Großer Dummkopf

Mig dreymdi að aðstoðarmaður SDG, að nafni Gunni, hringdi í mig (við töluðum í skífusíma með gormasnúru eins og var á öllum heimilum 1975). Erindið var að bjóða mér lögmannsréttindi „undir borðið“ út á það að sækja mál gegn þýska ríkinu, en ríkisrekið dagblað hafði kallað SDG „Großer Dummkopf“.

Það sem stóð meira í mér en spillingin og efasemdirnar um að væri heppilegt að fara út í málflutning án þess að hafa lært neitt í réttarfari, var það að samúð mín var með blaðamanninum. Auk þess fannst mér hallærislegt að tengjast „Großer Dummkopf-málinu“.

Ég sagði Gunna að þetta væri aumingjaleg sneið af spillingunni og hvort hann gæti ekki boðið eitthvað fullorðins. Kveikti svo á upptökubúnaði sem var innbyggður í snúrusímann. Vaknaði í klemmu yfir því að vera eiginlega eins og Stasi en varð samt hrikalega fúl þegar ég áttaði mig á því að það var engin upptaka.

Heilaryksugan

Mig dreymdi að búið væri að finna upp heilaryksugu, sem hreinsaði burt dauðar frumur og önnur óhreinindi sem settust í heilafellingarnar og ollu elliglöpum. Svona eitthvað líkt og þegar tölvan verður hægvirk og þarf að hreinsa hana. Þetta var frekar einföld aðgerð, bara boruð nokkur göt í höfuðkúpuna, ryksugað og heilinn svo skolaður með edikblöndu. Tækið leit út eins og lyklaborðsryksuga með löngum, sveigjanlegum stút. Mig langar í svona tæki.

Andmælarétturinn

Draumfarir að morgni eftir andvökunótt:

Einar segir mér að Umboðsmaður Alþingis sé að koma í mat og að það sé best að gefa honum „andmælarétt“ og hafa kartöflubáta með. Var samt ekki að segja fimmaurabrandara heldur var þetta mjög djúp speki úr einhverjum frönskum réttarheimspekingi sem ég hef aldrei heyrt nefndan.

UA var ekki Tryggvi heldur eitthvert nördabarn úr ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar sem var samt Sjálfstæðisflokkurinn, og ég nennti eiginlega ekki að fá hann í mat. Ég byrjaði samt að setja sólþurrkaða tómata í stóra glerskál (ekki veit ég hvað ég ætlaði að gera við þá) en var svo allt í einu komin með UA niður á Austurvöll en við vorum að fara að kaupa jólagjafir. Ekki veit ég handa hverjum en ég var eindregið á þeirri skoðun að við gætum bæði varið tíma okkar betur.

Ullargarnsdraumur

Sofnaði og dreymdi að ég væri í prófi. Það var bara eitt verkefni á prófinu: „Fjallaðu um fjárstjórnarvald Alþingis í víðu samhengi“ og ég skrifaði:

1. Skattlagningarvald.
2. Fjárveitingarvald.

Á milli þessara tvíburaturna er vítt samhengi og teygjanlegt, fullt af appelsínugulu ullargarni.

 

Jarðarför á facebook

Í nótt dreymdi mig að íslenskur tónlistarmaður sem leit út eins og Mugison en var samt einhver annar, hefði látist af slysförum í útlöndum.

Þar sem reglugerð Landbúnaðarráðuneytisins heimilaði ekki innflutning á hráu kjöti var ekki hægt að flytja líkið heim og facebook logaði af skítkasti út í Jón Bjarnason.

Ættingjarnir neyddust til að grafa tónlistarmanninn, sem reyndist vera bróðir Bjarkar Guðmundsdóttur, í útlöndum. Ekki þótti raunhæft að reikna með að allir sem vildu kveðja hann færu utan til þess að vera við jarðarför svo þessvegna var ákveðið að útförin færi fram á facebook.

Þetta gekk ágætlega fyrir sig í megindráttum en mér fannst samt ægilega kjánalegt að sjá gula grátkalla og endalausar raðir af bleikum hjörtum á veggnum.

Þegar ég vaknaði dæsti ég yfir ruglinu sem fer fram í hausnum á mér í svefni. Ég er samt ekkert viss um að jarðarfarir á facebook séu langt undan.

Opið ræsi

Ég man mjg sjaldan drauma en síðustu nótt dreymdi mig einn táknrænan.

Ég var á Hverfisgötunni og rétt fyrir neðan Þjóðleikhúsið var búið að grafa alla götuna upp, miklu dýpra en svo að mögulegt væri að þetta væru aðeins vegaframkvæmdir. Lóa Aldísar var þar og kvikmyndatökumaður með henni og ég gekk til Lóu og spurði hvað væri að gerast. Hún sagði mér að stærsta klóakrottan hingað til væri fundin og einnig fullt af pöddum. Ég leit niður í uppgrafið ræsið og sá þar rottu, miklu stærri en nokkurn kött. Hún var ógeðfelld en ég varð hvorki hrædd né hissa, fannst kannski aðallega skrýtið að sjá bara eina rottu. Ég undraðist hinsvegar mikinn fjölda af pöddum sem líktust kakkalökkum