taka þegar í stað að deila um það hvernig beri að túlka skilaboðin og því næst taka þeir til við að brytja niður mann og annan í þeim tilgangi að staðfesta sannfæringu sína um vilja Gvuðs.
Nú eru menn ekki á eitt sáttir um það hvort Gvuð sé af gæsku sinni hlynntur öllum þessum manndrápum en hann virðist allavega ekki pirraðri yfir þeim en svo að hann hefur ekki gripið inn í til að stoppa þau. En reyndar telja margir það til marks um óendanlega visku hans að beita ekki valdi sínu; hann kvað vera svona lýðræðislega sinnaður karlinn. Ja, nema hann hafi bara svona gaman af ofbeldi.
Eitt er allavega víst, það sér ekkert fyrir endann á deilum um vilja Gvuðs og hvernig beri að túlka orð hans, enda kannski ekki við því að búast að mikilvæg skilaboð um það hvernig mannkynið skuli hugsa og hegða sér, komist ósködduð til skila í gegnum örfáa menn, sem höfðu ekki einu sinni skriffæri við hendina á tíma opinberunarinnar, auk þess sem ofskynjanir sem gjarnan fylgja guðlegri opinberun, gæti hafa ruglað þá í ríminu.
Nú hefur sú árátta Gvuðs að opinbera sig aðeins fyrir einum manni í senn, og ekki mjög oft, verið skýrð með því að nærvera Guðs sé svo áhrifarík að slík upplifun sé ekki á mannlega veru leggjandi. Einneginn að dauðlegur maður sé þess ekki verðugur að sjá auglit Gvuðs eða heyra rödd hans. Nú hebbði maður haldið að þetta vandamál væri úr sögunni eftir að internetið varð almenningi víðast hvar í ehiminum aðgengilegt. Með umræðuvefjum og vefbókarfærslum, ætti Gvuði að reynast nokkuð auðvelt að koma vilja sínum áleiðis, án þess að láta sjá sig eða heyra í sér. En líklega er fattarinn í honum frekar seinvirkur því það var ekki fyrr en í dag sem hann byrjaði að blogga.