Eiga allar tilfinningar rétt á sér?

Mér ætti ekki að líða svona. Það er ekki einu sinni rökrétt, sagði ég. Vinkona mín horfði á mig þolinmóð og sagði mér svo í hundraðasta skipti að vera ekki svona vond við sjálfa mig. Það væri ekki hægt að afgreiða allar tilfinningar með rökum. Allar tilfinningar ættu rétt á sér… athyglisspan mitt náði ekki lengra. Ég dreg það satt að segja stórlega í efa að allar tilfinningar eigi rétt á sér. Þetta er svona álíka vitlaus klisja og að maður eigi að virða allar skoðanir.

Á sama hátt og skoðanir, eiga tilfinningar rétt á sér ef þær eru rökréttar og sanngjarnar og einnig þegar þær gera veröldina að betri stað. Ég get t.d. ekki ímyndað mér aðstæður þar sem þakklæti á ekki rétt á sér, jafnvel þótt það kunni að skorta röklegar forsendur. (Ég er kannski ekki alveg hlutlaus, þar sem mér finnst þakklæti vera besta tilfinning í heimi.) En tilfinningar geta líka átt rétt á sér þótt rökin fyrir þeim séu snúin og jafnvel þótt þær séu byggðar á mistúlkun, yfirfærslu eða alhæfingum. Það er meiri ástæða til að sýna tilfinningum tillitssemi en skoðunum vegna þess að tilfinningar byggja alltaf á reynslu, þótt fólk dragi hinsvegar stundum undarlegustu ályktanir af reynslu sinni. Það er sennilega á þeim rökum sem menn reisa þá hugmynd að allar tilfinningar eigi rétt á sér. Móðir á t.d. rétt á elska illa innrætta og þrautleiðinlega krakkaóbermið sitt án þess að þurfa að rökstyðja ást sína. Fórnarlamb ofbeldis á rétt á því að vera tortryggið gagnvart öðrum. Það er ekki sanngjarnt gangvart manneskju sem er í tilfinningalegu uppnámi að krefja rökstuðnings fyrir uppnáminu.

Við hljótum að þurfa að sýna tilfinningum sérstaka tillitssemi en merkir það endilega að tilfinningar eigi alltaf rétt á sér? Á tilefnislaus afbrýðisemi t.d. einhvern sérstakan rétt á sér? Hvað felst þá í þeim rétti? Hefur einhver rétt til þess að reiðast ungbarni fyrir að gráta, girnast þroskaheft fólk kynferðislega eða gleðjast yfir óförum annarra?

Mér finnst alls ekki að allar tilfinningar eigi alltaf rétt á sér. Ekki frekar en skoðanir. Hver maður á hinsvegar rétt á þeim upplýsingum sem þarf til að leiðrétta rangar skoðanir og það sama á við um tilfinningar. Hver maður á einnig rétt á að tilfinningum hans sé mætt með skilningi, jafnvel þótt aðrir eigi skýlausa kröfu á því að hann takist á við þær. Við eigum engan sérstakan rétt á því að bera tilfinningar sem eru ástæðulausar og skaðlegar, hvað þá að veita slíkum tilfinningum útrás. En við eigum rétt þeirri samúð sem við þurfum til að ná stjórn á þeim, takast á við þær og leiðrétta.

Ég held nefnilega að hæfileikinn til að leiðrétta rangar tilfinningar sé eitt af því sem greinir góða manneskju frá vondri og við hljótum að bera þá ábyrgð gagnvart samferðafólki okkar að hjálpa því að verða betri manneskjur.

 

One thought on “Eiga allar tilfinningar rétt á sér?

  1. ————————–

    held að tilfinningar spyrji engan að því hvort þær eigi rétt á sér, þær bara koma og eru. við ráðum ýmsu um hvernig við bregðumst við og vinnum úr þeim.

    Posted by: baun | 19.07.2008 | 20:06:53

Lokað er á athugasemdir.