Annarskonar nánd

Elías þekkir líkama minn. Svo langt sem það nær.

Hann þekkir lyktina af mér, snertinguna við hörund mitt, hreyfingar mínar. Hann veit í hvaða stellingu mér finnst best að sofna. Hann þekkir viðbrögð mín við ýmsiskonar áreiti. Hann veit reyndar ekki hvað mér finnst óþægilegt því það hefur aldrei reynt á það en hann veit hvenær er líklegast að mig kitli, hvað kemur mér til og hvers konar snerting mér finnst notaleg. Halda áfram að lesa

Uppdeit

Það er ekki endilega samhengi á milli fréttagnægðar og bloggafkasta. Sem stendur eru aðstæður á þessa leið:

-Sveitamaðurinn er farinn til Danaveldis að smíða minkabúr, Byltingunni til mikillar armæðu. Sagt er að prinsinn brosi hringinn í Baunalandi og hafi aukið orðaforða sinn úr já og nei í jahá, jájá og neeejneii.

-Byltingin er búin að stinga anarkistabibblíunni í bakpoka ásamt hreinum sokkum (ósamstæðum) og tannbursta og hyggst halda austur á land í dag, til að uppræta framkvæmdir við Kárahnjúka eða í versta falli að kalla aldalanga bölvun yfir útsendara Landsvirkjunar.

-Elías truflaði ástargaldurinn minn, en nú er fullt tungl í nótt og mun ég þá gera aðra tilraun. Ennfremur mun ég kalla minniháttar bölvun yfir forkólfa Bílastæðasjóðs. Ekkert rosalegt samt. Bara svona sýnishorn af bölvun eins og t.d. að finna langt svart hár í matum sínum eða að reka við með miklum fnyk og látum í viðurvist fagurra kvenna.

Sniff

Æ Elías.

Hjartað í mér sýgur alltaf pínulítið upp í nefið þegar hann fer en kommonsensinn er verulega ánægður.

Og daginn eftir kemur sæti sölumaðurinn í Nornabúðina og spyr hvort ég eigi galdur til að hætta að reykja.

Meðan hárið er að þorna

Mér líður illa í mannþröng en magadansstelpurnar voru samt þess virði. Helga Braga eins og sveitt fjósakona innan um þessa álfakroppa. Fóstbræður fara henni betur. Kræst hvað mig langar á fleiri námskeið. Ég á m.a.s. nýtt peningabelti sem ég hef aldrei notað.

Hendurnar á okkur eins og frostpinnar, svo við fórum inn á kaffihús og eftir aðeins 40 mínútna setu lykta ég eins og skítahaugur. Fallegi kjóllinn minn sem ég var að nota í fyrsta sinn, kápan, nærfötin og hárið á mér. Frekar írónískt að augnrennsli, andnauð og óþefur skuli vera helstu merki þess að maður hafi orðið fyrir aðkenningu að félagslífi.

En sótthreinsun er lokið og Elías á leiðinni. Yndislegt að þekkja einhvern sem getur deilt með manni rúmi án þess að reka kjánaprikið á sér utan í mann í tíma og ótíma. Ég þarf að vinna minnst 6 tíma á morgun og hef ekki fengið frídag síðan um páska en skuldastaðan stefnir líka hraðbyrði í kökusneið. Handrit að rúnabók tilbúið. Meðvirkni minni við margháttaðri geðsýki hér með lokið. Matarboð annað kvöld.

Þetta eru góðir dagar.

Þarf það endilega að vera verðmætt?

Anna segir að raunveruleg verðmæti séu fólgin í vinum þínum en ekki þeim sem þú sefur hjá.

Einhvernveginn finnst mér rökrétt að sofa þá bara hjá vinum sínum. Verst að vinir mínir eru allir fráteknir. Nema Spúnkhildur og ég vil ekkert sofa hjá henni.

Reyndar komst ég að þeirri niðurstöðu fyrir nokkrum árum að það væri vesenisminnst að sofa hjá einhverjum sem mér er hæfilega illa við eða hef allavega nógu lítið álit á til að ekki sé hætta á að það þróist út í einhverjar ástargrillur. Mér hefur samt aldrei verið neitt illa við Elías en ég vissi líka að hann yrði ekkert í boði nema í stuttan tíma svo það var ekki verulega hætta á að yrði eitthvað ástarkjaftæði úr því.

Í augnablikinu er mér því miður ekki illa við neinn.

Skrýtið ástand

Ég er hvorki að bíða eftir Elíasi né leita að einhverjum öðrum og það er skrýtið ástand.

Ég kvaddi Elías formlega, fyrir löngu enda tilgangslaust að reyna að þróa samband við mann sem ætlar að verja mörgum árum í annarri heimsálfu. Þessvegna litum við heldur aldrei á það sem samband. Allt á hreinu fyrirfram og þannig á það að vera. Auk þess eigum við ekki margt sameiginlegt og hann mun líklega eignast sitt fyrsta barn um það leyti sem ég verð amma. Hann hefur samband við mig reglulega og mér þykir vænt um það en ég kvelst ekki af söknuði. Halda áfram að lesa