Vonbrigðalagið

Eddi, lúserinn í Leikfimi, er svekktur því yfirmaður hans sveik loforð um að láta hann vera kynni í sjónvarpsþætti.

Á hverjum degi þess ég minnast þarf
þvílík heppni sé að hafa starf.
Ég áður stóð í ólöglegu harki
og af því að ég gisti Litla Hraun
þér sjálfsagt finnst að svíkja mig um laun.
Ég sætti mig við það að vissu marki

#Ég hef tekið heimsins ranglæti með hægð
Því ég hélt ég fengi í staðinn
þessar fimmtán stuttu mínútur af frægð.#

Ég taldi víst að treysta mætti þér
að tækifærið loksins gæfist mér,
að standa á sviði, sveipaður í ljóma
í svörtum jakka og tala í míkrófón.
Að uppfylla ekki þessa einu bón
Er augljóst merki um hentistefnu tóma.

Ég átti að vera kynnir þetta kvöld
í kastljósinu og hafa þessi völd
sem öðrum virðast enganveginn nægja.
Og athygli frá sætum stelpum fá,
mér gripi enginn frammí fyrir þá
ég fengi allan salinn til að hlæja.

Ég vildi gera mömmu stolta af mér
og margítrekrað loforð tók af þér.
Og voðalega verður pabbi svekktur.
Ég var sko búinn að segja honum frá því
hann fengi að sjá mig sjónvarpinu í
og segja öllum „strákurinn er þekktur“.