Það er himinn og haf á milli okkar í viðhorfum til hluta sem skipta máli, svo ég sé bara ekki fyrir mér að sé framtíð í þessu, sagði hann. Og það er rétt hjá honum. Munurinn á skoðunum okkar er meiri en ég hélt og fyrst það er vandamál þá er þetta líklega ekki þess virði að halda í það. And so I´m single again. Það einhvernveginn hljómar ekki eins eymdarlega á ensku.
No hard feelings; það væri lygi, ég held að það fylgi því alltaf einhver sársauki að slíta sambandi. Allavega ef það var gott samband og mér fannst það vera gott. Svo já, ég vildi helst að hlutirnir væru öðruvísi en ég er ekkert rambandi á barmi taugaáfalls eða neitt svoleiðis. Hann upplifir þetta svona og ég fékk þó allavega einhverja rökrétta skýringu í þetta sinn. Ég er dálítið svag fyrir því að hafa hlutina rökrétta og það er með ólíkindum hvað það breytir miklu að fá ástæðu sem maður trúir og skilur. Fínt líka að fá þetta á hreint áður en ég var búin að selja íbúðina og stofna með honum heimili. Mér fannst það dálítið pirrandi á sínum tíma að hafa lagt aleiguna undir og fokkað upp lífi mínu á allan hátt fyrir samband við mann sem reyndist vera öltímeit narkissisti og þetta er bara svo miklu skárra. Breytir allavega engu um veraldlegar aðstæður mínar, nema kannski því að ég sinni vinnunni betur.
Leitt að það skyldi ekki ganga upp. Tottar fisk, verð ég að segja en ég get ómögulega litið á þetta samband sem tímasóun eða mistök. Maður lærir alltaf eitthvað og hann var góður við mig, faðmaði mig, sagði fallega hluti við mig og hélt mér félagsskap mörg kvöld sem ég hefði annars sökkt mér vinnu eða hangið á netinu. Svo finnst mér gott að sofna og vakna við snertingu og andardrátt. Ég mun sakna þess því þótt ég geti orðið mér úti um mikinn sæg fávita til að skiptast á líkamsvessum við, þá er það nú svo að í svefninum er maður varnarlaus og ég sef þessvegna ekki hjá öðrum en þeim sem ég treysti.
Fokk já, hundfúlt en ekkert fram yfir það. Þegar allt kemur til alls þá er þetta bara sápuópera en ekki alvöru líf og sápuóperur halda alltaf áfram. Og svo er það nú svo skrýtið að þegar maður hefur einu sinni fengið staðfestingu á því að eitthvað sé raunverulega í boði, þá er eins og það poppi upp allsstaðar, sbr pinnahælana hérna um árið. Mér hefði aldrei dottið í hug að óreyndu að til væri flugmaður sem gæti heillað mig, svo kannski fell ég fyrir heilaskurðlækni næst. Eða álversforstjóra. Eða olíufursta.
Þegar allt kemur til alls; fyrst maður sem fannst ég bara einfaldlega of skrýtin, gat sýnt mér aðra eins ástúð og elskulegheit, hvers má ég þá vænta af manni sem elskar mig vegna þess hvernig ég er?
Ástin er ótukt á stundum. En lífið er gott.
———————————–
leiðinlegt að heyra þetta, get víst lítið annað en sent þér allra bestu kveðjur. og jú, ég býð þér í glas við fyrsta tækifæri.
Posted by: baun | 9.05.2008 | 15:57:38
———————————–
Æ, leitt að heyra 🙁 Hugsa til þín…
Posted by: hildigunnur | 9.05.2008 | 16:53:58
———————————–
This sucks.
Posted by: anna | 9.05.2008 | 22:01:35
———————————–
Leitt að heyra, Eva mín.
Posted by: Guðjón Viðar | 10.05.2008 | 10:04:59
———————————–
Gott viðhorf þó svona sé súrt.
Posted by: Kalli | 10.05.2008 | 11:43:43
———————————–
Verulega leitt. En kemur kannski ekki mér mjög á óvart – þið eruð ekki beint eins og snýtt úr sömu nös.
Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 10.05.2008 | 18:08:54
———————————–
Þetta finnst mér áhugavert. Þarf fólk að vera snýtt útúr sömu nösinni til að vera hamingjusamt saman?
Ég hélt að leyndarmálið væri að finna einhvern sem er ólíkur þér en þannig að þið bætið hvort annað upp.
Posted by: anna | 11.05.2008 | 1:23:28
———————————–
Nei – ekki þarf að vera snýtt út úr sömu nös, en það hjálpar nú að hafa áþekk viðhorf til grunngilda. Kallaðu það pólitík eða lífsýn eða hvað þú vilt, en það hlýtur alltaf að vera svolítið til trafala ef manni t.d. finnst eitthvað sem skiptir hinn aðilann mjög miklu máli vera eiginlega bara silly. Svona svo mátulega öfgakennt dæmi sé tekið.
Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 11.05.2008 | 14:09:36
———————————–
Já, ef þú getur ekki virt skoðanir hins á þetta ekki mikinn séns. Blasir við.
Posted by: anna | 11.05.2008 | 15:32:41
———————————–
Fúlt. Ég sem var svo ánægð með að þetta væri hægt… en oh well. Lífið.
Posted by: lindablinda | 11.05.2008 | 19:43:45