Stríðnilagið

Leikfimikeppni er framundan og keppinautarnir veitast að Marlyn, sætustelpunni sem ætlar að vinna.

Fríkin: Hún er bæði fim og fær,
fjórða sæti eflaust nær.
Skortir trú á sjálfri sér
sigrar aldrei, því er ver

Vonleysið er undirrót vandans
Marlín: -farðu til fjandans.

Fríkin: Fellur rétt að fyrirmynd
fullkomlega á það blind
að ef þú ekki ert þú sjálf
ánægjan er minna en hálf.

Helga: Helst ég vildi hella hana fulla
Marlín: -hættu að bulla.

Fríkin: Brosið engu bjargar nú,
barbídúkkur eins og þú,
úr plasti fjöldaframleiddar
fylla búðarhillurnar.

Helga: Ljúft mér þætti að láta henni hitna
Marlín: -fyrr skal ég fitna.

Lostalagið

Ég elska hana ekki eins og systur
og óvíst hversu vel hún tæki því.
Og þessvegna er sem þokugrámi og mistur
þarfir mínar sveipi í dularský.
Ég þrái að halda í höndina hennar smáu,
horfa djúpt í augun bláu.
Þögnin virðist stundum þyngri en blý.

Mig langar hennar hörund til að snerta
og hárið síða greiða og flétta það
Með vörum mínum eyru hennar erta
og orðum mínum finna réttan stað.
Mig langar hennar hlátur til að fanga,
heita leggja kinn við vanga.
Ástarljóðum hvísla henni að.

Fegurð hennar fingurgómum strjúka
og finna hvernig hjartað bærist ótt.
Horfa á hana verða vota og mjúka
og vefja hana örmum heila nótt.
Bíta laust í brjóstið hennar hvíta,
blíðu minnar fjötra slíta,
horfa á andlit hennar verða rjótt.

Mig langar til að leggja hana á bakið
og lófum strjúka blítt um hennar kvið.
Hennar dýpstu frygð ef fæ ég vakið
þá fullnægjunnar opnast sáluhlið.
Af hungurkrafti ástarinnar ungu
æst ég þrái að leika tungu
um lærin stinn og stefna upp á við.

Vonbrigðalagið

Eddi, lúserinn í Leikfimi, er svekktur því yfirmaður hans sveik loforð um að láta hann vera kynni í sjónvarpsþætti.

Á hverjum degi þess ég minnast þarf
þvílík heppni sé að hafa starf.
Ég áður stóð í ólöglegu harki
og af því að ég gisti Litla Hraun
þér sjálfsagt finnst að svíkja mig um laun.
Ég sætti mig við það að vissu marki

#Ég hef tekið heimsins ranglæti með hægð
Því ég hélt ég fengi í staðinn
þessar fimmtán stuttu mínútur af frægð.#

Ég taldi víst að treysta mætti þér
að tækifærið loksins gæfist mér,
að standa á sviði, sveipaður í ljóma
í svörtum jakka og tala í míkrófón.
Að uppfylla ekki þessa einu bón
Er augljóst merki um hentistefnu tóma.

Ég átti að vera kynnir þetta kvöld
í kastljósinu og hafa þessi völd
sem öðrum virðast enganveginn nægja.
Og athygli frá sætum stelpum fá,
mér gripi enginn frammí fyrir þá
ég fengi allan salinn til að hlæja.

Ég vildi gera mömmu stolta af mér
og margítrekrað loforð tók af þér.
Og voðalega verður pabbi svekktur.
Ég var sko búinn að segja honum frá því
hann fengi að sjá mig sjónvarpinu í
og segja öllum „strákurinn er þekktur“.

Sálmurinn

Sértrúarsöfnuðurinn flytur þennan söng við innvígslu nýrra félaga.

#Tak mig til þín,
tákn þíns heilaga anda mér sýn.
Þinn kjötlegur sonur í kærleika
kemur til mín.#

Leið oss að ljósi þíns dreyra,
lambhrúta sanna.
Frá jörðu þú jarm vort munt heyra,
já, hósíanna.

Kaleik þíns eilífa anda
erum vér þyrst í.
Gef oss af gnótt þinna handa,
gloría Kristí.

Sál vora af saurugum dansi
Satans fulltrúa,
hreins þú með himneskum fansi,
heyr, hallelúja.

Leys oss frá drykkju og dræsum,
djöflum oss fría.
Lát oss ei enda í ræsum,
ave María.

Líkna þú aumum ódámi,
eilífa gef von.
Frelsa oss frá kynvillu og klámi,
kyrie eleison.

Gjör oss af andanum ölvuð
en ei brennivíni.
Drykkja og dóp veri bölvuð,
deus ex machine.

Hugsjónalagið

Ég á mér sýn
um sælla líf og betri heim.
Þar sem börnin vaxa úr grasi
í sannri gleði og sálarró.
Það er köllun mín
að kenna þeim.

Á sólarstöðu sérhvern dag þau hefja
og synda að því loknu, góða stund,
þau aldrei meir við tölvuleiki tefja
en trúa á lýsi og eftirmiðdagsblund.

Við handahlaup þau hálfan daginn una
og hoppa yfir leðurklæddan hnall.
Þau ganga á slá og teygja arma
og taka lítið stökk
á trampólíni og enda í frjálsum spuna.

Ég á mér sýn
um betri heim að samastað.
Þar sem jafnvægi er á öllu,
þar sem brosir jang við jin.
Það er köllun mín
að kenna það.

Í beinni röð þau ganga og bilin jafna
með bakið rétt og horfa fram á við.
Þau skrumi, dópi og skyndifæði hafna
og skilja mína speki um innri frið.

Iðrunarlagið

Vinkonurnar hafa sært hvor aðra og eru miður sín vegna þess en hvorug þorir að rétta fram sáttarhönd

Orð hafa mátt sem eflir og nærir
andvari þeirra er ljúfur og hlýr.
Hvetur til dáða, huggar og hrærir
harmi og raun til bjartsýni snýr.

Orð hafa mátt sem meiðir og særir,
vindur þess ofsa eyðir og tærir
Eldur í hverri orðræðu býr.
Og aldrei er hægt að taka
töluð orð
til baka.

Hallgerður: Vináttu okkar brotið er blað
því burt frá mér hef ég hrakið
þá einu sem hjartað þráir
-og það
er þyngra en tárum taki.
Nú veit ég hver játning á stund sína og stað
og tek ekki séns á að segja þér hvað
minn söknuður djúpt mig þjáir.

Marlín: Orðum ég hef í ógáti beitt
og einasta vininn svikið
um aðgát í návist sálar
-og meitt
Enginn veit hversu mikið
ég gæfi ef gæti ég einhverju breytt
en þori ekki að segja „mér þykir það leitt“
og þögnin er hvöss sem nálar.