Andmælarétturinn

Draumfarir að morgni eftir andvökunótt:

Einar segir mér að Umboðsmaður Alþingis sé að koma í mat og að það sé best að gefa honum „andmælarétt“ og hafa kartöflubáta með. Var samt ekki að segja fimmaurabrandara heldur var þetta mjög djúp speki úr einhverjum frönskum réttarheimspekingi sem ég hef aldrei heyrt nefndan.

UA var ekki Tryggvi heldur eitthvert nördabarn úr ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar sem var samt Sjálfstæðisflokkurinn, og ég nennti eiginlega ekki að fá hann í mat. Ég byrjaði samt að setja sólþurrkaða tómata í stóra glerskál (ekki veit ég hvað ég ætlaði að gera við þá) en var svo allt í einu komin með UA niður á Austurvöll en við vorum að fara að kaupa jólagjafir. Ekki veit ég handa hverjum en ég var eindregið á þeirri skoðun að við gætum bæði varið tíma okkar betur.