Þværð þú ónýtar nærbuxur áður en þú hendir þeim? (FB leikur)

Á listanum sem ég fékk var engin spurning nr 12 svo það hlýtur að merkja að ég megi ráða. Spurningin mín er þessi: Þværð þú ónýtar nærbuxur áður en þú hendir þeim?

Ég á semsagt, þótt það stríði gegn bæði skynsemi og umhverfissjónarmiðum, erfitt með að henda óhreinum nærbuxum. Ég þvæ þær fyrst, svo asnalegt sem það nú er.

Þótt ég setji myglaða ávexti og allskonar ógeð í ruslið, þá er ég haldin einhverjum undarlegum tepruskap gegn líkamlegu ógeði. Ég vef t.d. tíðabindi í pappír áður en ég hendi þeim, jafnvel þótt ég fari svo beint út með ruslið.

Uppáhalds lykt? (FB leikur)

Angan af regnvotum jarðvegi
ösp að vori.
Lyktin af nýslegnu grasi,
lyngmói í ágúst,
kaffi á hrollköldum morgni
kjötsúpa að kvöldi.
Þroskaðir ávextir,
ilmur af ungum manni.

Lykt skiptir mig máli. Þegar ég er ástfangin ræni ég óhreinum bol af viðkomandi fávita, til að sofa með þegar ég er ekki hjá honum. 

 

Uppáhaldsmorgunkorn? (FB leikur)

Ég borða oftast cheerios. Stundum lifi ég á því nánast eingöngu vikum saman. En kókópuffs er betra.

Ég er haldin nostalgíu gagnvart gömlu gerðinni af kókópuffsi. Það var einhver hvít slikja utan á kúlunum og þær voru ekki eins stökkar. Það kemur alltaf illa við mig þegar einhverju sem ég nota mikið er breytt án samráðs við mig. Ég varð miður mín þegar kaffimolinn var tekinn úr makkintosinu (já ég játa, ég er svo mikill hræsnari að ég versla stöku sinnum við það skítafyrirtæki Nestle) og það kemur alltaf illa við mig þegar útlitinu á netsíðum sem ég nota mikið er breytt.

Trix fannst mér aldrei gott og ekki heldur Lucky Charms.

Ertu ennþá með hálskirtlana? (FB leikur)

Þeir voru rifnir úr mér þegar ég var fjögurra ára. Ég man ennþá þegar ég vaknaði af svæfingunni. Enginn sem ég þekkti var hjá mér, ég var dauðhrædd, fárveik og mér hefur líklega aldrei liðið verr. Einhver hjúkrunarkona laug því að foreldrum mínum að ég hefði ekki grátið þegar ég vaknaði. Ég reyndi fyrst að leiðrétta það en fékk svo mikið hrós fyrir að vera ‘dugleg’ að ég lét bara gott heita og naut lyginnar.

Fjárans kirtlarnir hafa vaxið aftur og eru víst skrímsli að stærð. Læknar sögðu mér fyrir 5 árum að þyrfti að tæta þá úr mér aftur en ég er hrædd við svæfingar og slæ því þessvegna alltaf á frest.

Spurningar úr FB leik

Notast þú við kaldhæðni?

Nei. Ég er hjartahlý kona, trúi á hið góða í manneskjunni og stafa frá mér yl og ljósi hvar sem ég kem.

Myndir þú vera vinur þinn?
Jájá, ég og ég erum ágætar vinkonur og stöndum saman þegar við erum búnar að ákveða eitthvað. Við erum að vísu oft ósammála og þurfum að rökræða hlutina mikið og lengi áður en við komumst að niðurstöðu. Mér finnst ég stundum óþarflega gagnrýnin á mig og mér finnst svo aftur ég taka þeirri gagnrýni óþarflega illa. En við sættumst nú alltaf á endanum.

Ég held annars að það hljóti að vera hræðileg örlög að líka illa við einu manneskjuna sem maður kemst ekki undan.

Áttu börn? (FB leikur)

Ég á tvo yndislega stráka en þeir eru fullorðnir og það er ekki eins.

Mig langar í barnabörn en synir mínir eru ekki sammála mér. Haukur sagði einhverntíma að það vær tilgangslaust að tala um börn á meðan hann ætti ekki einu sinni kærustu. Ég sagði honum að hann gæti bara barnað einhverja lausgyrta dræsu eins og aðrir ungir menn og það væri áreiðanlega fínt að vera helgarpabbi. Hann tók mig ekki alvarlega. Allavega veit ég ekki til að nein dræsa sé ólétt eftir hann enn.

Ég er að vísu ekki eins viss um að það sé tímabært fyrir Darra að verða pabbi, en ég er búin að margbiðja hann að negla einhverja einstæða móður. Hann vill það ekki.