Gekk ég yfir sjó og land

Hvalfjörður er bara ekki íslenskur í dag. Enginn kræklingur finnst í þessari endalausu fjöru, líklega þrífst hann ekki í sundlaugarvolgum sjónum og aðeins örfáir fuglar sjáanlegir. Sjálfsagt skortir þá æti en auk þess er íslenski herinn (allir tveir meðlimir hans) skjótandi út í loftið eins og vitleysingar. Ég veit ekki hvað ég þykist vilja til Palestínu. Það eru greinilega ágætar líkur á að verða fyrir slysaskoti hér heima.

Sjórinn hefur vikið og við förum úr skónum og öslum volga leðjuna, langt út á það sem venjulega er hafið bláa hafið. Leðjan spýtist mjúk og hlý milli tánna og andvarinn á meira skylt við hárþurrku en sjávargolu.

Við uppgötvuðum nýja gullnámu í dag við Anna. Framvegis munum við taka nettan leðjuslag í Hvalfirðinum á góðviðrisdögum, gegn aðgangseyri að sjálfsögðu. Með brjóstin á Önnu og rassinn á mér höfum við garantí fyrir góðri aðsókn. Ef einhver spengileg leggjasleggja vill slást með okkur þá endilega hafið samband.

 

Ég er veik

Og ég sem hélt að ég væri bara svona löt. Ég er semsagt sjúklingur, það hlaut að vera rökrétt skýring á þessu verkstoli mínu.

Ég er að hugsa um að taka mér veikindafrí á meðan ég er að jafna mig.

Ætli séu til LA samtök, Letihaugar Anonymous?

 

Held ég sé ástfangin…

… af Ragnari Aðalsteinssyni. Ég var að lesa yfir kröfu hans um leyfi til áfrýjunar dómnum í stóra vegatálmunarmálinu. Maðurinn er hvílíkur snillingur í því að koma fyrir sig orði að þessi lesning er á mörkum þess að vera ljóðræn. Ef hann væri bloggari myndi mig áreiðanlega langa að sofa hjá honum. Mig langar iðulega að sofa hjá góðum pennum, alveg þar til ég hitti þá í eigin persónu. Mín innri kynvera lifir í allt öðrum raunveruleika en ég sjálf. Sýndarveruleika netheima.

Skrýtið annars hvað það snertir djúpan streng í hjarta mínu að vita til þess að einhver verji mig. Þótt málið sé ómerkilegt og hafi ekki valdið mér umtalsverðum kvíða og jafnvel þótt hann fái borgað fyrir það, finnst mér samt eitthvað svo notalegt við það að einhver annar tali máli mínu. Kannski bara af því að það gerirst ekki oft. Venjulega er það ég sem stend í því að verja aðra.

Rapport

Ef allt gengur eftir fer ég til Tel Aviv þann 28. ágúst.

Kappa Fling Fling hringdi í mig og bauð mér betri kjör. Aftur! Ég skulda þessum banka helling af peningum og það hefði verið miklu rökréttara að skerða kjörin mín en bæta þau. Ég efast samt um að bankanum mínum þyki vænt um mig. Tek þessu frekar sem merki um að fýlan sé rokin úr Mammoni.

Ég er ekki frá því að hjartveikin í mér sé að skána. Ég á yfirleitt auðvelt með að taka ákvarðanir en er búin að vera í krísu út af búðinni alveg voðalega lengi. Mér þykir vænt um hana og vil ekki sleppa henni en hef svo sterka þörf fyrir að takast á við eitthvað nýtt að ég er lengi búin að vera að hugsa um að loka. Ég sé fram á að með því að fara í skólann geti ég bæði haldið í búðina og líka gert eitthvað fyrir heilann í mér.

Saving Iceland stendur fyrir dagskrá í Reyjavíkurakademíunni (JL húsinu) kl 19:30 í kvöld. Samarandra Des, indverskur sérfræðingur um áliðnaðinn heldur fyrirlestur um goðsögnina um hreina orku og Andri Snær Magnason mun einnig taka til máls. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og það er enginn aðgangseyrir. Ég hvet alla sem hafa áhuga á umhverfismálum eða vilja kynna sér rök stóriðjuandstæðinga til að mæta.

 

Einn mánuður

Eftirlitssamfélagið hefur sína kosti. Fyrir bara 15 árum fór miklu meiri tími í allar reddingar. Nú er hægt að klára flest mál í gegnum netið eða síma og yfirleitt þarf maður ekki einu sinni að vera með skilríki því það er hægt að skoða mynd af manni í ‘kerfinu’ ef mikið liggur við. Margir geta skilað skattaskýrslu bara með því að ýta á enter.

Ég er með flugmiða fyrir framan mig og búin að ganga frá vegabréfi líka. Tók enga stund og ekkert vesen. Einn mánuður er fáránlega fljótur að líða og ég ætti að vera rosalega stessuð. Samt er hugmyndin um að ég sé að fara út einhvernveginn svo fjarstæðukennd að ég er nenni ekki einu sinni að ganga frá pappírum fyrir bókarann minn.

Annars kemur það mér á óvart hve margir virðast ekki hafa neinn skilning á því hversvegna ég vil gera þetta. Ég er alltaf að fá spurningar á borð við ‘hverju heldurðu að þú getir breytt?’ Málið er að ef tilgangurinn væri sá að geta sagt: jess, við unnum, við björguðum heiminum, þá færi enginn í hjálparstarf og sennilega enginn í lækningar eða hjúkrunarstörf heldur.

Varnarlaust fólk þarfnast stuðnings og sá stuðningur skiptir máli. Ég gleymi aldrei manninum sem hjálpaði mér heim þegar ég datt af hjólinu mínu 9 eða 10 ára. Hann breytti kannski ekki heiminum en hann breytti einum degi í lífi eins barns.

Stundum hvarflar það að mér að krafan um markmið og árangur sé hættulegri en við höldum.