Falskar minningar

Martraðir bernsku minnar snerust um hyldýpi. Að detta fram af björgum, niður um holræsi, ofan í skurð. Í draumunum voru mamma mín og amma alltaf nálægar en þær björguðu mér ekki. Stundum ýttu þær mér fram af brúninni. Ég vaknaði hljóðandi og kaldsveitt en neitaði að tjá mig um efni martraðarinnar.

Enn í dag dreymir mig hengiflug þegar ég er undir álagi en á fullorðinsárum er ég ein í draumnum og yfirleitt á miklum hraða. Ég missi stjórn á bíl og hann flýgur fram af hengiflugi eða brú eða ég ríð hesti sem skyndilega hættir að láta að stjórn og veður með mig fram af bjargbrún eða ofan í gjá.

Kannski eiga þessir draumar rætur að rekja til áfalls eða reynslu sem hafði djúpstæð áhrif á mig. Allavega datt mér það í hug þegar móðir mín sagði mér frá atviki sem ég mundi ekki eftir enda líklega of lítil þegar það átti sér stað til að það sé raunhæft að ég muni eftir því.

Ég var líklega tæpra tveggja ára.  Við bjuggum í kjallaraíbúð í blokk. Ömmu og mömmu hafði orðið sundurorða. Mamma tók mig í fangið,  gekk upp á næstu hæð, sagðist ætla til vinkonu sinnar sem bjó þar  og tilkynnti ömmu að samtalinu væri lokið. Amma sætti sig ekki við þau skilaboð og kom upp á eftir henni. Amma tók mig í fangið. Ég var ægileg ömmustelpa og hef sennilega sóst eftir því sjálf. Ég sat á mjöðm ömmu minnar og þar sem þær stóðu þarna á stigapallinum fóru þær að hnakkrífast. Ég horfði niður í hyldýpið fyrir neðan og fór að orga. Kannski hræddist ég reiðilegar raddir þeirra, kannski var ég hrædd um að detta. Líklega hvorttveggja.

Ég mundi ekkert eftir þessu fyrr en mamma fór að tala um þetta en þá rifjaðist það upp og seinna varð minningin ljóslifandi. Ég sé fyrir mér sandblásið glerið í útidyrahurðinni, rautt teppið á stiganum, sé mömmu standa nær tröppunum með hárið greitt í tagl. Amma er í loðnu, svörtu og hvítu kápunni sinni og ég gríp litlu höndunum mínum í mjúkt gerviefnið. Annar fóturinn á mér nemur við stigahandriðið og ég horfi niður á kjallaragólfið. Það er dimmt þarna niðri.

Minningin er raunveruleg. Ég greini engan mun á henni og öðrum bernskuminningum mínum frá blokkinni í Efstalandinu. Samt stenst hún ekki.

Ef amma kom upp á eftir mömmu hefur hún sennilega staðið nær stiganum. Það þarf ekki endilega að vera, því fólk er færanlegt og ef þetta væri það eina, tryði ég sennilega minningunni. En það er fleira. Rauða teppið var á stofunni heima, ekki stigagangnum. Frá stigapallinum er útilokað að sjá útidyrnar með sandblásna glerinu. Og kápan sem amma var í, hana eignaðist hún mörgum árum síðar.

Sennilega upplifði ég hávaðarifrildi á stigapalli og tengdi það óttanum um að detta. Kannski hafði það mikil áhrif á mig. Kannski hefði ég munað það í alvöru ef ég hefði verið árinu eldri eða bara hálfu ári eldri.

En ég man það ekki. Ekki atvikið sjálft. Minningin, svo greinileg og lifandi sem hún er, er sköpuð síðar. Kannski blundar raunverulega minningin einhversstaðar djúpt í afkimum sálarinnar og kannski er annað gleymt atvik á bak við drauminn um að missa stjórn á bíl. Eða kannski á sá draumur rætur að rekja til annars atviks sem ég hef aldrei gleymt, þegar ég um þriggja ára aldurinn, tróð mér á milli framsætanna í bláa Volkswagenbílnum, greip í stýrið og ók bílnum út í skurð. Ég man að ég greip í stýrið en ég man ekki hvernig bíllinn fór út af veginum og ofan í skurð. Hinsvegar man ég vel eftir gula kranabílnum sem kom og dró hann upp. Man að mamma var að tala við mann og það var mjög fíngerður rigningarúði. Ég stóð við hliðina á henni og hélt í drapplitu úlpuna hennar. Það var gylltur hringur á rennilásnum á vasanum og ég fylgdist með stóra, gula kranabílnum draga litla, bláa bílinn okkar upp úr skurðinum.

Kannski gæti ég rifjað upp hvernig bíllinn fór út af veginum. Kannski gæti ég líka rifjað upp það sem raunverulega gerðist á stigapallinum. Ég veit það ekki og kannski er engin leið til að meta hvenær minning er raunveruleg og hvenær ekki. Hitt veit ég að ég, sem á annars frekar erfitt með myndræna hugsun og sé t.d. fyrir mér skugga og útlínur frekar en nákvæmar myndir af fólk og stöðum þegar ég les, get rifjað upp í smáatriðum atburði sem er útilokað að ég muni eftir, jafnvel atvik sem ég varð öruggelega ekki vitni að. Ég á mér nákvæmar, lifandi minningar um avik sem ég sá ekki.

Ég sá aldrei kranabílinn þótt minningin sé ljóslifandi því þegar kranabíllinn kom var ég löngu farin upp á spítala í skoðun. Mig rámar líka í lækninn sem þreifaði á mér og komst að þeirri niðurstöðu að ég hefði sloppið ómeidd en minningin um gula kranabílinn er þó greinilegri.

Þessi atvik, sem ég man svo greinilega eru dæmi um falskar minningar. Minnisrannsóknir sýna að falskar minningar eru algengar og nákvæm lýsing vitna á atvikum er ekki áreiðanleg heimild um það sem gerðist. Samt sem áður ræður framburður vitna oft úrslitum um niðurstöðu dómsmála