Drög

Birta: Ég held að þú sért að leggja drög að vandræðum.
Eva: Æ, góða láttu mig í friði. Það er ekki eins og ég hafi verið að máta brúðarkjóla.
Birta: Nei, ætli þú mátir ekki bara dindilinn á honum. Og verðir svo steinhissa þegar þú kemst að því að ekkert annað í fari hans passar við þig. Ég sé alveg í gegnum hann get ég sagt þér, og þetta byrjar EKKI gæfulega.
Eva: Þú ert aldeilis athugul, ég tók ekki eftir neinu ógæfulegu.
Birta: Og þú ætlar bara að hundsa innsæi mitt? Dettur þér ekkert í hug að þetta bendi til þess að hann hafi eitthvað að fela?
Eva: Fjárans tortryggnin í þér alltaf hreint, hvað heldurðu að þetta eina smáatriði, EF það er þá rétt hjá þér, segi okkur um hann.
Birta: Ekki þetta atriði í sjálfu sér, heldur það að hann skuli ekki bara hafa sagt það hreint út. Af hverju er það feimnismál ef ekkert meira hangir á spýtunni?
Eva: Af því að fólk gengur út frá því sem vísu að ef þessi tiltekni kubbur er ekki í kassanum, hljóti pakkinn að vera gallaður. Sjáðu okkur, við spurðum ekki einu sinni, við reiknuðum bara með kubbnum.
Birta: Hann hlýtur þá að líta svo á sjálfur að hann vanti þennan kubb. Sárlega. Annars hefði hann leiðrétt okkur.
Eva: Jæja, segjum við kannski Pétri og Páli allt sem við skömmumst okkar ekki fyrir?
Birta: Nei en það er bara af því að fólk er fífl.
Eva: Flest fólk dæmir mann út frá yfirborðinu. Hann hefur enga ástæðu til að ætla að ég sé eitthvað öðruvísi og ég skil bara vel að hann nenni ekki að útskýra fyrir ókunnugri manneskju hluti sem þarfnast ekki réttlætingar. Auk þess getur vel verið að þér skjátlist. Ég var lengi að leita að bílastæði og túlkunargleði þín er ekki beinlínis í lágmarki þegar karlmenn eru annars vegar.

Birta: Kannski er hann líka áhættufíkill, þú sérð nú áhugamálin hans.
Eva: Jájá, það getur verið stórkostlega varasamt að reyna á skrokkinn á sér. Eða gæludýrahaldið, það er auðvitað mjög grunsamlegt að eiga kött.
Birta: Hann á nú ekkert bara kött.
Eva: Ég held ekki að hann sofi með hitt dýrið uppi í rúmi hjá sér.
Birta: Kannski er hann gjaldþrota laumureykingamaður og alveg á kafi í djamminu. Kannski hefur hann misst bílprófið vegna ölvunaraksturs.
Eva: Já, kannski. Kannski er hann líka keðjusagarmorðingi, hver veit?

Eva: Birta. Ertu búin að hleypa skrattanum úr sauðarleggnum?
Birta: You and me and the devil makes three.
Eva: Drottinn minn djöfull er ég orðin þreytt á að dragast með ykkur hvert sem ég fer.

Þá lagðist skrattinn í gólfið og tók traustataki í pilsfaldinn minn.

 

Skrattinn í leggnum

Hann brölti um í sauðarleggnum í nótt og tókst að hagga beininu, m.a.s. velta því nokkrum sinnum þannig að glumdi í gólfinu undir rúminu mínu. Þegar ég vaknaði í þriðja sinn, hótaði ég að sækja róðukross og fimmarmastjörnu og Ægishjálm ef hann hefði sig ekki hægan.
-Einhversstaðar verða vondir að vera, sagði hann.
-Gakktu þá í Sjálfstæðisflokkinn gerpið þitt, svaraði ég.
-Mig langar í karlmann! gargaði Birta. Kastaðu þessum skrattakolli fram af svölunum og sæktu strák í staðinn.
-Ef þú fengir að ráða myndirðu láta okkur éta allar kökurnar í bakaríinu,
sagði ég.
-Já en bara sætu kökurnarm ekki súrdeigsbrauðin og við færum EKKI í ruslagáminn til að sækja uppþornaðar kúmenkringlur.
-Þær eru nú samt hollari og það vill svo til að það er ég sem ræð þessu
sagði ég.
Þá hló Skrattinn í sauðarleggnum svo hátt að ég hélt að tappinn hrykki úr holunni.

Noj!

Birta: Mér lýst ekkert á þetta! Ég vil að þú hendir þessum helvítis síma í sjóinn.
Eva: Hættu þessari vitleysu.
Birta: Vitleysu! Hann var m.a.s. búinn að eiga við hann áður.
Eva: Hann hlóð símann fyrir okkur, svo við gætum notað hann strax. Og teiknaði á hann hjarta. Ég myndi nú bara kalla það ósköp sakleysislega umhyggju. Halda áfram að lesa

Að hylja naflann

Afmæli Önnu. Bloggheimur mættur í grímubúningum og það virðist viðeigandi. Við erum uppdiktaðar persónur, allavega að nokkru leyti og gervið má nota til að viðhalda ákveðinni fjarlægð. Gott ef mér finnst ekki hálfóþægilegt þegar ég kynni mig sem Sápuóperu og viðmælandinn spyr um eigið nafn. Halda áfram að lesa

Bögg

Ég held að ráterinn minn og blogger séu í hörkufýlu hvor út í annan. Hvort sem ég fer í gegnum nýja trixið eða reyni að blogga á hefðbundinn hátt, verða færslurnar undarlegar útlits og mánudagsfærslan vill bara ekki birtast á blogspot þótt hún sjáist inni á blogger. Samt var hún búin að vera uppi í einn dag og ég var búin að fá viðbrögð við henni þegar hún bara hvarf!

Kannski er andi einhvers framliðins tölvunörds að ásækja mig.

Horfinn

Nú ertu horfinn. Í bókstaflegri merkingu. Þegar ég kastaði á þig Hulinshjálmi, var hugmyndin sú að þú hyrfir úr huga mínum, ekki sú að jörðin gleypti þig. Næst nota ég varnarstaf með.

Ég veit að þú lest bloggið mitt og þar sem þú svarar ekki tölvupósti (og ég veit því ekki hvort þú lest hann) ætla ég að birta skilaboðin hér. Halda áfram að lesa