Viðeigandi

Merkir ekki sögnin að náða það sama og að fella niður refsingu eða milda hana? Dálítið seint í rassinn gripið verð ég að segja. Væri ekki nær að gefa þessu fólki uppreisn æru? Kirkjan gæti svo játað sekt sína fyrir þessar hroðalegu mannfórnir og gert yfirbót með því að gefa allar eigur sínar til samtaka sem berjast gegn valdi trúfélaga.

Nýyrðasmiðir allra landshluta sameinist

Það vantar íslensk orð yfir ‘bionics’ í staðinn fyrir þessa 5 lína skýringu í orðabókinni, sem er aukinheldur svo flókin að mér dettur ekki í hug að læra hana nema eiga kost á prófskírteini út á það.

Plíííís, þið sem takið að ykkur að finna nýtt orð, látið það ríma á móti rassgat. Eða elska. Þátturinn gæti þá kallast krassgataða konan (það stuðlar m.a.s.) eða belskaða konan. Sko ég er m.a.s. komin með orðin svo nú þurfið þið nýyrðasmiðir bara að finna góð rök fyrir þeim.

Þú átt það skilið

Hvenær á maður eitthvað eitthvað skilið? Ég ólst upp við þá túlkun á orðasambandinu að það merkti það sama og að verðskulda eitthvað. Maður á eitthvað skilið af því að maður hefur á einhvern hátt unnið til þess.

Mér finnst mjög algengt að í dag sé þetta notað í sömu merkingu og að eiga rétt á einhverju. Maður getur hinsvegar vel átt rétt á einhverju án þess að verðskulda það. Fjöldamorðingi á t.d. rétt á mannúðlegri meðferð, sama hversu hrottalega hann hefur hegðað sér og ég á rétt á þjónustu þegar ég kem inn á veitingastað, þótt ég hafi ekki gert neitt annað en að koma þangað inn.

Hefur notkunin á orðunum ‘að eiga það skilið’ breyst eða er það bara mín fjölskylda sem leggur þennan skilning í málið?

Rím

Við höfum vanist því að nota svo mörg falleg lög sem jólalög, sem er hið besta mál en gallinn er sá að textarnir sem eru notaðir við þau eru sálmar. Allt eitthvað um engla og himnaföður. Ég lýsi mig hér með reiðubúna til að taka að mér að skrifa veraldlegri kvæði við lög eins og t.d. Í dag er glatt í döprum hjörtum, Líður að tíðum, Það aldin út er sprungið o.fl. um leið og nýyrðasmiðir eru búnir að útvega mér fleiri rímorð. Ég er satt að segja búin að fá alveg nóg af ást og þjást.

Íslenskuna vantar t.d. orð sem ríma á móti elska, tungl, fífl og rassgat.
Ekki svo að skilja að ég vilji endilega nota orð eins og fífl og rassgat í jólakveðskap en þetta eru svona dæmi.
Jújú, þú getur látið rassgat ríma á móti hassfat segir sonur minn Byltingin. Það yrði nú aldeilis jólaveisla.

Tjásur:

 

Halda áfram að lesa

Gæsaveislur og busavígslur

Orðskrípið „gæsun“ hefur valdið mér töluverðu hugarangri í mörg ár.  „Steggjun“ er ekki skárra. Hver er eiginlega hugsunin á bak við orðalagið að „gæsa“ konuna og „steggja“ karlinn? Ekki sú að halda veislu heldur að breyta hjónaleysunum í gæs og stegg? Hvernig beygist annars sögnin að gæsa? Gæsa, gæsaði, gæsað? Eða gæsa, gæsti, gæst? Síðari kosturinn er skömminni skárri.

Sömuleiðis hefur menningarfyrirbærið busavígsla víst breyst í „busun“ og nýnemar eru nú „busaðir“ við upphaf framhaldsskólagöngu sinnar.

Má af þessu ráða að eftir nokkur ár verði hjónavígsla „hjónun“ og nýgæst konan og nýsteggjaður karlinn verði ekki gefin saman heldur „hjónuð“. Prestsefnið verður „prestað“ og prestsvígslan sjálf kallast þar með „prestun“. Útskriftarathöfn stúdenta verður „stúdun“ en þar verða nýútskrifaðir námsmenn stúderaðir.

Sjálf er ég steinhætt að halda jól. Ég „jóla“ í stað þess að halda jólaboð og framkvæmi „jólun“ á híbýlum mínum í stað þess að skreyta húsið. „Afjólun“ fer svo fram 7. janúar ár hvert.

 

 

Grasekkja

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað ég er háð Orðsifjabókinni, fyrr en ég lánaði Magga hana. Þessar 3 vikur hefur varla liðið dagur án þess að ég finni hjá mér sérstaka þörf fyrir að fletta henni.

Í augnablikinu er það orðið grasekkja sem þvælist fyrir mér. Er hún grasekkja af því að hún nennir ekki að elda þegar karlinn er að heiman og hefur bara salat í matinn? Eða kannski hugsunin sé sú að karlinn sé nú meiri grasasninn að tolla ekki heima hjá sér?

Tjásur:

Halda áfram að lesa