Er einhver hissa á því að RÚV geti ekki sinnt öryggishlutverki?

RÚV vissi ekki af þessu!

Einhver gaf þá skýringu að lögreglunni þætti ekki jákvætt að of margir vissu af hættuástandi á meðan það stæði yfir. Ég er viss um að ríkislögreglustjóri sér heldur ekkert jákvætt við að almenningur viti að greiningardeild hefur útvegað erlendum njósnastofnunum upplýsingar um íslenska borgara. Það er ekki í verkahring lögreglunnar að meta hvort það er jákvætt eða neikvætt að almenningur fái fréttir.

Ég vil fá að vita hvar skotbardagar eru í gangi. T.d. vil ég geta gengið úr skugga um að ættingjar mínir og vinir sem búa í hverfinu séu óhultir. Ég vil geta forðast að fara á svæði þar sem átök eru í gangi. Ég vil líka fá fréttir af náttúruhamförum og stórslysum strax. Að sjálfsögðu á lögreglan að láta ríkisútvarpið vita af skothríð inni í íbúðarhverfi.

Skotinn

Þegar banaslys verða er venjulega beðið með að tilkynna nafn hins látna þar til tryggt er að aðstandendur hafi fengið fréttirnar. En þegar maður fellur fyrir byssuskoti lögreglu þá eru samdægurs birtar um hann upplýsingar sem benda öllum sem til hans þekkja á nafn hans. Hver er tilgangurinn með þessari frétt?

Ætli aðstandendur hafi verið spurðir álits á því hvort fjölmiðlar birtu upplýsingar sem jafngilda nafnbirtingu? Ég skil alveg að blaðamenn stígi varlega til jarðar svona á fyrsta degi. Það eru örugglega margir í löggunni í sárum líka. En lá virkilega meira á að upplýsa um það hver maðurinn er en hver það var sem skaut hann?

Hólmsteinn, lækin og feministarnir

hhg

Kæri Hannes Hólmsteinn

Ég fyrirlít sumar pólitískar skoðanir þínar. Það er ekkert persónulegt. Ef ég sæi þig standa við stöðumæli og snúa vösunum út, myndi ég rétta þér tíkall. Ég fyrirlít samt brauðmolakenninguna, hugmyndina um einkavæðingu auðlinda, stóriðjustefnu og margt fleira sem pilsfaldakapítalistar boða. Halda áfram að lesa