Großer Dummkopf

Mig dreymdi að aðstoðarmaður SDG, að nafni Gunni, hringdi í mig (við töluðum í skífusíma með gormasnúru eins og var á öllum heimilum 1975). Erindið var að bjóða mér lögmannsréttindi „undir borðið“ út á það að sækja mál gegn þýska ríkinu, en ríkisrekið dagblað hafði kallað SDG „Großer Dummkopf“.

Það sem stóð meira í mér en spillingin og efasemdirnar um að væri heppilegt að fara út í málflutning án þess að hafa lært neitt í réttarfari, var það að samúð mín var með blaðamanninum. Auk þess fannst mér hallærislegt að tengjast „Großer Dummkopf-málinu“.

Ég sagði Gunna að þetta væri aumingjaleg sneið af spillingunni og hvort hann gæti ekki boðið eitthvað fullorðins. Kveikti svo á upptökubúnaði sem var innbyggður í snúrusímann. Vaknaði í klemmu yfir því að vera eiginlega eins og Stasi en varð samt hrikalega fúl þegar ég áttaði mig á því að það var engin upptaka.