Ég fór mjög lítið í leikhús í vetur. Sótti heldur ekki tónleika eða bíó að ráði og fór ekki á eina einustu myndlistarsýningu. Ég veit ekki afhverju, það var allavega ekki af því að væri svo vitlaust að gera hjá mér.
Ég druslaðist loksins í leikhús í gær. Sáum þann ljóta og ég verð að segja að mér finnst það stórgott verk. Við borðuðum á Sjávarbarnum, það hef ég ekki gert fyrr en á örugglega eftir að gera það aftur.
Það er himinn og haf á milli okkar í viðhorfum til hluta sem skipta máli, svo ég sé bara ekki fyrir mér að sé framtíð í þessu, sagði hann. Og það er rétt hjá honum. Munurinn á skoðunum okkar er meiri en ég hélt og fyrst það er vandamál þá er þetta líklega ekki þess virði að halda í það. And so I´m single again. Það einhvernveginn hljómar ekki eins eymdarlega á ensku. Halda áfram að lesa →
Fríhelgi framundan. Leikhús annað kvöld, og það er nú sannarlega tímabært. Svo ætla ég að loka búðinni bæði á laugardag og mánudag og skreppa í sveitina. Áhrifin af heimsókninni til Hörpu fyrir tæpu ári eru farin að dvína og það vantar snertingu við mosa og asparilm í kerfið.
Markmið helgarinnar er að klára öll kremin mín. Og borða eitthvað annað en cheerios og gúrkur.
Matarboðið hjá Stefáni reyndist vera grillveisla og mér fannst næstum vera sumar.
Ísland er lítið. Ég hitti konu sem kenndi Árna Beinteini til 10 ára aldurs og mann sem les bloggið mitt. Maðurinn sem les bloggið mitt er menntaður bakari en er lyfjablandari að atvinnu. Þið vitið, gaurinn sem hrærir saman efnin í íbúfenið. Líklega verður honum það stundum á að búa til kalla og kellingar úr deiginu. Fokk hvað þetta starf ætti illa við mig. Ég sem get ekki einu sinni bakað eftir uppskrift. Ég fyndi alltaf hjá mér hvöt til að breyta einhverju, prófa eitthvað nýtt. Reikna ekki með að það yrði vel séð, jafnvel þótt útkoman yrði betri en frumpillan. Halda áfram að lesa →
Nýjasta stuttmyndin hans Árna Beinteins var frumsýnd í dag. Í sal 1 í Háskólabíó. Kampavín og allt og Nornabúðarinnar getið á kreditlistanum 🙂 Drengurinn er snillingur.
Ég fékk Önnu og börnin hennar til að koma með mér í bíóið. Fórum í ísbúð á eftir, bara til að líkja eftir sumri þótt sé sami helvítis skítakuldi og venjulega og hefði líklega verið skynsamlegra að laga kakó.
Mig langar svo út til Danmerkur að heimsækja systur mína. Upplifa alvöru sumar. Fara með strákana í Lególand. Sitja á veröndinni í hlírakjól og drekka bjór og hlusta á Eika glamra á gítarinn á kvöldin. Tala við Hullu langt fram á nótt, úti í myrkrinu en vera samt ekki kalt.
Kuldi er ekki hugarástand heldur mjög raunverulegt, mælanlegt ástand. Það gerir mig brjálaða að sjá grænt gras, finna lykt af vori en komast samt aldrei út úr húsi nema í ullarpeysu. Ef Kuldaboli væri áþreifanlegur myndi ég bíta af honum hausinn.
Öryggi. Orðið merkir að hræðast ekki að ráði. Ör-yggi, að bera nánast engan ugg í brjósti. Ygg-drasill er hestur óttans (eða Óðins sem er auðvitað ógnvænlegastur ása) og lífstréð, askur Yggdrasils er kenndur við hann. Halda áfram að lesa →